Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 12/2010

Höfnun umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af gjöf

30.6.2010

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 18. maí 2010, hefur A, f.h. B, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun embættis Tollstjóra um höfnun umsóknar um endurgreiðslu virðisaukaskatts af gjöf til Sveitarfélagsins Árborgar.

Kærandi krefst þess að virðisaukaskattur verði endurgreiddur í samræmi við umsókn.

II. Málsmeðferð

Þann 5. febrúar 2010 sótti kærandi um endurgreiðslu aðflutningsgjalda vegna gjafar á tveimur lyftum fyrir hreyfihamlaða til Sveitarfélagsins Árborgar til notkunar í Sundhöll Selfoss. Umsókn um endurgreiðslu var hafnað með bréfi embættis Tollstjóra, dags. 22. mars sl. Ákvörðun um höfnun byggði á því að þiggjandi gjafanna uppfyllti ekki skilyrði um að vera mannúðar- eða líknarstofnun. Ákvörðun Tollstjóra um höfnun umsóknarinnar var kærð með bréfi kæranda, dags. 18. maí 2010.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur skilyrði fyrir endurgreiðslu uppfyllt, þar sem gjöfinni sé ætlað að nýtast til mannúðar- og líknarstarfsemi ekki einungis á vegum Sveitarfélagsins heldur allra stofnana og samtaka sem starfa á Selfossi og næsta nágrenni. Ekki sé önnur sundlaug á Selfossi til afnota fyrir fatlaða og hreyfihamlaða.

IV. Niðurstöður

Samkvæmt heimild í 6. mgr. 42. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt skal endurgreiða virðisaukaskatt af tækjum og búnaði sem mannúðar- og líknarstofnanir fá að gjöf eða kaupa fyrir styrkfé, enda sé um að ræða vöru sem nýtt er beint til viðkomandi starfsemi. Endurgreiðsluheimild samkvæmt þessari málsgrein er bundin sömu skilyrðum og gilda um gjafir til mannúðar- og líknarstarfsemi og koma fram í b-lið 8. tölul. 1. mgr. 5. gr. tollalaga, nr. 55/1987, nú b-liður 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Kveðið er á um nánari skilyrði endurgreiðslu í 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Þar segir að tæki, búnaður og aðrar fjárfestingarvörur sem gefnar eru til nota í starfssemi sjúkra-, umönnunar- og meðferðarstofnana, dvalar- og vistheimila og sambýla fyrir fatlaða, greiningarstöðva, öldrunarstofnana og stofnana í hliðstæðri starfsemi, slysavarnarfélaga, björgunarsveita, Rauða krossins og aðila sem hafa með höndum sambærilega starfsemi, eru undanþegnar aðflutningsgjöldum. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, skal greiða virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum. Meginreglan er því sú að greiða skal virðisaukaskatt af vörum. Undanþágur frá meginreglum skattalaga um gjaldskyldu á almennt að skýra þröngt. Því er það mat embættis Tollstjóra, með vísan til fordæma fjármálaráðuneytisins, að skilyrði undanþágu virðisaukaskatts verði tvímælalaust að vera uppfyllt, sbr. úrskurði ráðuneytisins dags. 21. maí 2004 og 27. ágúst 2004.

Starfsemi íþróttamiðstöðva og sundlauga er í eðli sínu ólík starfsemi þeirra stofnana og félaga sem talin eru upp í 33. reglugerðar nr. 630/2008. Íþróttamiðstöð eða sundlaug, sem ætluð er öllum almenningi til afnota, getur ekki fallið undir ofangreindar stofnanir eða samtök, sbr. úrskurð fjármálaráðuneytisins dags. 28. nóvember 2005.

Skilyrði fyrir endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 6. mgr. 42. gr. virðisaukaskattslaga, sbr. nú b- liður 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 33. gr. reglugerðar nr. 630/2008 eru ekki uppfyllt. Ákvörðun Tollstjóra um höfnun á endurgreiðslu virðisaukaskatts, dags. 22. mars 2010, er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á endurgreiðslu virðisaukaskatts, dags 22. mars 2010 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum