Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 12/2009

Endurgreiðsla innheimts virðisaukaskatts vegna vátryggingar sendingar

2.10.2009

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 29. júlí 2008, ítrekað með bréfi dags. 17. ágúst 2009, hefur M, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun um álagningu virðisaukaskatts hlutfallslega vegna vátryggingar fyrir sendingu nr. S ARN 01 07 8 DK AAR W030.

Kærandi krefst þess að innheimtur virðisaukaskattur af 197.025,00 kr. vegna vátryggingar fyrir sendinguna verði endurgreiddur og aðflutningsskýrsla leiðrétt í samræmi við það.

II. Málsmeðferð

Í júlí 2008 flutti kærandi inn sendingu í þremur gámum og greiddi af henni lögboðin aðflutningsgjöld. Við útreikning tollverðs var reiknað með fob-verði kr. 18.199.267,00 auk flutningsgjalds kr. 1.503.192,00 og vátryggingar kr. 197.025,00. T sáu um skjalagerð og greiðslu aðflutningsgjalda. Vátrygging var metin sem 1% af fjárhæð sendingar. Vátrygging hafi ekki verið greidd.

Þar sem upprunalega kæran barst ekki embættinu eða hefur glatast í meðförum þess er nú úrskurðað í málinu eftir að ítrekun barst með bréfi dags. 17. ágúst 2009.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir kröfu sína á því að ekki sé heimilt að innheimta gjald af skattstofni sem ekki er raunverulegur nema skýr lagaheimild standi til. Ákvæði 3. mgr. 15. gr. tollalaga gangi greinilega út frá því að trygging eða annar kostnaður hafi veri tekin og að tryggingu beri af þeim sökum að greiða. Kærandi hafi enga vátryggingu tekið og því hafi ekki verið um það að ræða að raunverulega hafi verið greidd eða að greiða beri ákveðna fjárhæð.

IV. Niðurstöður

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er kveðið á um að virðisaukaskattur af innflutningi skal innheimtur með aðflutningsgjöldum. Í 2. mgr. kemur fram að ákvæði tollalaga sem og reglugerða og annarra fyrirmæla settum skv. þeim lögum, skuli gilda um álagningu virðisaukaskatts við innflutning, að því leyti sem eigi er ákveðið í virðisaukaskattslögum.

Í V. kafla tollalaga nr. 88/2005, nánar tiltekið 14. og 15. gr., er kveðið á um tollverð og tollverðsákvörðun. Í 1. mgr. 14. gr. kemur fram að tollverð innfluttra vara er viðskiptaverðið, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiðir af ákvæðum 15. gr. Samkvæmt 3. tölul. 2. mgr. 15. gr. tollalaga skal vátryggingarkostnaður vera innifalinn í tollverði. Í 16. gr. tollalaga er kveðið á um heimild fjármálaráðherra til að setja með reglugerð nánari reglur um ákvörðun tollverðs og eins mat á tollverði, þar á meðal það sem bæta skal við tollverð samkvæmt ákvæðum 15. gr. Slíkar reglur voru settar með reglugerð nr. 1100/2006 um vörslu og meðferð ótollafgreiddrar vöru. Í 7. kafla reglugerðarinnar er að finna reglur varðandi tollverð og mat á tollverði. Samkvæmt 3. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar skulu kostnaðarliðir og gjöld sem um ræðir í 2. mgr. 15. gr. tollalaga, þ. á. m. vátryggingarkostnaður í tengslum við flutning vöru til innflutningsstaðar, innifalin í tollverði, án tillits til þess hvort kostnaðarliðirnir og gjöldin hafi raunverulega verið greidd eða ekki, enda sé unnt að ákvarða þau á grundvelli hlutlægra og mælanlegra atriða.

Samkvæmt ofangreindu ber að bæta kostnaði vátryggingar sem hluta af tollverð sendingar þeirrar sem um ræðir. Ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda, þann 9. júlí 2008 var því í samræmi við ákvæði tollalaga og reglugerðar nr. 1100/2006.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um álagningu virðisaukaskatts vegna sendingar nr. S ARN 01 07 8 DK AAR W030 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1144/2008.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum