Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 12/2004

Tollflokkun á húsbíl

28.5.2004

Vísað er til bréfa G, dags. 29. desember sl., þar sem kærð er ákvörðun embættisins um tollflokkun við innflutning á Ford húsbíl. Varan var flutt til landsins með sendingu númer E. Ákvörðunin er kærð á grundvelli 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

I.

Innflytjandi lagði fram við tollafgreiðslu aðflutningsskýrslu þar sem bifreiðin var tollflokkuð í tollskrárnúmer 8704.3299 - notuð ökutæki til vöruflutninga (bensín) að heildarþyngd yfir 5 tonn með vörurými. Starfsmenn tollstjóra gerðu athugasemd við þessa flokkun og töldu að bifreiðin væri rétt flokkuð í tollskrárnúmer 8703.2499 - notuð ökutæki aðallega gerð til mannflutninga, með bensínhreyfil með meira en 3000 rúmsentimetra sprengirými. Sendingin var þannig afgreidd þann 19. desember 2003.

II.

Ágreiningurinn er því um tollflokkun í vöruliði tollskrár. Því er haldið fram í kæru að bifreiðin skuli flokkast í vörulið 8704 – ökutæki til vöruflutninga, en tollstjóri heldur því fram að vöruliður 8703 – bifreiðar og önnur vélknúin ökutæki aðallega gerð til mannflutninga (þó ekki ökutæki í nr. 8702), þar með taldir skutbílar og kappakstursbílar, eigi betur við.

III.

Bifreið sú sem hér um ræðir er í grunninn af gerðinni Ford 350 sem hefur upphaflega verið framleiddur til vöruflutninga. Bifreiðinni hefur verið breytt á þann veg að fyrir aftan yfirbyggingu fyrir ökumann hefur verið sett á grindina hús sem hýsir fólk bæði til íbúðar og ferðalaga. Bifreiðar svona útbúnar geta verið innréttaðar á ýmsa vegu til þæginda fyrir þá sem þar dvelja allt eftir óskum eiganda og kallast á ensku ýmist campers eða motorhomes.

IV.

Ísland er aðili að alþjóðlegum samningi um samræmda vörulýsingar- og vöruheitaskrá, samræmd tollskrá. Alþjóðatollastofnunin (World Customs Organization (WCO)) hefur umsjón með samningnum og framkvæmd hans og hefur í því skyni m.a. gefið út skýringarbækur um túlkun hans (Explanatory Notes). Samningurinn um samræmdu tollskrána var undirritaður fyrir Íslands hönd hinn 10. janúar 1985, sbr. auglýsingu nr. 25/1987 í C-deild Stjórnartíðinda. Með lögum nr. 96/1987, um breyting á tollalögum nr. 55/1987, voru tollflokkunarreglur samræmdu skrárinnar teknar í notkun hér á landi við tollafgreiðslu á vörum 1. janúar 1988, en tollskráin og túlkunarreglur hennar er birt sem viðauki I við lögin.

Við flokkun vöru í tollskrá ber að fara eftir túlkunarreglum hennar og þá fyrst og fremst þeirri fyrstu sem hljóðar svo: „Fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum eru einungis til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka og kafla og brjóti það ekki í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda skal fylgt eftirfarandi reglum:”

Við mat á því hvor vöruliðurinn sem hér er um deilt eigi við verður því fyrst og fremst að líta til orðalags þeirra, annarsvegar orðalags vöruliðar 8703 „Bifreiðar og önnur vélknúin ökutæki aðallega gerð til mannflutninga (þó ekki ökutæki í nr. 8702), þar með taldir skutbílar og kappakstursbílar”, og hins vegar orðalags vöruliðar 8704 „Ökutæki til vöruflutninga”.

Vörur sem fluttar eru til landsins eru tollflokkaðar miðað við ástand þeirra þegar þeim er framvísað við tollyfirvöld, þ.e. við innflutninginn. Hvort varan hafi einhverntímann áður litið öðruvísi út eða muni taka einhverjum breytingum eftir innflutninginn skiptir ekki máli í þessu tilliti. Bifreiðin sem hér um ræðir var upphaflega framleidd til vöruflutninga en hefur síðan verið breytt og er hún við innflutninginn allt öðruvísi útbúin og getur alls ekki lengur talist ökutæki til vöruflutninga. Hún er nú þannig gerð að hún er útbúin ýmsum þægindum fyrir fólk til að ferðast með bifreiðinni og dvelja þar á áfangastað, m.a. er yfirbyggingin búin gluggum með gluggatjöldum. Yfirbyggingin hentar engan veginn til vöruflutninga, á henni eru til að mynda ekki neinar hleðsludyr fyrir farm.

Eins og fyrr segir er íslenska tollskráin byggð á alþjóðlegri fyrirmynd og Alþjóðatollastofnunin hefur gefið út skýringarbækur um túlkun hennar (Explanatory Notes). Skýringar við vörulið 8703 er að finna á bls. 1546-1547 og eru þar taldar upp nokkrar gerðir ökutækja sem falla undir þann vörulið. Liður (3) á bls. 1547 hljóðar svo: „Motor homes (campers, etc.), vehicle for the transport of persons, specifically equipped for habitation (with sleeping, cooking, toilet facilities, etc.).“ Lýsing þessi á ökutækjum sem falla undir vörulið 8703 í tollskrá er einmitt lýsingin á því ökutæki sem hér er til umfjöllunar.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, að bifreið af gerðinni Ford Cutaway Van 350 árgerð 1995, með fast númer D, sem flutt var til landsins í sendingu númer E, skuli flokkast í tollskrárnúmer 8703.2499 á grundvelli 1. og 6. almennu túlkunarreglna tollskrár.

Úrskurði þessum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 28. maí 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum