Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 13/2010

Álagning aðflutningsgjalda á bók

26.10.2010

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 8. janúar 2010, hefur B kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 álagningu aðflutningsgjalda á póstsendingu með sendingarnúmer P 150 04 01 0 IS R00 1065. Um var að ræða bók sem kom til landsins með póstsendingu frá fyrirtækinu a sem kærandi er skráður fyrir sem viðtakandi.

Kærandi krefst þess að aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar verði felld niður, þar sem um gjöf hafi verið að ræða.

II. Málsmeðferð

Þann 4. janúar 2010 kom til landsins bók með póstsendingu nr. P 150 04 0 0 IS R00 1065, sem var tollafgreidd hjá Íslandspósti þann 6. janúar 2010. Aðflutningsgjöld voru ákvörðuð og lögð á í samræmi við upplýsingar sem var að finna á límmiða frá fyrirtækinu a, þar sem fram kemur hvert innihald sendingarinnar er, verð hennar sem og kostnaður vegna flutnings, utan á pakkningu sendingarinnar. Aðflutningsgjöld voru 263,00 kr. í virðisaukaskatt. Þar fyrir utan innheimti Íslandspóstur 550,00 kr. í tollmeðferðargjald. Alls voru því 813,00 kr. til greiðslu. Kærandi kærði álagningu gjalda með bréfi dags. 8. janúar 2010.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að um hafi verið að ræða gjöf frá vini, sem keypt hafi verið af a. í Bretlandi. Meðal gagna sem kærandi lagði fram var pakkmiði („packing slip“) frá a. þar sem fram kemur að skráður sendandi gjafar er U. Á pakkmiðanum var m.a. að finna orðsendingu, þar sem fram kemur að um „síðbúna jólagjöf“ sé að ræða. Undir orðsendinguna ritar D. Kærandi óskar eftir því að gjöld af sendingunni verði felld niður með tilliti til þess að um jólagjöf hafi verið að ræða.

IV. Niðurstöður

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 með síðari breytingum er kveðið á um almenna tollskyldu, þ.e. að hver sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga er tollskyldur og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá. Virðisaukaskattur er lagður á við innflutning í samræmi við ákvæði 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Rétt er að taka fram að hér er einvörðungu fjallað um álagningu aðflutningsgjalda vegna sendingarinnar, þar sem álagning þeirra er kæranleg til Tollstjóra skv. 1. mgr. 117. gr. tollalaga. Embætti tollstjóra getur hins vegar ekki tekið afstöðu til réttmætis tollmeðferðargjalds þess, sem Íslandspóstur tekur fyrir að sjá um tollafgreiðslu sendingarinnar, þar sem ekki er um að ræða aðflutningsgjald, sbr. 1. tölul. 1. gr. tollalaga.

Í a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 er kveðið á um undanþágu frá almennri tollskyldu, þegar um gjafir er að ræða. Undanþágan er nánar útfærð í 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Til að þessi undanþáguheimild hafi gildi þurfa skilyrði áðurnefndra greina að vera uppfyllt. Skráður sendandi er fyrirtækið U, sem samkvæmt skráningu í þjóðskrá hefur skráð aðsetur í H. Því er um að ræða lögaðila, sem skráður er hérlendis, en 32. gr. reglugerðarinnar kveður á um að heimild til undanþágu sé bundin við að aðili, búsettur erlendis, sendi gjöfina. Því þarf að vera um persónu að ræða en ekki lögaðila. Með tölvupósti sendum 17. febrúar 2010 var kærandi upplýstur um þessi atriði og kom þeim skýringum á framfæri í tölvupósti að sendandi gjafarinnar hafi sagt honum að hann hafi greitt fyrir gjöfina með sínu persónulega kreditkorti, hins vegar hafi stillingu fyrir „invoice address“ ekki verið breytt frá fyrri kaupum. Þrátt fyrir beiðni embættisins þar um með tölvupósti sendum 22. febrúar 2010 hafa engin gögn verið lögð fram sem sýnt geta fram á þessa málavexti. Því eru skilyrði fyrir sendanda gjafar ekki uppfyllt og þar af leiðandi eru skilyrði til undanþágu frá almennri tollskyldu skv. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 ekki uppfyllt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda af sendingu nr. P 150 04 01 0 IS R00 1065 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum