Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 13/2003

Aðflutningsgjöld af sendingum

23.12.2003

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið erindi innflytjanda, dags. 27. nóvember sl. þar sem kærð er ákvörðun embættisins frá 6. nóvember sl. varðandi aðflutningsgjöld af sendingum L BAN 18 03 3 DK FRC R002, L BAN 18 03 3 DK FRC R003, L LIO 17 03 3 EE TLL R003, L LIO 17 03 3 RU KAD R001, L LIO 17 03 3 RU KAD R002, L LIO 23 02 3 EE TLL R001 og L LIO 23 02 3 EE TLL R002,

innflytjandi A.

Ákvörðun tollstjórans í Reykjavík byggði á því að vörur í framangreindum sendingum voru ótollafgreiddar og fundust ekki í vörugeymslum. Ekkert lá fyrir um að afhending varanna hefði verið heimiluð af hálfu embættisins.

Í VII. kafla tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, er að finna almenn ákvæði um tolleftirlit og meðferð ótollafgreiddrar vöru. Í 66. gr. tollalaga segir að stjórnendum farartækja, skipaafgreiðslum og öðrum, sem hafa ótollafgreiddar vörur í sínum vörslum til flutnings eða geymslu, er óheimilt að afhenda þær viðtakanda eða láta þær á annan hátt af hendi úr vörugeymslu eða farartæki án leyfis tollstjóra.

Í 105. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, segir að sé vara tekin úr vörslu farmflytjanda, úr tollvörugeymslu, tekin til notkunar eða flutt brott af frísvæði án þess að leyfi tollstjóra liggi fyrir eru aðflutningsgjöld þegar fallin í eindaga. Þegar þannig háttar skulu aðflutningsgjöld af viðkomandi vöru reiknuð út samkvæmt þeim að- flutningsgjöldum og tollafgreiðslugengi sem í gildi var á komudegi flutningsfars til landsins hafi vara verið í vörslu farmflytjanda eða innflytjanda, en hafi hún verið sett í tollvörugeymslu eða flutt á frísvæði skulu aðflutningsgjöld reiknuð út samkvæmt þeim aðflutningsgjöldum og tollafgreiðslugengi sem í gildi var þegar tollstjóri veitti leyfi til flutnings vöru þangað, nema sannað sé á fullnægjandi hátt að mati tollstjóra að nefnd atvik séu síðar til komin. Reikna skal frá sama tíma dráttarvexti af að- flutningsgjöldum þannig útreiknuðum.

Í 14. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, kemur fram sú meginregla að áður en vara eða sending er tekin úr vörslu farmflytjanda eða annars vörsluaðila skuli innflytjandi láta tollstjóra í té aðflutningsskýrslu varðandi vöruna.

Í bréfi kæranda er tekið fram að aðflutningsskýrslum hafi ekki verið skilað meðan beðið var heimildar Aðfangaeftirlitsins fyrir innflutningnum, þar sem áskilið sé í 103. gr. tollalaga að skila skuli “tilskildum gögnum” með aðflutningsskýrslu. Í bréfi kæranda kom einnig fram að dráttur sá er varð á því að A. skilaði umræddum tollskýrslum varð af þeirri ástæðu einni að Aðfangaeftirlitið og Landbúnaðarráðuneytið drógu í meira en hálft ár að samþykkja innflutning á umræddum áburðarefnum. Kærandi tók fram að varan var flutt á starfssvæði kæranda eins og verið hafði endranær þar sem þess var vænst að umsókn um innflutningsleyfi yrði afgreidd frá Aðfangaeftirlitinu lögum samkvæmt án óhóflegs dráttar. Því telur kærandi að 105. gr. tollalaga verði að skoða í því ljósi að ekki þurfti leyfi tollstjóra til þess að flytja vöruna til kæranda og því eigi 105. gr. tollalaga ekki við í málinu. Rétt er að taka fram að embættið telur þvert á móti hafi verið með öllu óheimilt að taka vöruna í vörslu innflytjanda án þess að fyrir lægi samþykki tollyfirvalda og viðkomandi eftirlitsstofnunar.

Embættið telur að í ljósi þess að skýrt er tilgreint í 66. gr. tollalaga að í óheimilt sé að afhenda vörur án leyfis tollstjóra, verði að beita 105. gr. tollalaga um mál þetta. Því verði að líta svo á að framangreindar sendingar hafði því verið afhentar án leyfis embættisins og aðflutningsgjöldin því þegar fallin í eindaga, sbr. 105. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Kærandi telur að ekki sé unnt að líta svo á að umrædd aðflutningsgjöld séu fallin í gjalddaga þar sem að skilyrði 103. gr. tollalaga, sem fjalla um hvenær aðflutningsgjöld falli í gjalddaga eru ekki uppfyllt. Eins og að framan er rakið telur embættið að beita beri 105. gr. tollalaga um mál þetta, en þar er kveðið skýrt á um hvernig fara beri með útreikning dráttarvaxta þegar vara hefur verið afhent án þess að vera tollafgreidd. Þar segir að reikna skuli dráttarvexti á aðflutningsgjöld frá komudegi flutningsfars til landsins. Upphafsdagur dráttarvaxta er því komudagur flutningsfars til landsins. Hlutverk tollstjórans í Reykjavík er að fara eftir tollalögum nr. 55/1987, með síðari breytingum, og er embættinu því skylt að krefjast dráttarvaxta hafi vara verið afhent án leyfis tollstjóra.

Í bréfi kæranda kemur fram að hann leggi ríka áherslu á það að um er að ræða virðisaukaskatt sem hvort eð er hefði fengist endurgreiddur um það bil sex vikum eftir greiðslu skattsins, sbr. IX. kafla laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993 um innskatt. Í 37. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, er tilgreint að virðisaukaskattur af innflutningi skuli innheimtur með aðflutningsgjöldum. Skýrt er því kveðið á um það að tollstjóra beri að innheimta virðisaukaskatt við innflutning vöru. Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur ekki málefni varðandi innskatt undir höndum, heldur er það hlutverk skattstjórans í Reykjavík. Embætti tollstjórans í Reykjavík getur því ekki tekið afstöðu til þess hvort að umræddur virðisaukaskattur hefði verið endurgreiddur.

Í bréfi kæranda fer hann þess á leit að veittur verði, afturvirkt, greiðslufrestur á umrædd aðflutningsgjöld til 6. nóvember sl. Hvorki í 109. gr. tollalaga eða reglugerð nr. 390/1999 um greiðslufrest á aðflutningsgjöldum, er að finna heimild til þess að veita greiðslufrest afturvirkt. Embættið telur því að ekki sé unnt að verða við þessari beiðni kæranda.

Einnig fer kærandi fram á það, verði staðið við hina kærðu ákvörðun, þá áskilji hann sér rétt til þess að óska eftir endurgreiðslu á þeim hluta dráttarvaxtanna sem er vegna tímabilsins umfram framangreindar sex vikur sem liðuð hefðu þar til innskatturinn hefði fengist endurgreiddur. Embættið telur að ekki unnt að verða við þessu þar sem skýrt er kveðið á um upphafsdag dráttarvaxta í 2. mgr. 105. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum. Enga heimild er að finna í lögum eða reglugerðum sem heimila undanþágu frá þessu ákvæði tollalaga.

 

ÚRSKURÐUR

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að ákvörðun embættisins frá 6. nóvember 2003 um aðflutningsgjöld af framangreindum sendingum ásamt dráttarvöxtum, standi óbreytt.

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar taldir frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum. Sá hluti úrskurðarins er lýtur að dráttarvöxtum er kæranlegur til fjármálaráðuneytisins, Arnarhvoli, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar taldir frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 102. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

 

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum