Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 11/2016

Höfnun tollafgreiðslu sendingar sem búslóð

23.10.2016

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um höfnun á beiðni um tollafgreiðslu sendingar sem búslóðarsending.

Tollstjóri taldi að kærandi hefði með sannanlegum hætti sannað búsetu sína erlendis og þannig uppfyllt almenn skilyrði tollfrelsis búslóða. Var fyrri ákvörðun Tollstjóra um höfnun tollafgreiðslu umþrættrar sendingar sem búslóðarsending felld úr gildi.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 12. september 2016, hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra dags. 18. ágúst 2016, um höfnun á beiðni um tollafgreiðslu sendingar B sem búslóð.

Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun.

II. Málsmeðferð

Þann 16. ágúst 2016 kom til landsins sending nr. B. Kærandi er skráður innflytjandi. Kærandi óskaði eftir því að sendingin yrði tollafgreidd sem búslóð og nyti þeirra fríðinda sem felast í innflutningi búslóða. Lagði kærandi inn aðflutningsskýrslu í samræmi við það þann 18. ágúst 2016. Sama dag var aðflutningsskýrslu kæranda hafnað, með þeirri athugasemd að greiða bæri aðflutningsgjöld af nýjum hlutum, þar sem lögheimili kæranda hafi ekki verið flutt úr landi. Lögð var inn ný aðflutningsskýrsla 19. ágúst 2016 sem afgreidd var þann 23. ágúst 2016.

Tollafgreiðsla sendingar B var kærð með tölvupósti dags. 12. september 2016.

Óskað var eftir frekari gögnum frá kæranda þann 12. október 2016. Bárust ný gögn til Tollstjóra og taldist gagnaöflun lokið þann 13. október 2016.

III. Meginröksemdir kæranda

Í röksemdum er fylgdu kæru segir kærandi að hún hafi sent búslóð til landsins frá Póllandi, bæði gamla og nýja hluti og þurft að greiða um 105.000 kr. í aðflutningsgjöld fyrir. Það hafi ekki verið ætlun hennar að senda neitt til landsins því hún hafi hvorki verið að starfa né verið við nám í Póllandi, heldur hafi hún farið til Póllands í fæðingarorlofi sínu og búið hjá foreldrum sínum. Starfsmaður C í Póllandi hafi sannfært kæranda að senda búslóðina eftir að varabæjarstjórinn í bænum sem kærandi bjó hafi staðfest búsetu hennar í rúmt ár.

Kærandi segist hafa tekið margt með sér til Póllands, en hafi hún haldið erlendis með D. Mikið af hlutum væri að koma aftur til baka. Aðflutningsskýrsla sem lögð hafi verið inn hafi gefið ranga mynd af innflutningnum, skýrslan hafi verið fyllt út eftir verðmætalista, hafi sá listi ekki verið yfir þá hluti sem keyptir voru í Póllandi, heldur heildaryfirlit yfir andlag sendingarinnar, gamla sem og nýja hluti.

Af þessum sökum óskar kærandi eftir því að Tollstjóri endurskoði ákvörðun sína um að hafna tollafgreiðslu sendingar B sem búslóð verði endurskoðuð og kæranda endurgreidd þau aðflutningsgjöld sem hún hafi greitt.

IV. Niðurstöður

Í málinu er deilt um tollafgreiðslu sendingar B, hvort sendingin eigi að teljast vera búslóðarsending í skilningi 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 sbr. 16. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008, og njóta tollfrelsis við innflutning til landsins.

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu ber að túlka þröngt og verða því ríkar kröfur gerðar um að skilyrðum þeirra sé fullnægt.

Í 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, er að finna undantekningu frá ofangreindri meginreglu. Samkvæmt ákvæðinu er búslóð manna sem flytjast búferlum hingað til lands tollfrjáls, enda hafi viðkomandi haft búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins. Ákvæðið er nánar útfært í reglugerð nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Í 1. tl. 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar segir að tollfrelsi búslóða sé háð því almenna skilyrði að innflytjandi hafi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins. Tollstjóri getur samkvæmt 2. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 áskilið að innflytjandi sýni fram á að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 16. gr. með skjalfestum hætti, t.d. með því að framvísa dvalarleyfi eða starfssamningi.

Við mat á því hvort skjal geti talist vera fullnægjandi sönnun um það hvort kærandi uppfylli almenn skilyrði tollfrelsis búslóða sbr. 2. mgr. 16. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008 verður að líta til eðlis þess skjals sem kærandi lagði fram til þess að færa sönnur á dvöl sína erlendis.

Kærandi hefur lagt fram stimplað vottorð frá yfirvöldum í E, þar sem bæjarritari bæjarins vottar að kærandi hafi búið í bænum frá 1. ágúst 2015 til þess dags er vottorðið er dagsett, 2. ágúst 2016. Einnig lagði kærandi fram enska þýðingu löggilds skjalaþýðanda af vottorðinu.

Með framlagningu fyrrnefnds vottorðs telst kærandi hafa sýnt fram á með skjalfestum hætti sbr. 2. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi, að kærandi uppfylli almenn skilyrði tollfrelsis búslóða skv. 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 sbr. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun tollafgreiðslu sendingar B sem búslóð, er felld úr gildi.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum