Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 11/2012

Tollflokkun á vörunni Onico sem tóbakslíki

23.3.2012

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 27. febrúar 2012, hefur Í ehf., kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 28. desember 2011, um tollflokkun á vörunni Onico. Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra um að flokka vöruna í tollflokkinn 2403.9999 verði endurskoðuð. Þar sem varan er að mati kæranda hvorki tóbak né tóbakslíki telur hann rangt að fella hana undir 24. kafla í tollskrá.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 28. desember 2011 flutti kærandi inn sendingu frá Svíþjóð með sendingarnúmerið S ARN 28 12 1 SE VAG W046. Sendingin var tollafgreidd sama dag með SMT-tollafgreiðslu og var varan Onico flokkuð í tollflokkinn 2403.9999 sem tóbakslíki eða staðgengill tóbaks. Ákvörðun um tollflokkun var kærð með bréfi dags. 27. febrúar 2012. Kærunni fylgdu gögn um vöruna af heimasíðu framleiðanda. Þá gaf tollflokkunarsérfræðingur Tollstjóra úrskurðaraðila ítarlega umsögn um vöruna auk þess sem aflað var álita frá tollayfirvöldum í Noregi og Sviss.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að varan hafi verið rangt tollflokkuð með tilliti til gerðar hennar og notkunarmöguleika. Samkvæmt kæranda flokkast varan lögum samkvæmt ekki sem tóbak eða tóbaksvara. Tóbaksvarnarlög nr. 6/2002 gildi ekki um vöruna og ekkert er því til fyrirstöðu að selja hana í smásölu án þeirra takmarkana sem gilda um tóbak og tóbaksvörur. Við framleiðslu vörunar séu einvörðungu notuð hráefni sem flokkast sem matvæli og skaðlaust sé að neyta vörunar. Að mati kæranda var ekki farið eftir reglum um tollflokkun vöru við töku ákvörðunar Tollstjóra en samkvæmt 3. gr. þeirra skal vöruliður sem felur í sér nákvæmasta vörulýsingu tekinn fram yfir vörulið með almennri lýsingu. Fer kærandi fram á að varan verði felld undir II. flokk tollskrár og 20. kafla en þar sé henni best lýst. Að lokum er kærandi ósáttur við að varan skuli bera tóbaksgjald sem er helmingi hærra en gjald á neftóbaki, eða 13,08 kr. pr. gramm.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í málinu snýst annars vegar um tollflokkun vörunar Onico sem tóbakslíki og hins vegar um hvort réttmætt sé að varan skuli bera tóbaksgjald.

Vara sú sem um er deilt er staðgengill eða valkostur í stað munntóbaks. Tvenns konar útgáfur fást af vörunni sem tugga eða í grisjupoka og eru þær notaðar á sama hátt og munntóbak, til tuggu eða grisjupokarnir settir undir vörina. Varan er framleidd úr jurtum einkum mintu en inniheldur ekki afurðir tóbaksplantna. Varan er markaðssett fyrir neytendur sem vilja hætta reykingum eða annarri neyslu tóbaks. Óumdeilt er að varan inniheldur ekki tóbak, tóbaksafurðir eða nikótín. Megininnihald hennar eru afurðir sem venjulega teljast til matvæla og eflaust eru efnin tekin að einhverju leyti upp með munnvatni og fara því í gegnum meltingarveg þó vörunni sé að öllu jöfnu ekki kyngt. Þá er óhætt fyrir neytandann að borða eða gleypa vöruna. Kærandi fer fram á að varan verði flokkuð sem matvæli og vísar í II. og 20. kafla tollskrárinnar án nánari tillögu um tollflokkun. Embætti Tollstjóra gerir ráð fyrir að um misritun hafi verið að ræða og hafi kærandi ætlað að vísa í IV. flokk tollskrár og 20. kafla.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. tollalaga nr. 88/2005 skulu innflytjendur færa vöru til tollflokks í viðeigandi tollskjölum samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar sem birtar eru í viðauka I við tollalögin. Reglurnar eru birtar fremst í tollskránni en einnig er að finna athugasemdir í byrjun hvers flokks og kafla skrárinnar sem ráða túlkun hverju sinni. Tollflokkun skal byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi flokka og kafla samkvæmt túlkunarreglu 1. Þá segir í 1. málsl. reglunnar að fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum séu einungis til leiðbeiningar. Flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða skal jafnframt byggð á orðalagi vöruliða, undirliða og sérhverri tilheyrandi athugasemd við þá í viðeigandi köflum tollskrárinnar skv. túlkunarreglu 6. Við tollflokkun vörunnar Onico var farið eftir áðurnefndum reglum um túlkun tollskrárinnar.

Íslenska tollskráin er byggð á alþjóðlegri fyrirmynd og hefur Alþjóðatollastofnunin (World Customs Organization (WCO)) gefið út skýringarbækur um túlkun hennar (Explanatory Notes). Miða ber túlkun íslensku tollskrárinnar við samræmda lýsingu vara í þeirri alþjóðlegu. Þau tollskrárnúmer sem hér er um deilt eru byggð á skiptingu samkvæmt samræmdu skránni og því ber að líta til skýringargagna Alþjóðatollastofnunarinnar við túlkun þeirra. Þar sem nákvæma lýsingu á því hvaða vara skuli flokkuð sem tóbak eða tóbakslíki er ekki að finna í 24. kafla tollskrárinnar leitaði embættið í umræddar skýringarbækur. Skýringar við vörulið 2403 er að finna í kafla XXIV á bls. IV-2401-1 – IV-2403-1. Lýsing á þeim vörum sem falla undir kaflann er svohljóðandi:

This Chapter covers not only unmanufactured and manufactured tobacco but also manufactured tobacco substitutes which do not contain tobacco.“.

Þá er vörulið 2403 lýst á eftirfarandi hátt í samræmdu skránni:

Other manufactured tobacco and manufactured tobacco substitutes; “homogenised” or “reconstituted” tobacco; tobacco extracts and essences. (1) Smoking tobacco, whether or not containing tobacco substitutes in any proportion. (2) Chewing tobacco, usually highly fermented and liquored.

(3) Snuff, more or less flavoured. (4) Tobacco compressed or liquored for making snuff. (5) Manufactured tobacco substitutes, for example, smoking mixtures not containing tobacco. “.

Orðalag tollskrárinnar er ætlað að vera almennt og því er orðið „tóbakslíki“ notað yfir allar vörur sem ekki eru tóbak í hefðbundinni skilgreiningu. Skýringarbækurnar nefna tóbakslíki „tobacco substitutes“. Í ensk-íslenskri orðabók má finna þýðingu á orðinu „substitute“ sem staðgengill (eitthvað sem notað er í stað einhvers) t.d. gerviefni eða líki. Sú þýðing er í samræmi við ætlaða notkun vörunnar, en henni er ætlað að koma í stað tóbaks fyrir þá sem vilja hætta að reykja eða neyta annarra tóbaksafurða. Í íslenskri útgáfu tollskrárinnar hefur tobacco substitute verið þýtt sem tóbakslíki, en samkvæmt skýringum Alþjóðatollastofnunarinnar er nóg að varan sé staðgengill/líki tóbaks til þess að flokkast í 24. kafla. Þá er ekki krafist þess að vara innihaldi tóbak eða afurðir tóbaksplöntunnar.

Embætti Tollstjóra hefur við rannsókn málsins haft samband við tollayfirvöld í Noregi varðandi tollflokkun á samskonar vörum. Samskonar mál hafa risið þarlendis og var ákvarðað að vörur sambærilegar umræddri vöru yrðu flokkaðar í vörulið 2403. Norðmenn höfðu einnig leitað upplýsinga í framleiðslulandinu Svíþjóð og fengið svör tollembættisins þar um að flokkun þeirra væri samhljóða. Þá hefur Tollstjóri einnig fengið staðfestingu frá svissneskum tollayfirvöldum um að tollflokkun embættisins sé í samræmi við alþjóðlegu tollskrána.

Vörunni Onico er ætlað að vera staðgengill tóbaks skv. markaðssetningu framleiðanda og lýsingu kæranda. Varan hefur sama útliti og áferð og munntóbak eða „snus“ eins og það heitir á frummálinu, þ.e. sænsku. Varan skal tollflokkuð samkvæmt ofangreindum reglum og skýringum í vörulið 2403, sem framleitt tóbakslíki, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 2403.9999.

Með vísan til framangreinds er því niðurstaða Tollstjóra sú að tollflokkun vöru þeirrar sem um er deilt í þessu máli skuli standa óbreytt.

Hvað varðar álagningu tóbaksgjalds og athugasemdir kæranda er lúta að því þá er mælt fyrir um slíkt gjald í II. kafla laga nr. 96/1995 um gjald af áfengi og tóbaki og í reglugerð nr. 1082/2004 um tóbaksgjald og merkingar tóbaks. Samkvæmt 8. gr. laganna og 2. gr. reglugerðarinnar telst tóbak vera sérhver sú vara sem flokkast í 24. kafla tollskrár og ber að greiða tóbaksgjald af öllu tóbaki sem flutt er til landsins eða framleitt hér á landi. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur það hlutverk að leggja á og innheimta tóbaksgjaldið, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar. Þá er mælt fyrir um fjárhæð gjaldsins í 9. gr. laganna. Það er því ekki á færi Tollstjóra að ákvarða hvaða vörur beri tóbaksgjald, hversu hátt gjaldið eigi að vera eða sjá um innheimtu gjaldsins. Ákvörðun Tollstjóra snéri aðeins að tollflokkun vörunar og líkt og áður hefur komið fram er niðurstaða embættisins sú að ákvörðunin skuli standa óbreytt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem að framan er rakið, að ákvörðun Tollstjóra, dags. 28. desember 2011, um tollflokkun vörunar Onico sem barst til landsins í sendingu með sendingarnúmer S ARN 28 12 1 SE VAG W046, skuli standa óröskuð.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum