Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 14/2017

Leiðrétting og lækkun álagðs vörugjald bifreiða í samræmi við undanþáguflokk fyrir ökutækjaleigur

19.7.2017

Reifun

A kærði synjun Tollstjóra um leiðréttingu vegna tollafgreiðslu á tveimur bifreiðum og krafðist þess að álagt vörugjald bifreiðanna yrði leiðrétt og lækkað í samræmi við undanþáguflokk fyrir ökutækjaleigur. Kærandi tollafgreiddi bifreiðarnar þann 23. mars 2017 og nýskráði þær síðan 4. apríl sama ár. Aftur á móti fékk kærandi ekki leyfi frá Samgöngustofu til reksturs ökutækjaleigu fyrr en í lok apríl 2017 og sótti um lækkun vörugjalds þann 17. maí 2017.

Tollstjóri leit til þess að við tollafgreiðslu bifreiðanna var skilyrði vörugjaldslaga um að fá að leggja á vörugjald samkvæmt undanþáguflokki ekki uppfyllt enda var kærandi þá ekki með leyfi til reksturs ökutækjaleigu frá Samgöngustofu. Auk þess var Tollstjóra óheimilt að lækka vörugjald af bifreiðunum þann 17. maí 2017 vegna þess að þá voru liðnir rúmir tveir mánuðir frá nýskráningu þeirra en skilyrði fyrir lækkun vörugjalds af m.a. bílaleigubílum er að sótt sé um slíka lækkun fyrir nýskráningu eða í beinum tengslum við hana. Kærandi hafði ekki tilskilið leyfi frá Samgöngustofu til þess að njóta lækkunar á vörugjaldi á þeim tímapunkti sem ökutækin voru tollafgreidd en auk þess sótti hann um lækkun vörugjalds að of löngum tíma liðnum frá nýskráningu bifreiðanna.

Tollstjóri taldi því að þær forsendur sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu bifreiða kæranda hafi verið réttar og fullnægjandi og skilyrði fyrir leiðréttingu á aðflutningsskýrslum þeirra voru því ekki uppfyllt. Var synjun Tollstjóra um leiðréttingu vegna tollafgreiðslu á tveimur bifreiðum því staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 12. júlí 2017, hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra dags. 15. júní 2017 um höfnun á leiðréttingu vegna tollafgreiðslu á tveimur bifreiðum.

Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði fyrrnefnda ákvörðun sína og krefst þess að álagt vörugjald ofangreindra bifreiða verði leiðrétt og lækkað í samræmi við undanþáguflokk fyrir ökutækjaleigur.

II. Málsmeðferð

Þann 14. febrúar 2017 flutti kærandi inn tvær bifreiðar með sendingum sem báru sendingarnúmerin X og Y. Aðflutningsskýrslum vegna sendinganna var skilað inn til Tollstjóra þann 8. mars sama ár og fékkst afhendingarheimild í kjölfarið, eða þann 23. mars. Þann 4. apríl 2017 voru bifreiðarnar nýskráðar hjá Samgöngustofu og greiddi kærandi þá álagt vörugjald af þeim, sem var 35% af tollverði, í samræmi við meginreglu 1. mgr. 3. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993.

Hinn 17. maí 2017 fór kærandi fram á það við Tollstjóra að aðflutningsskýrsla vegna annarrar bifreiðarinnar yrði leiðrétt og að vörugjald yrði lagt á í samræmi við undanþáguflokk 3. gr. vörugjaldslaga, sbr. XVI. bráðabirgðarákvæði laganna sem kveður á um að leigubifreiðar til fólksflutninga skuli bera lægra vörugjald en almenn ökutæki. Tollstjóri hafnaði þeirri kröfu kæranda þann 15. júní 2017.

Ákvörðun Tollstjóra um höfnun á leiðréttingu vegna tollafgreiðslu á bifreiðinni var kærð með bréfi, dags. 12. júlí 2017.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur kringumstæður við innflutning sinn á fyrrnefndum bifreiðum uppfylla skilyrði 116. gr. tollalaga nr. 88/2005 um leiðréttingu. Kærandi er bílaleiga sem skráð var sem slík í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra og hlaut leyfi Samgöngustofu til þess að reka ökutækjaleigu í lok apríl 2017. Telur kærandi sig hafa átt fullan rétt á því að greiða lækkað vörugjald af bifreiðunum samkvæmt undanþáguflokki og vísar í því samhengi til þess að bifreiðarnar hafi báðar verið skráðar á íslenska ökutækjaleigu með gilt og viðeigandi rekstrarleyfi frá Samgöngustofu og að starfsemi fyrirtækisins hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga um leigu skráningarskyldra ökutækja. Bifreiðarnar hafi verið fluttar til landsins í því skyni einu að nýta þær til útleigu í rekstri kæranda og hafi eftir innflutning eingöngu verið nýttar til útleigu hjá kæranda.

Kærandi vísar til þess að vörugjald af ökutækjum til útleigu hjá ökutækjaleigum skuli lagt á samkvæmt undanþáguflokki 1. mgr. 3. gr. vörugjaldslaga nr. 29/1993 en mistök hafi leitt til þess að láðst hafi verið að sækja um slíka undanþágu við gerð aðflutningsskýrslna vegna bifreiðanna,sem hafði í för með sér að almennt vörugjald hafi verið lagt á þær en ekki í samræmi við undanþáguflokk fyrir ökutækjaleigur.

Kærandi telur mistökin þess eðlis að þau verði heimfærð undir ákvæði 116. gr. tollalaga, sem heimilar leiðréttingu á aðflutningsskýrslu ef upplýsingar, sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vöru, voru rangar eða ófullnægjandi.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort heimilt sé að leiðrétta aðflutningsskýrslur vegna innflutnings kæranda á tveimur bifreiðum, sbr. 116. gr. tollalaga, til lækkunar gjalda.

Um leiðréttingar á aðflutningsskýrslu eftir tollafgreiðslu er fjallað í 116. gr. tollalaga, sem kveður á um að verði innflytjandi þess var innan sex ára talið frá tollafgreiðsludegi vöru að upplýsingar, sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vöru, voru rangar eða ófullnægjandi skuli hann leggja fram beiðni hjá Tollstjóra um viðeigandi leiðréttingar, sbr. 1. mgr. 116. gr. tollalaga. Í þessu felst heimild fyrir innflytjanda til að fá tollafgreiðslu leiðrétta sýni hann fram á að afgreiðslan hafi byggt á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum.

Samkvæmt 1. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 skal greiða í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987 o.fl. svo sem nánar greinir í lögunum, sbr. m.a. 87. kafla tollskrár. Almennt skal greiða vörugjald af fólksbifreiðum í samræmi við útblástur bifreiðar, sbr. meginreglu 1. mgr. 3. gr. vörugjaldslaga. Í tilviki bifreiða sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum er aftur á móti gerð undantekning á þessari meginreglu vegna gjaldáranna 2016 og 2017 og heimilað að leggja á vörugjald samkvæmt undanþáguflokki 1. mgr. 3. gr. sömu laga, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. XVI. bráðabirgðaákvæði við vörugjaldslögin. Um er að ræða undanþágu frá meginreglu laganna og samkvæmt almennum og viðteknum lögskýringarsjónarmiðum þá ber að túlka hana þröngt.

Eitt af nefndum skilyrðum undanþágunnar er að næstu 15 mánuði eftir nýskráningu skal bifreið skráð á ökutækjaleigu sem hefur leyfi frá Samgöngustofu til reksturs ökutækjaleigu. Að auki kemur fram í 21. gr. reglugerðar um vörugjald af ökutækjum nr. 331/2000, sbr. 5. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 792/2000 um breyting á reglugerð nr. 331/2000, að óheimilt sé að lækka eða fella niður vörugjald af ökutækjum nema sótt sé um eftirgjöf fyrir nýskráningu eða í beinum tengslum við hana.

Í máli þessu tollafgreiddi kærandi umþrættar bifreiðar þann 23. mars 2017 og nýskráði þær síðan 4. apríl sama ár. Aftur á móti fékk kærandi ekki leyfi frá Samgöngustofu til reksturs ökutækjaleigu fyrr en í lok apríl 2017 og sótti um lækkun vörugjalds þann 17. maí 2017. Það er því ljóst að við tollafgreiðslu bifreiðanna þá uppfyllti kærandi ekki skilyrði vörugjaldslaga um að fá að leggja á vörugjald samkvæmt undanþáguflokki enda var hann þá ekki með leyfi til reksturs ökutækjaleigu frá Samgöngustofu. Auk þess var Tollstjóra óheimilt að lækka vörugjald af bifreiðunum þann 17. maí sl. vegna þess að þá voru liðnir rúmir tveir mánuðir frá nýskráningu þeirra en skilyrði fyrir lækkun vörugjalds af m.a. bílaleigubílum er að sótt sé um slíka lækkun fyrir nýskráningu eða í beinum tengslum við hana, sbr. fyrrnefnda 21. gr. reglugerðar nr. 331/2000.

Með vísan til alls ofangreinds telur Tollstjóri að þær forsendur sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu bifreiða kæranda hafi verið réttar og fullnægjandi og skilyrði fyrir leiðréttingu á aðflutningsskýrslum þeirra, sbr. 116. gr. tollalaga, eru því ekki uppfyllt. Kærandi hafði ekki tilskilið leyfi frá Samgöngustofu til þess að njóta lækkunar á vörugjaldi á þeim tímapunkti sem ökutækin voru tollafgreidd en auk þess sótti hann um lækkun vörugjalds að of löngum tíma liðnum frá nýskráningu bifreiðanna.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um að synja um leiðréttingu sendinga X og Y er staðfest.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum