Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 12/2012

Ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun stafrænum myndarömmum

21.5.2012

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 8. mars 2012, hefur H ehf. kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á stafrænum myndarömmum af gerðinni Telefunken og Salora. Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra um að flokka vörurnar í tollflokkinn 8521.9021 verði endurskoðuð. Að mati kæranda skulu umrædd tæki flokkast í tnr. 8528.5100.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Á tímabilinu frá 22. nóvember 2010 til 31. janúar 2011 flutti kærandi inn fjórar sendingar, með sendingarnúmerin D814 06 12 0 CGN V949, E SEL 13 12 0 NL RTM V122, E BRU 31 01 1 NL RTM V376 og F 775 21 11 0 BE LGG V395, er innihéldu meðal annars stafræna myndaramma. Sendingarnar voru tollafgreiddar með SMT-tollafgreiðslu og voru vörur þær sem um er deilt í þessu máli færðar í tollflokk 8528.5100 sem skjáir eingöngu eða aðallega ætlaðir fyrir gagnavinnsluvélar. Tollstjóri leiðrétti tollflokkun kæranda með afgreiðslu 2 þann 22. nóvember 2011 þar sem vörurnar voru færðar í tnr. 8521.9021 sem myndflutningstæki.

Ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun var kærð með bréfi dags. 8. mars 2012. Kærunni fylgdu gögn um vörurnar af heimasíðu framleiðanda.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að myndarammarnir hafi verið rangt tollflokkaðir með tilliti til gerðar þeirra og notkunarmöguleika. Tollflokka beri umræddar vörur í tnr. 8528.5100. Tengimöguleikarnir séu engir aðrir en minniskort og/eða USB kort. Myndarammarnir séu eingöngu tengjanlegir við tölvu og hafa engin útgangstengi við sjónvarp. Engin efnisleg rök séu fyrir því að flokka vörurnar í tnr. 8521.9021. Þá bendir kærandi á að embættið hafi samþykkt sambærilega vöru í sendingu nr. F783 15 12 1 BEL GG V 342 í tnr. 8528.5100. Sú afgreiðsla hafi farið í athugun hjá Tollstjóra og eftir að gögn og lýsing vörunnar voru send embættinu var sú tollflokkun staðfest.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í málinu snýst um tollflokkun á stafrænum myndarömmum af gerðinni Telefunken og Salora. Kærandi er ósáttur við ákvörðun Tollstjóra frá 22. nóvember 2011 þar sem vörurnar voru færðar í tollflokk 8521.9021 sem myndflutningstæki og fer fram á að staðfest verði með úrskurði að vörurnar skuli flokka í tnr. 8528.5100.

Embættið hefur kannað umræddan búnað m.a. með því að fara á vettvang. Um er að ræða myndaramma í tveim stærðum 7“ og 10“. Búnaðurinn er þannig uppbyggður að hann spilar myndir af kortum og USB lyklum. Yfirleitt er um að ræða ljósmyndir en sum tækjanna geta einnig spilað lifandi myndir. Tækin hafa innra minni allt að 2GB og eru jafnframt tengjanleg við tölvu gegnum USB tengi. Myndirnar sem spilaðar eru birtast á skjá sem er sambyggður.

Kærandi vill tollflokka vörurnar í tnr. 8528.5100 sem skjái eingöngu eða aðallega við gagnavinnsluvélar en á það verður ekki fallist. Samkvæmt túlkunarreglu 1 og 6 við tollskrá skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og undirliða. Orðalag liðarins tekur af allan vafa um það að þar fari aðeins skjáir sem eingöngu eða aðallega eru ætlaðir til notkunar við gagnavinnslukerfi. Umrædd tæki eru hönnuð til að standa sjálfstæð á borðum eða hillum. Það eitt að hægt sé að tengja tækið við tölvu gerir það ekki að verkum að það sé aðallega til notkunar í gagnavinnslukerfum. Ef til álita kæmi að tollflokka tækin sem skjái yrðu þeir flokkaðir í 8528.5900, sem aðrir skjáir en þeir sem aðallega eru ætlaðir til nota í gagnavinnslukerfum.

Í raun má segja að umrædd tæki séu vélasamstæða úr tveim tækjum. Spilara annars vegar, tnr. 8521.9021 og skjá hins vegar, tnr. 8528.5900. Samkvæmt fyrstu túlkunarreglu tollskrár ber að líta til athugasemda við kafla og flokka skrárinnar við tollflokkun. Athugasemd 3 við XVI. flokk tollskrár segir að flokka beri vélasamstæður, settar saman í eina heild úr tveimur eða fleiri vélum, eins og eingöngu væri um að ræða þann vélarhluta eða þá vél sem gegnir höfuðhlutverkinu. Í þessu tilviki verður að teljast að spilarinn spili veigameira hlutverk en skjárinn sem sýnir lokaafurðina. Með hliðsjón af þeirri staðreynd ber að flokka umrædd tæki í tnr. 8521.9021 sem myndflutningstæki.

Orðalag við vörulið 8521 lýsir umræddum vörum best samanber túlkunarregla 1 við tollskrá. Þar segir að í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi kafla og flokka skrárinnar. Eftirfarandi orðalag er á vörulið 8521:

Myndupptökutæki eða myndflutningstæki (video), einnig með innbyggðum myndmóttakara (video tuner)

Þess ber að geta að umrædd tæki eru ekki með myndmóttakara svo það orðalag á ekki við í þessu tilfelli. Hins vegar er hér greinilega um myndflutningstæki að ræða og innra minnið gefur einnig möguleika á vistun myndefnis í einhverjum mæli.

Eins fram kemur í erindi kæranda þá hefur embættið eftir athugun samþykkt tollflokkun kæranda á sams konar búnaði í síðari sendingu, nr. F783 15 12 1 BEL GG V 342. Með hliðsjón af atvikum máls og sanngirnissjónarmiðum mun embættið ekki endurreikna eða krefjast hærri gjalda vegna þeirrar einstöku sendingar.

Með vísan til framangreinds er því niðurstaða Tollstjóra sú að tollflokkun vöru þeirrar sem um er deilt í þessu máli skuli standa óbreytt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem að framan er rakið, að ákvörðun Tollstjóra, dags. 22. nóvember 2011, um tollflokkun stafrænna myndaramma af gerðinni Telefunken og Salora sem bárust til landsins í sendingum með sendingarnúmerin D814 06 12 0 CGN V949, E SEL 13 12 0 NL RTM V122, E BRU 31 01 1 NL RTM V376 og F 775 21 11 0 BE LGG V395, skuli standa óröskuð.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum