Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 16/2009

Höfnun umsóknar um endurgreiðslu vörugjalds af bifreiðum til ökukennslu

29.10.2009

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 18. september 2009, sem barst þann 29. september sl., hefur A, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun um höfnun endurgreiðslu vörugjalds af tveimur bifreiðum með fastanúmer B og C, sem ætlaðar eru til ökukennslu sem hlutar skrikvagna.

Kærandi krefst þess að vörugjöld verði lækkuð í samræmi við umsókn hans.

II. Málsmeðferð

Þann 18. september 2009 voru bifreiðarnar B og C tollafgreiddar. Skráður innflytjandi var D. Um leið var sótt um lækkun vörugjalda af bifreiðunum þar sem þær eru ætlaðar til ökukennslu. Umsóknum um lækkun vörugjalds var hafnað samdægurs, byggt á því að kærandi reki ekki ökuskóla og uppfylli þess vegna ekki skilyrði fyrir eftirgjöf vörugjalds.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að lækka beri vörugjöld af bifreiðunum sem bifreiðum til ökukennslu, þrátt fyrir að hann uppfylli ekki skilyrði fyrir lækkun skv. þeim lagaákvæðum sem nú eru í gildi. Kærandi vísar til reglugerðar nr. 591/2009 um breytingu á reglugerð nr. 501/1997 um ökuskírteini, en þar er kveðið á um að allir ökunemar sem hefja nám frá og með 1. janúar 2010 skuli æfa akstur í hálku í ökugerði eða á skrikvögnum sem hluta af ökunámi. Sem stendur eru engin ökugerði til á Íslandi og í ljósi núverandi efnahagsástands mun verða einhver bið á að þau verði til. Skrikvagnar eru mun ódýrari kostur. Forvarnarhúsið hafi fest kaup á búnaðinum, en hann muni einungis notaður til æfingaaksturs í hálku. Kaupin voru ákveðin í samráði við Samgönguráðuneytið. Sérmenntaðir ökukennarar víðsvegar um land munu annast kennsluna fyrir alla ökuskóla í landinu.

IV. Niðurstöður

Í 1. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. er kveðið á um að greiða skuli í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987. Í 3. gr. laganna er kveðið á um prósentutölu vörugjalds af ökutækjum, sem lagt skal á miðað við sprengirými aflvélar, mælt í rúmsentímetrum. Bifreiðarnar eru báðar með sprengirými undir 2.000 rúmsentímetrum, því bæri að leggja 30% vörugjald á þær. Hins vegar skal samkvæmt 6. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna vörugjald af ökutækjum til ökukennslu þó lagt á þannig að á slík ökutæki leggist 10% vörugjald. Um er að ræða undanþágu frá skattskyldu sem bundin er ákveðnum skilyrðum. Kveðið er á um frekari skilyrði fyrir eftirgjöf vörugjalds af ökutækjum í reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum í samræmi við heimild í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993.

Í 15.b. gr. reglugerðar nr. 331/2000 er kveðið á um skilyrði fyrir lækkun vörugjalds af ökutækjum til ökukennslu hjá ökuskólum. Samkvæmt 1. tölul. 2. mgr. greinarinnar er lækkun vörugjalds háð því skilyrði að bifreið sé skráð á ökuskóla sem hefur starfsleyfi frá umferðarráði næstu tvö ár eftir nýskráningu bifreiðar. Þar fyrir utan skal bifreið skv. 2. tölul. skráð sem bifreið til ökukennslu og tryggð sem slík.

Starfsemi kæranda er skráð í fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra sem önnur ótalin viðskipti og sérhæfð þjónusta og önnur ótalin sérfræðileg, vísindaleg og tæknileg starfsemi. Kærandi hefur hins vegar hvorki skráða starfsemi sem ökuskóli eða við aksturskennslu, né hefur hann framvísað starfsleyfi ökuskóla frá umferðarráði. Kærandi uppfyllir þar með ekki skilyrði 15. b. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um skráða starfsemi sem ökuskóli. Höfnun Tollstjóra á umsókn um lækkun vörugjalds af bifreiðunum B og C til ökukennslu er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun umsóknar um lækkun vörugjalds af bifreiðunum B og C er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum