Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 12/2003

Úrskurður tollstjórans í Reykjavík varðandi innflutning búslóðar.

3.12.2003

Embættið móttók bréf innflytjanda, dags. 9. október sl., varðandi innflutning búslóðar. Í bréfi innflytjanda er þess óskað að embættið heimili dóttur innflytjanda D., að flytja inn í tengslum við heimflutning sinn, þá muni sem hún kaupir erlendis sem hluta af búslóð allrar fjölskyldu innflytjanda og með því geti hún nýtt rétt fjölskyldunnar til tollaívilnunar, skv. 3. gr. reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum.

 

Reglugerð nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum er sett með stoð í 5., 6., og 148. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum. Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að heimilismunir manna sem flytja búferlum hingað til lands skulu undanþegnir aðflutningsgjöldum að uppfylltum vissum skilyrðum, sem nánar eru tilgreind í 3. gr. Í 2. tl. 1. mgr. 3. gr. kemur fram það skilyrði að um sé að ræða notaða heimilismuni sem hafi verið í eigu viðkomandi í a.m.k. eitt ár. Þó mega heimilismunir sem viðkomandi hefur átt í skemmri tíma vera að heildarverðmæti allt að 100.000 kr. að smásöluverði á innkaupsstað án nokkurs frádráttar á sköttum vegna útflutnings. Fjárhæð þessi gildir fyrir hvern fjölskyldumeðlim sautján ára og eldri en helmingi lægri fjárhæð fyrir þá sem yngri eru. Við ákvörðun verðmætis einstakra hluta skal leggja til grundvallar reikninga og kvittanir þar sem verð hluta er tilgreint. Séu slík gögn ekki tiltæk skal miðað við smásöluverð sams konar eða svipaðra hluta í verslun hér á landi.

 

Heimild fjölskyldu yðar, sem saman stendur af S., E., D., M., T. og I., til innflutnings á heimilismunum sem viðkomandi hefur átt í skemmri tíma en eitt ár, nemur að heildarverðmæti allt að fjárhæð kr. 500.000,00, samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 3. gr. framangreindrar reglugerðar.

 

Að D. undanskilinni, eru allir meðlimir fjölskyldunnar nú þegar fluttir til landsins án þess að hafa nýtt heimild til tollaívilnunar skv. 2. tl. 1. mgr. 3. gr., en D. er með skráð lögheimili í Finnlandi. Embættið telur að í skilningi 2. tl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 797/2000, þar sem talað er um fjölskyldumeðlim sautján ára og eldri, verði að líta svo á að D. sé talinn hluti af umræddri fjölskyldu. Í áðurnefndu bréfi innflytjanda er tekið fram að hluti af búslóð D. sé enn í Finnlandi enda verði hún búsett þar til vorsins 2004. Embættið telur í ljósi þess að D. er hluti af fjölskyldunni verði að líta svo á að búslóðin sem eftir er í Finnlandi sé hluti af búslóð allrar fjölskyldunnar.

 

Í 3. tl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 797/2000 kemur fram það skilyrði að viðkomandi hafi muni þessa með sér er hann flytur búferlum eða flytji þá innan sex mánaða frá því hann tók sér bólfestu hér á landi eða öðlast hér lögheimili. Tollstjóri getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef sérstaklega stendur á.

 

Ljóst er að umrædd fjölskylda, að D. undanskilinni, öðlaðist lögheimili hér á landi þann 15. ágúst 2003. Sé miðað við að innflutningur á hinum tollfrjálsu heimilismunum verði að hafa átt sér stað innan sex mánaða frá þeim sem fjölskyldan öðlaðist hér lögheimili, myndi fresturinn vera til 15. febrúar 2004. Í ljósi þess að D. er ekki flutt til landsins heldur mun flytja til Íslands vorið 2004 telur embættið að heimila eigi rýmri frest en sex mánuði, eða þar til 1. júlí 2004.

Úrskurður

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að D., sé heimilt að fara með heimild fjölskyldunnar til að nýta tollaívilnun, samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, fyrir allt að fjárhæð kr. 500.000,00 fyrir 1. júlí 2004.

Úrskurði þessum er heimilt að skjóta til fjármálaráðuneytisins, Arnarhvoli, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar taldir frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 797/2000.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum