Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 16/2010

Tollflokkun á eldavél Beha Cooking Range M31AA

19.8.2010

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 22. júní 2010 hefur S kært þá ákvörðun Tollstjóra frá 29. apríl 2010 að vara úr sendingu með sendingarnúmer E DET 06040 NO FRK W048 skuli falla í tollflokk 8516.6002, sbr. kæruheimild í 116. gr. tollalaga nr. 88/2005. Þá krefst kærandi leiðréttingar og endurgreiðslu aðflutningsgjalda.

II. Málsmeðferð

Þann 22. janúar sl. flutti kærandi inn vöruna Beha Cooking Range M31AA frá Noregi með sendingu með sendingarnúmer E DET 06040 NO FRK W048 frá fyrirtækinu Beha Hedo Industries a/s. Varan hlaut VEF-tollafgreiðslu, sbr. 23. gr. tollalaga nr. 55/2008, og var þar felld undir tollskrárnúmer 8516.6002 án athugasemda Tollstjóra. Þann 19. apríl skilaði kærandi inn leiðréttingarskýrslu sbr. 116. gr. tollalaga og krafðist þess að varan yrði felld undir tollskrárnúmer 8419.8109. Tollstjóri gerði athugasemd í Tollakerfi þann 27. apríl og benti á að fyrri aðflutningsskýrsla teldist rétt. Lagði kærandi því fram aukinn rökstuðning sem barst embættinu þann 24. júní sl. Þann 19. júlí óskaði Tollstjóri eftir frekari gögnum sem bárust þann 21. sama mánaðar og taldist gagnaöflun þá lokið.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að tollflokkur 8516.6002 sé rangur fyrir umrædda vöru enda eigi hann aðeins við um eldavélar til heimilisnota. Varan sé í eðli sínu ekki ætluð til heimilisnota þar sem hún sé sérhönnuð til notkunar um borð í skipum. Kærandi bendir á að skip geti aldrei verið heimili fólks skv. lögum nr. 21/1990 um lögheimili. Sami skilningur komi fram í tollskrá þar sem eldavélar til heimilisnota séu felldar undir vörulið 8516 en annar slíkur búnaður sé færður undir vörulið 8419. Kærandi lagði fram útprentun með lýsingu á vörunni frá framleiðanda til frekari rökstuðnings.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í þessu máli snýst um tollflokkun og álagningu gjalda á vöru. Varan er eldavél af gerðinni Beha Cooking Range M31AA 230/3/50 Divided model og er ætluð til að nota um borð í skipum. Vélin er 220 kg, 86 sm á breidd, 86 sm að dýpt, 85 sm að hæð, stálklædd, með stillanlegum fótum og gólffestingum en tilheyrandi bakkar og grindur fylgja. Hægt er að panta aukabúnað við vélina, s.s. slár eða grindur sem varna því að pottar renni út af henni. Ofni vélarinnar er stjórnað með tveimur tökkum, annar fyrir yfirhita og hinn fyrir undirhita.

Við vörulið 8419 í tollskrá, sbr. viðauka I við tollalögin nr. 88/2005 segir að þar falli undir: Vélbúnaður, vélakostur eða búnaður fyrir rannsóknarstofur, einnig rafmagnshitaður (þó ekki bræðslu- og hitunarofnar og annar búnaður í nr. 8514) til vinnslu á efnum með aðferðum sem fela í sér hitabreytingu, svo sem með hitun, suðu, stiknun, eimingu, hreinsun, dauðhreinsun, gerilsneyðingu, eimvætingu, þurrkun, uppgufun, gufugerð, þéttingu eða kælingu, þó ekki vélbúnaður eða vélakostur til heimilisnota; hrað- eða geymavatnshitarar, ekki fyrir rafmagn. Við vörulið 8516 segir að þar falli undir: Hrað- eða geymavatnshitarar og hitastautar (hitöld) fyrir rafmagn; raftækjabúnaður til hitunar á rými (space) og jarðvegi; rafmagnshituð hársnyrtitæki (t.d. hárþurrkur, hárliðunartæki, hitunartæki fyrir hárliðunarjárn) og rafmagnsstraujárn; önnur rafmagnshitunartæki til heimilisnota; rafmagnshitamótstöður, þó ekki í nr. 8545. Sú venja hefur mótast í framkvæmd að túlka hugtakið heimilisnot rúmt í þessu samhengi. Í dreifibréfi fjármálaráðuneytisins, dags. 07.04.1983, koma t.d. fram leiðbeiningar um tollflokkun á ýmsum kæli- og frystitækjum en þar segir: „Hér undir ber að flokka þá (kæli)skápa sem eru allt að 650 l. að rúmtaki og eru sýnilega ætlaðir til heimilisnotkunar í víðari merkingu, þ.e. henta heimilum, mötuneytum, hótelum, skipum o.þ.h., enda séu skáparnir ekki sérhannaðir til annarra sérstakra nota, s.s. lyfjaskápar o.þ.h.“

Embætti Tollstjóra hefur byggt túlkun hugtaksins á ofangreindum leiðbeiningum um árabil, sbr. m.a. bréf Ríkistollstjóra frá 10. október 1991. Þar segir: „Embættið lítur svo á að hugtakið heimilistæki sé í tollskrá almennt notað í víðtækari merkingu, þ.e. nái yfir tæki sem henti til léttis við heimilsstörf, mötuneytarekstur, hótelrekstur o.s.frv. En tæki sem almennt eru notuð á heimilum geta í mörgum tilvikum verið af þeirri stærð og með slíka afkastagetu að álíta verði þau sérhönnuð til atvinnurekstur“. Einnig kemur til skoðunar úrskurður í máli nr. 21/1991 frá 24. október 1991, en þar töldust ísmolavélar til heimilistækja í þessu samhengi þar sem notkun þeirra ætti undir hugtakið heimilsnot. Í málinu kom fram að vélarnar væru aðallega ætlaðar til notaðar á hótelum, veitingahúsum og á stærri heimilum. Þá skal nefnt að hin rúma skilgreining á hugtakinu „heimilisnot“ í tollskrá hefur verið látin ráða við tollflokkun ýmissa fleiri tækja svo sem á viftum.

Samkvæmt 20. gr. tollalaga nr. 88/2005 skulu innflytjendur færa vöru til tollflokks í viðeigandi tollskjölum samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar sem birtar eru í viðauka I við tollalögin. Reglurnar eru birtar fremst í tollskránni en einnig er að finna athugasemdir í byrjun hvers flokks og kafla skrárinnar sem ráða túlkun hverju sinni. Tollflokkun skal byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi flokka og kafla kafla skv. túlkunarreglu 1. Flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða skal jafnframt byggð á orðalagi undirliðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemd við þá í viðeigandi köflum tollskrárinnar, skv. túlkunarreglu

6. Þá segir í 1. málsl. túlkunarreglu 1 að fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum séu einungis til leiðbeiningar. Um samsetningu tollnúmera með tilliti til vöruliða og undirliða vísast til formála viðauka I við tollalögin.

Varan sem hér um ræðir er ætluð til notkunar í skipum og útbúin sérstökum búnaði sem festir hana til að koma í veg fyrir að hún velti eða færist úr stað. Að öðru leyti er vélin hins vegar ekki frábrugðin öðrum sambærilegum eldavélum sem ætlaðar er til heimilsnota í ofangreindum skilningi. Sú staðreynd að vélin er ætluð fyrir 3 x 220 volt, og henti því ekki til nota í landi þar sem gert er ráð fyrir 3 x 380 voltum, hefur ekki áhrif hér að lútandi. Geta vélarinnar er sambærileg því sem gengur og gerist með hefðbundnar eldavélar sem teljast til heimilisnota samkvæmt ofangreindu og hafa hingað til hafa verið felldar undir vörulið 8516. Með vísan til ofangreinds er kröfu kæranda um að varan verði færð til tollflokks 8419 hafnað.

Varan hlaut VEF-tollafgreiðslu, sbr. 23. gr. tollalaga nr. 55/2008, og var þar felld undir tollskrárnúmer 8516.6002. Varan var þannig réttilega færð til tollflokks eða vöruliðar 8516. Við undirlið 6002 segir hins vegar að þar falli undir „aðrir ofnar; eldavélar, eldahellur, suðuhringir, grill og steikarofnar: annað“. Við undirlið 6001 segir að þar falli undir aðrir ofnar; eldavélar, eldahellur, suðuhringir, grill og steikarofnar: rafmagnseldavélar og eldunarhellur“. Sú vörulýsing er mun nákvæmari og lýsandi fyrir gerð vörunnar sem hér um ræðir. Varan skal því færð til flokks eða vöruliðar 8516 og undirliðar 6001, og hlýtur þannig tollskrárnúmer 8516.6001, sbr. túlkunarreglu 1 og 6. Þessi niðurstaða hefur þó ekki áhrif á ákvörðun gjalda þar sem sömu gjaldaliðir fylgja hvorum vörulið um sig

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 116. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem rakið er hér að framan að varan Beha Cooking Range M31AA sem flutt var inn með sendingu með sendingarnúmeri E DET 06040 NO FRK W048 skuli felld undir tollnúmer 8516.6001.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum