Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 13/2004

Greiðslu eftirgefins vörugjalds af ökutæki

1.7.2004

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið erindi Ó, dags. 8. maí 2004 þar sem kærð er ákvörðun embættisins frá 6. febrúar 2004 um greiðslu eftirgefins vörugjalds af leigubifreiðinni A, skráður eigandi Ó.

Málavextir eru á þann veg að þann 24. nóvember 1999 undirritaði Ó yfirlýsingu um eftirgjöf vörugjalds af leigubifreiðinni A, sbr. lög nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum og reglugerð nr. 254/1993, um vörugjald af ökutækjum sem þá var í gildi. Yfirlýsingin felur í sér skuldbindingu þess efnis að eftirgefið vörugjald verði endurgreitt að fullu með verðbótum sbr. 2. mgr. 26. gr. reglugerðarinnar ef skilyrði 23.-24. gr. reglugerðarinnar eru ekki uppfyllt.

Um yfirlýsinguna sjálfa og umsókn til eftirgjafar eru ákvæði í 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar. Þar segir að í umsókninni skuli koma fram helstu upplýsingar um umsækjanda, svo sem nafn, kennitala, fast númer ökutækis, tegund þess o.fl. Jafnframt skuli umsækjandi undirrita yfirlýsingu um notkun ökutækisins og kvöð um greiðslu eftirgefinna gjalda til ríkissjóðs, verði breyting á notkun þess eða skipti það um eigendur innan tiltekins tíma, sbr. 26. gr. reglugerðarinnar. Þá skuli umsækjandi leggja fram önnur þau gögn er tollstjóri telur fullnægjandi til staðfestingar á að ökutæki og eigandi þess uppfylli skilyrði fyrir undanþágu.

Reglur um undanþágur frá greiðslu vörugjalds er að finna í V. kafla reglugerðar nr. 254/1993, nánar tiltekið í 21.-26. gr. Reglur um undanþágur frá greiðslu vörugjalds ber að skýra þröngt, þar sem um undantekningu er að ræða frá þeirri meginreglu að greiða skuli vörugjald í ríkissjóð af ökutækjum, sem skráningarskyld eru samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987. Í 4. tl. 23. gr., en henni var breytt með reglugerð nr. 43/1999, er mælt fyrir um lækkun vörugjalds af leigubifreiðum. Lækkun gjaldsins er háð skilmálum sem koma fram í 24. gr. reglugerðarinnar, en henni var einnig breytt með reglugerð nr. 43/1999 sem öðlaðist gildi 21. janúar 1999. Þar segir í 1. tl. um skilyrði lækkunar: “Umsækjandi [skal hafa] atvinnuleyfi til leigubifreiðaaksturs, skv. lögum um leigubifreiðar og leggi fram vottorð því til staðfestingar.” Þá segir í 2. tl.: “Umsækjandi njóti ekki eftirgjafar vegna annarrar leigubifreiðar”. Að lokum segir í 3. tl. sömu greinar: “Umsækjandi undirriti yfirlýsingu þess efnis að hann skuldbindi sig til þess að endurgreiða eftirgefið vörugjald að fullu, með verðbótum í samræmi við 2. mgr. 26. gr., hafi hann ekki að lágmarki 1.164.000 kr. í reiknað endurgjald af leiguakstri, sbr. 2. mgr. 1. tl. a-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, annað af næstu tveimur heilu almanaksárum eftir að eftirgjöf er veitt og að bifreiðin verði skráð sem leigubifreið í ökutækjaskrá” Í nóvember árið 1999 urðu því tekjur af leigubifreiðaakstri að nema að lágmarki 1.164.000. kr. til að uppfylla skilyrði um eftirgjöf vörugjalds.

Embættið hafnar því að með setningu reglugerðarinnar hafi stjórnvöld sett frekari skilyrði fyrir lækkun vörugjalds en lög nr. 29/1993 heimiluðu. Fyrst ber á það að líta að í 33. gr. reglugerðar 254/1993 kom fram að hún væri sett með stoð í 28. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Í lagaákvæðinu er ráðherra veitt heimild til að setja nánari reglur um framkvæmd laganna með reglugerð. Þá segir jafnframt í 3. mgr. 5. gr. laganna að ráðherra sé heimilt að setja nánari skilyrði í reglugerð um þau ökutæki sem falla undir 2. mgr. 5. gr., svo sem um notkun ökutækis, búnað þess og hvað teljist vera aðalatvinna skv. 4. tölul. 2. mgr., svo og ákvæði um endurgreiðslu á mismun vörugjalds skv. 3. gr. annars vegar og 2. mgr. hins vegar ef skilyrðunum er ekki fylgt. Meðal ökutækja í 2. mgr. 5. gr. eru leigubifreiðar til fólksflutninga en um þær er fjallað í 4. tl. Þar sem tekið er sérstaklega fram í lögunum að ráðherra sé heimilt að setja nánari skilyrði um notkun ökutækis, má ljóst vera að 4. tl. 23. gr. reglugerðarinnar, um innheimtu vörugjalds af leigubifreiðum, og 3. tl. 1. mgr. 24. gr. reglugerðarinnar um lágmarksviðmið varðandi reiknað endurgjald af leiguakstri, hafa skýra lagastoð. Embættið vill þó taka fram að það er ekki í verkahring þess að meta hvort tilteknar reglugerðir brjóti í bága við lög.

Í kæru Ó er einnig á það bent að Ó hafið fengið úthlutað leyfi til leigubifreiðaaksturs á grundvelli 5. mgr. 6. gr. laga nr. 134/2001. Í 14. gr. laga 134/2001 segir hins vegar að lögin hafi ekki tekið gildi fyrr en 15. mars 2002. Leyfi úthlutað á grundvelli þessara laga eiga því ekki við í málinu. Þau lög sem eiga við eru l. nr. 61/1995 um leigubifreiðar. Embættið mótmælir ekki að Ó hafi haft gilt atvinnuleyfi undir höndum þegar sótt var um niðurfellingu vörugjaldsins. Reglugerð 254/1993 er hins vegar sett með stoð í lögum nr. 29/1993 um vörugjald, með síðari breytingum, eins og fram hefur komið en ekki l. nr. 61/1995. Þá er þeirri röksemd hafnað að tekjutenging vörugjaldsins beinist aðeins að þeim sem eru í lægsta tekjuhópunum, heldur er einungis mælt fyrir um eitt ákveðið tekjulágmark, kr. 1.164.000, sem öllum er gert ljóst að er skilyrði fyrir niðurfellingu vörugjaldsins er þeir skrifa undir yfirlýsinguna. Eitt er látið yfir alla ganga og er byggt á sjónarmiðum um jafnræði borgaranna.

Embættið hefur ekki heimild til að taka sérstakt tillit til rekstraráfalla sem upp kunna að koma í rekstri leigubifreiðar. Reglugerð 254/1993 hefur engin ákvæði að geyma um slíkt. Þá hafi Ó engum gögnum skilað inn til embættisins er staðfesta þau áföll sem getið er um í kærunni. Er niðurfelling vörugjaldsins á þessum grunni því ekki heimil.

Með bréfi embættisins dags. 13. janúar 2003, var óskað eftir að send yrðu tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslum næstu tveggja heilu almanaksára eftir að eftirgjöf var veitt. Í framhaldi af því að ekkert svar barst var þess krafist með bréfi embættisins frá 9. janúar 2004 að Ó greiddi gjaldið innan 15 daga ella yrði gengið að lögveði tollstjóra í ökutækinu fyrir ógreiddu vörugjaldi, dráttarvöxtum og kostnaði, skv. 3. mgr. 111. gr. tollalaga, sbr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með síðari breytingum. Skattframtöl bárust embættinu eftir póstlagningu bréfsins. Reiknað endurgjald af leiguakstri var undir lágmarki kr. 1.164.000 bæði á árunum 2000 og 2001. Að mati embættisins eru því skilyrði 1.-3. tl. 1. mgr. og 2. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 254/1993 um eftirgjöf vörugjalds, ekki uppfyllt, en til þess að vörugjald sé eftirgefið verða öll skilyrði sem fram koma í lögum 29/1993 um vörugjald af ökutækjum og reglugerð 254/1993 að vera uppfyllt.

Þess er hér með krafist að Ó greiði eftirgefið vörugjald kr. 294.129 ásamt verðbótum kr. 54.942 og dráttarvöxtum kr. 23.793, samtals fjárhæð kr. 372.864 innan 15 daga frá póstlagningardegi þessa bréfs, skv. 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 254/1993, eða eigi síðar en 16. júlí nk. Um innheimtu dráttarvaxta fer eftir 3. mgr. 5. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og munu dráttarvextir reiknast frá 8. febrúar 2004, en þá voru liðnir 30 dagar frá því þér voruð fyrst krafðir um greiðslu gjaldsins og reiknast þeir til greiðsludags. Þær upplýsingar hafa fengist frá sýslumanninum í Reykjavík að þann 25. maí sl. hafi verið gert fjárnám í bifreiðinni B fyrir kröfunni. Veðböndum af þeirri bifreið verður aflétt ef greitt verður fyrir 16. júlí nk.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar skv. 100 gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að ákvörðun embættisins um greiðslu eftirgefins vörugjalds af leigubifreiðinni A, skráður eigandi Ó, standi óbreytt.

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá dagsetningu bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 1. júlí 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum