Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 11/2014

Tollflokkun á Bifor býflugnafóðri

1.12.2014

Reifun

X kærði tollflokkun á Bifor býflugnafóðri sem flokkað hafði verið í 1702.9009. Kærandi taldi að flokka ætti Bifor í tollskrárnúmer 2309.9011 sem fóður, en ekki sem matvæli undir 1702.9009. Kærandi vísaði jafnframt til álits Matvælastofnunar þar sem Bifor var flokkað í tollskrárnúmer 2309.9011.

Niðurstöður: Tollstjóri féllst ekki á að flokka Bifor býflugnafóður í tollskrárnúmer 2309.9011. Álit Matvælastofnunar um tollflokkun var ekki talið hafa þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Tollstjóri taldi að flokka bæri vöruna í 17. kafla sem síróp þar sem varan samanstæði af 75% sykri og 25% vatni. Vísað var til athugasemda við kafla 23 í tollskrá þar sem kemur fram að í vöruliðinn flokkist einungis afurðir úr jurta- eða dýraríkinu ef þær hafa glatað megineinkennum hins upprunalega efnis. Í þessu máli hafði varan ekki glatað einkennum sínum sem sykursíróp enda ekkert í vörunni annað en sykur og vatn. Einnig var vísað til bindandi álits Evrópusambandsins þar sem sykursíróp, úr 64% sykri og 35% vatni, var flokkað í 17. kafla. Var ákvörðun Tollstjóra því staðfest.

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, sem móttekið var þann 30. okt. sl., hefur X ehf. kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra, dags. 18. sept. 2014 um tollflokkun Bifor býflugnafóðurs.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun Bifor býflugnafóðurs í tollskrárnúmer 1702.9009 verði endurskoðuð og það verði þess í stað flokkað í tollskrárnúmer 2309.9011.

II. Málsmeðferð

Kærandi flutti Bifor býflugnafóður til landsins og var númer sendingarinnar X. Sendingin var tollafgreidd þann 10. júlí 2014 og býflugnafóðrið tollflokkað í tollskrárnúmer 1702.9009. Þann 1. september 2014 lagði innflytjandi fram leiðréttingu á aðflutningsskýrslu, skv. 116. gr. tollalaga, þar sem óskað var eftir niðurfellingu vörugjalda af dýrafóðri. Tollstjóri tók leiðréttinguna til meðferðar og sendi í kjölfarið bréf til innflytjanda, dags. 11. september 2014. Í bréfinu var m.a. farið fram á upplýsingar um á hvaða grundvelli væri sótt um niðurfellingu vörugjalds og jafnframt að lagðir væru fram tollmerktir reikningar og frekari gögn. Með ákvörðun, dags. 18. sept. 2014, var fóðrið flokkað í tollflokk 1702.9009 eins og áður. Í ákvörðuninni var tekið fram að ekki væri heimilt að fella niður 7% virðisaukaskatt og sykurskatt af sendingunni.

III. Meginröksemdir kæranda

Meginröksemdir kæranda eru að Bifor býflugnafóður sé rangt tollflokkað. Kærandi telur að flokka beri Bifor býflugnafóður í tollflokk 2309.9011 sem fóður en ekki í tollflokk 1702.9009 sem matvæli. Kærandi telur að Bifor sé dýrafóður sem sé eingöngu ætlað til notkunar í býflugnarækt. Kærandi vísar í kæru sinni til bréfs Matvælastofnunar, dags. 12. september 2014, þar sem kemur fram að Bifor hafi verið skráð þar sem fóður undir tollflokknum 2309.9011 en ekki sem matvæli undir 1702.9009.

Kærandi telur að meginmarkmiðið með skattlagningu á matvæli (sykurskatti) hafi verið að draga úr sykurneyslu hjá mannfólki og talað sé um matvæli í tengslum við sykurskatt. Í kæru kemur einnig fram að býrækt sé ný atvinnugrein á Íslandi og að mikilvægt sé að auknar álögur á fóður fyrir býflugur standi ekki þessari atvinnugrein fyrir þrifum. Hunangsframleiðsla muni vaxa sem atvinnugrein og aukaafurð af starfseminni sé meiri frjóvgun og blómgun í íslenskri náttúru.

Í kæru kemur einnig fram að hvert bú þurfi til vetrunar a.m.k. 32 lítra af Bifor blöndu sem fóður fyrir veturinn. Sökum veðurskilyrða síðustu 2 sumur (rigningar), hafi blýflugur ekki geta sótt blómasykur í blóm og því þurft fóðurgjöf allt sumarið. Fóðrun með sykurlausn sé forsenda fyrir því að búið lifi við slík veðurskilyrði, auk þess að vera nægilega stórt (fjölmennt) fyrir vetrarhvíldina, með nægan vetrarforða til að lifa fram á næsta sumar.

IV. Niðurstöður

Þetta mál snýst um tollflokkun vörunnar Bifor sem er ætluð til að fóðra býflugur. Varan er síróp sem samanstendur af 75% sykri og 25% vatni. Innflytjandi telur að vöruna eigi að flokka í 23. kafla tollskrár vegna þess að hún er einungis ætluð sem dýrafóður. Það er mat Tollstjóra að flokka eigi vöruna í 17. kafla sem síróp. Tollstjóri er bundinn af tollskrá varðandi tollflokkun, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 20. gr. tollalaga nr. 88/2005. Álit Matvælastofnunar á því að flokka eigi vöruna sem fóður getur þannig ekki haft úrslitaþýðingu varðandi hvaða tollskrárnúmer varan hlýtur.

Ýmis matvæli eru notuð sem dýrafóður. Athugasemd við kafla 23 í tollskrá kveður á um hvenær vara skuli flokkuð sem dýrafóður í vörulið 2309 og hvenær hún skuli flokkuð í önnur tollskrárnúmer í matvælaköflunum. Þar segir að í vöruliðinn flokkist einungis afurðir úr jurta- eða dýraríkinu ef þær hafa glatað megineinkennum hins upprunalega efnis.

Varan sem hér um ræðir hefur ekki glatað einkennum sínum sem sykursíróp enda er ekkert í vörunni annað en sykur og vatn. Benda má á bindandi álit frá Evrópusambandinu (BTI reference PLPL-WIT-2014-01442) um vöru sem er nánast að öllu leyti sambærileg umræddri vöru. Þar var um að ræða sykursíróp sem var 64% sykur og 35% vatn. Einnig hafði verið bætt timjan (1%) í blönduna til varnar gegn vírusum. Þessi vara var flokkuð í 17. kafla hjá Evrópusambandinu þar sem hún hafði ekki glatað einkennum sínum sem síróp.

Með vísan í það sem að framan greinir telur Tollstjóri að flokka eigi vöruna Bifor í tollskrárnúmer 1702.9009

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á Bifor býflugnafóðri í tollflokk 1702.9009 sé staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Borgartúni 21, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum