Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 16/2004

Tollflokkun heitapottsskelja og ákvörðun aðflutningsgjalda

29.7.2004

I

Embættið hefur móttekið bréf A endurskoðunar, dagsett 28. júní 2004, þar sem kærð er sú ákvörðun tollstjórans í Reykjavík, fyrir hönd fyrirtækisins B, að hafna leiðréttingu á aðflutningsgjöldum sendingarinnar nr. E HAD 13 30 3 CA SBU R833.

Varan sem flutt var inn með sendingunni var upphaflega tollflokkuð í tollskrárnúmer 6910.1000 sem leirvörur; vaskar, handlaugar, handlaugafætur, baðker, skolskálar, salernisskálar, vatnsgeymar, þvagskálar og áþekk hreinlætistæki úr postulíni.

II

Þann 2. júní 2003 barst embættinu leiðréttingarskýrsla frá B þar sem þess var óskað að varan yrði tollflokkuð í tollskrárnúmer 3925.9009 sem plast og vörur úr því; aðrar byggingarvörur úr plasti. Athugasemd var gerð við leiðréttingarskýrsluna þann 27. júní 2003.

B var með bréfi embættis tollstjórans í Reykjavík, þann 28. ágúst 2003, tilkynnt að athugasemd hefði verið gerð við framlagða leiðrétta aðflutningsskýrslu þess, vegna ofangreinds sendingarnúmers. Var athugasemdin sem gerð var á þá leið að myndlista þyrfti að skila inn til embættisins, enda fylgdi hann ekki með aðflutningsskýrslu. Var fyrirtækinu gefinn 15 daga frestur til að sinna athugasemdinni með því að skila inn leiðréttingu, en ella þyrfti að koma til frekari aðgerða af hálfu embættisins.

Með bréfi embættisins til B þann 5. nóvember 2003 var innflytjanda tilkynnt að tollafgreiðsla til fyrirtækisins hefði verið stöðvuð á grundvelli 131. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, þar sem myndlisti hefði ekki enn borist embættinu. Var fyrirtækinu enn gefinn 15 daga frestur til að skila inn umræddum myndlista, en ella yrði málið sent í innheimtu með tilheyrandi kostnaði.

Með bréfi embættisins þann 26. nóvember 2004 var fyrirtækinu tilkynnt að ef umræddum myndlista yrði ekki framvísað innan 10 daga yrði önnur afgreiðsla sendingarinnar afturkölluð.

Í kjölfar bréfa embættisins barst myndlisti því. Myndlisti þessi var ekki í samræmi við reikning þann sem framvísað var með leiðréttingarskýrslu, þar sem á reikningnum kemur fram að um ,,sanitary porcelain” væri að ræða en heitapottsskeljar á myndlistanum eru úr plasti.

Með bréfi A þann 22. desember 2003, fyrir hönd B, barst nýr reikningur frá söluaðila, C, vegna ofangreindrar sendingar. Kom fram í bréfinu að reikningurinn sem upphaflega var sendur með vörunni var rangur og varan því ranglega tollflokkuð. Var óskað eftir því að aðflutningsskýrsla sendingarinnar yrði lagfærð til samræmis við meðfylgjandi reikning.

Með bréfi embættisins þann 29. janúar 2004 var þeim vörureikningi sem embættinu barst þann 22. desember 2003 hafnað, þar sem um „commercial invoice” var að ræða og var vörureikningurinn ekki talinn uppfylla skilyrði 6. gr. reglugerðar nr. 228/1993 um tollskýrslur og fylgiskjöl þeirra, með síðari breytingum. Ennfremur kom fram af hálfu embættisins að upphaflegi reikningurinn sem embættinu barst var einnig „commercial invoice”. Óskaði embættið í ljósi þessa eftir því að framvísað væri fullnægjandi reikningi innan 15 daga til að unnt væri að taka afstöðu til erindis B.

Með bréfi A þann 30. janúar 2004 var embættinu send tillaga að reikningi sem var, af hálfu A, talin fullnægja kröfum reglugerðar nr. 228/1993 um vörureikninga.

Í bréfi embættisins þann 10. febrúar 2004 kom fram að öll gögn sem innflytjandi framvísaði væru á ábyrgð hans og embættið tæki aðeins afstöðu til gagna sem bærust því með formlegum hætti. Var vísað til bréfs embættisins þann 29. janúar 2004 þar sem fram komu þær kröfur sem vörureikningur þarf að fullnægja. Var ítrekuð ósk embættisins um að fullnægjandi reikningi yrði framvísað og var fyrirtækinu veittur frestur til að afla hans. Þann 9. mars barst embættinu nýr reikningur frá C.

Í ákvörðun embættis tollstjórans í Reykjavík þann 14. apríl 2004 var leiðréttingu samkvæmt framlagðri leiðréttingarskýrslu sem barst embættinu þann 2. júní 2003 hafnað. Embættið hafði yfirfarið framkomin gögn en vöruskoðun varð ekki við komið þar sem varan hafði þá þegar verið afhent. Var því ekki unnt að staðreyna upplýsingar í myndlista þeim og reikningi sem lagðir voru fram 9. mars 2004. Af framlögðum reikningi var ekki ljóst hvort heitapottsskeljar samkvæmt reikningi frá Kent International væru í raun þær sem fram kæmu á myndlista. Ennfremur kom ekki fram á reikningi hver væri tegund vörunnar, stærð hennar eða hvort hún væri úr plasti eða postulíni.

Í ákvörðun embættisins þann 14. apríl 2004 segir að það sé mat embættisins að séu umræddar heitapottsskeljar úr plasti, eins og innflytjandi haldi fram, skuli tollflokka þær í tollskrárnúmer 3922.9009 sem vörur úr plasti; önnur hreinlætistæki úr plasti, sbr. túlkunarreglur 1 og 6. Í túlkunarreglu númer 1 segir að fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum séu einungis til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla og, brjóti það eigi í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda, skuli fylgt öðrum túlkunarreglum tollskrárinnar. Í túlkunarreglu númer 6 segir að í lagalegu tilliti skuli flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða byggð á orðalagi undirliðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemda við undirliði og, að breyttu breytanda, framangreindum reglum, með því fororði að aðeins jafnsettir undirliðir verði bornir saman. Viðkomandi athugasemdir við flokka og kafla gildi einnig með tilliti til þessarar reglu, nema annað leiði af orðalagi.

Var það því niðurstaða embættisins í ákvörðun sinni þann 14. apríl 2004 að hafna leiðréttingu samkvæmt framlagðri leiðréttingarskýrslu sem barst embættinu þann 2. júní 2003, eins og að framan greinir. Var innflytjanda þá leiðbeint um kærurétt sinn skv. 1. mgr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Hefur innflytjandi nú nýtt sér þennan rétt sinn samanber bréf hans þann 28. júní 2004 þar sem ákvörðun tollstjóra er kærð til úrskurðar hans, eins og áður segir.

Í kærunni eru þær skýringar gefnar að á þeim tíma sem unnið var að gerð innflutningspappíra fyrir ofangreinda sendingu hafi sá starfsmaður sem að jafnaði sá um gerð þeirra verið í barnsburðarleyfi og því hafi D séð um tollafgreiðslu skýrslunnar. C, seljandi vörunnar, gaf upphaflega út ranga vörulýsingu sem leiddi til þess að varan var upphaflega tollflokkuð rangt í tollskrárnúmer 6910.1000. C hafi síðan leiðrétt reikninginn og útskýrt mistökin.

Kærandi heldur því fram að umræddar heitapottsskeljar séu úr plasti og algerlega óunnar, þ.e. að ekki hafi verið sett nein tæki við þær. Það sé á valdi kaupanda að ákveða hvaða tæki hann vilji setja við skeljarnar. Því telur innflytjandi að um smíðavöru sé að ræða sem sé notuð sem þáttur í endanlegri útfærslu. Þá séu allir heitir pottar sem eru á markaði hér á landi gerðir úr plasti.

Orsök þess að varan var upphaflega ranglega tollflokkuð hafi því verið sú að rangur reikningur lá til grundvallar og að sá aðili sem sá um tollafgreiðslu sendingarinnar hafi ekki verið kunnugur vörunni. Var því óskað eftir því að framlögð leiðréttingarskýrsla þann 2. júní 2004 yrði samþykkt enda bendi gögn aðeins til þess að mistök hafi átt sér stað.

III

Í ákvörðun embættisins þann 14. apríl 2004 kemur fram að þar sem umræddar heitapottsskeljar séu úr plasti, eins og innflytjandi haldi fram, skuli tollflokka þær í tollskrárnúmer 3922.9009, en ekki 3925.9009. Í bréfi innflytjanda þann 28. júní 2004 er ekki tekin afstaða til tollskrárnúmers 3922.9009. Hefur embættið fallist á að varan sé úr plasti án þess að geta framkvæmt vöruskoðun til að sannreyna það.

Gjaldamunur á framangreindum tollskrárnúmerum er sá að á tollskrárnúmerunum 6910.1000 og 3922.9009 hvílir 10% almennur tollur og 24.5% virðisaukaskattur, en á tollskrárnúmeri 3925.9009 hvílir hins vegar 5% almennur tollur auk 24.5% virðisaukaskatts.

Embættið hafnar því algerlega að umræddar heitapottsskeljar geti fallið undir tollskrárnúmer 3925.9009 sem aðrar smíðavörur til bygginga úr plasti enda segir berum orðum um tollskrárnúmer 3922.9009 að þar undir skuli tollflokka hreinlætistæki, svo sem baðker og önnur áþekk hreinlætistæki úr plasti. Undir tollskrárnúmeri 3925.9009 falla hins vegar hlutir sem ætlaðir eru aðallega til byggingar, svo sem geymar, tankar, ker og ílát, hurðir, gluggar, karmar, þröskuldar, hlerar og annað. Það verður því að teljast ljóst af orðalagi tollskrár, í samræmi við túlkunarreglur 1 og 6 við tollskrá sem reifaðar eru hér að ofan, að beinlínis er gert ráð fyrir því að hreinlætistæki sem eru úr plasti séu tollflokkuð í sérstakt tollskrárnúmer. Þá má benda innflytjanda á það að engin gjaldabreyting verður á aðflutningsgjöldum sendingarinnar með því að varan verði tollflokkuð undir tollskrárnúmer 3922.9009.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, að heitapottsskeljar þær sem fluttar voru inn með sendingunni númer E HAD 13 03 3 CA SBU R833 skuli flokkast undir tollskrárnúmer 3922.9009 á grundvelli 1. og 6. almennu túlkunarreglna tollskrár.

Úrskurði þessum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 29. júlí 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum