Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 16/2018

Tollflokkun bifreiðar af gerðinni Nissan Titan

16.11.2018

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á bifreið af gerðinni Nissan Titan í tollskrárnúmer 8704.3140, ný pallbifreið og með skráð koltvísýringslosun yfir 250 g/km, og beri 65% vörugjald. A krafðist þess að bifreiðin yrði flokkuð sem sendibifreið í tollskrár tollskrárnúmer 8704.2199, og beri 13% vörugjald.

Niðurstaða: Staðfest var ákvörðun embættisins um að flokka beri bifreiðina sem ökutæki til vöruflutninga í vörulið 8704, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 8704.3140.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 27. september 2018, hafa B fyrir hönd A, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 24. ágúst 2018, um tollflokkun á bifreið af gerðinni Nissan Titan með fastanúmerið C.

Kærandi mótmælir ákvörðun Tollstjóra um að bifreiðin skuli flokkast í tollskrárnúmer 8704.3140, sem ný pallbifreið og með skráð koltvísýringslosun yfir 250 g/km, og beri 65% vörugjald. Kærandi krefst þess að bifreiðin verði flokkuð sem sendibifreið í tollskrárnúmer 8704.2191, og beri 13% vörugjald.

II. Málsmeðferð

Þann 13. ágúst 2018 flutti kærandi inn til landsins bifreið af gerðinni Nissan Titan frá Kanada með fastanúmerið C sem kom á sendingarnúmeri X.

Aðflutningsskýrslu vegna sendingarinnar var skilað til Tollstjóra og var bifreiðin sett í tollflokk 8704.2191, sem sendibifreið. Starfsmaður Tollstjóra gerði athugasemd við þá tollflokkun og taldi bifreiðina eiga að vera í tollskrárnúmeri 8704.3140, sem ökutæki aðallega gert til vöruflutninga, og með skráða koltvísýringslosun yfir 250 g/km og bera 65% vörugjald í samræmi við 1. mgr. 3. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Kærandi leiðrétti skýrsluna 4. september 2018, í samræmi við athugasemdir Tollstjóra, og hlaut sendingin tollafgreiðslu.

Í kjölfar tollafgreiðslu óskaði umboðsmaður kæranda eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun embættisins dags. 24. ágúst 2018. Tollstjóri sendi umbeðin rökstuðning á umboðsmann kæranda þann 6. september 2018.

Tollflokkun bifreiðarinnar var kærð skv. 117. gr. tollalaga með tölvupósti dags. 27. september sl. Kærunni fylgdu gögn, s.s. tölvupóstar, umboð og ljósmyndir.

III. Meginröksemdir kæranda

Meginröksemdir kæranda eru að ökutækið hafi verið rangt tollflokkað. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telji að umrædda bifreið eigi að tollflokka sem sendibifreið sökum pallsins en ekki sem fólksbifreið.

Kærandi bendir á að bifreiðin sé skráð sem vörubifreið I hjá Samgöngustofu og geti kærandi ekki séð að Tollstjóri hafi heimild til að hlutast til um skráningar farartækja, né heldur ákvarða tollflokka á annan máta en skráning bifreiðar kveður á um.

Kærandi bendir á að bifreiðin hafi yfir 4.078 kg. burðargetu, sem er álíka burðargeta og sambærilegar vörubifreiðar hafi, auk þess að hún uppfylli Evrópulöggjöf um búnað sem veldur hraðatakmörkun. Þá sé palllengd bifreiðarinnar nægjanleg til að uppfylla skilyrði um vörubifreið.

Kærandi telur augljóst af myndum af bifreiðinni að ekki er um fólksbifreið að ræða heldur vörubifreið.

Af þessum sökum óskar kærandi eftir því að Tollstjóri endurskoði ákvörðun sína um að tollflokka bifreiðina undir tollskrárnúmer 8704.3140.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýst um tollflokkun bifreiðar af gerðinni Nissan Titan með fastanúmer C.

Kærandi heldur því fram að um sendibifreið með vörurými sé að ræða sem eigi að flokkast í vörulið 8704 sem ökutæki til vöruflutninga nánar tiltekið í tollskrárnúmer 8704.2191. Í tollskrárnúmer 8704.2191 flokkast bifreið til vöruflutninga að heildarþyngd 5 tonn eða minna með vörurými.

Kærð ákvörðun Tollstjóra lítur hins vegar að því að um sé að ræða bifreið með vörupalli (pallbifreið) sem ber gjöld eftir losun koltvísýrings, sbr. tollskrárnúmer 8704.3140. Í tollskrárnúmer 8704.3140 flokkast bifreið til vöruflutninga að heildarþyngd 5 tonn eða minna með vörupalli og með skráða koltvísýringslosun yfir 250 g/km.

Ljóst er þó að Tollstjóri og kærandi eru sammála um að flokka skuli bifreið kæranda í vörulið 8704 en undir þann vörulið flokkast bifreiðar sem eru til vöruflutninga.

Þegar grundvöllur fyrir álagningu vörugjalds er skoðaður er nauðsynlegt að líta til laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Samkvæmt 1. gr. laganna ber að greiða vörugjald af ökutækjum sem skráningaskyld eru samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987 og nær gjaldskyldan til allra ökutækja nýrra sem notaðra sem flutt eru til landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Álagning vörugjalda á ökutæki fer að meginreglu eftir 3. gr. laganna en hún miðar við skráða losun koltvísýrings. Í 4. og 5. gr. laganna er að finna undantekningar frá þessari meginreglu sem kveða almennt á um lægra vörugjald en þyrfti að greiða félli ökutæki undir 3. gr. laganna. Af tollskrá má lesa að ökutæki sem flokkast í tollskrárnúmer 8704.3140 falla undir meginregluna í 3. gr. laga nr. 29/1993 en ökutæki sem flokkast í tollskrárnúmer 8704.2191 falla aftur á móti undir undanþáguákvæði g-liðar 2. tölul. 4. gr. sömu laga.

Í undanþáguákvæði g-liðar 2. tölulið. 4. gr. vörugjaldslaga nr. 29/1993 eru útlistuð ákveðin skilyrði sem bifreið þarf að uppfylla til að geta talist vera sendibifreið í skilningi laganna. Þar kemur fram að bifreiðin þarf að vera aðallega ætluð til vöruflutninga, undir 5 tonn að leyfðri heildarþyngd, vera þannig útbúin að hún sé með sambyggt stýrishús og flutningsrými og að engin farþegasæti séu í farmrými bifreiðarinnar.

Kærandi kveður bifreiðina uppfylla öll skilyrði til að flokkast sem vörubifreið og samkvæmt gögnum m.a. frá framleiðanda sé um svokallaða „Pick-up“ bifreið að ræða og kemur fram í kæru að sú skilgreining ein og sér vísi til vöruflutninga. Kærandi bendir á að bifreiðin sé framleidd sem vörubifreið og henti fyrir hefðbundna vöruflutninga, ásamt flutningi á mannskap, verkfærum og áhöldum. Tollstjóri er sammála kæranda að bifreiðin uppfylli skilyrði til að flokkast sem bifreið til vöruflutninga enda flokkar Tollstjóri bifreiðina í vörulið 8704 í ákvörðun embættisins dags. 24. ágúst 2018, en vöruliður 8704 ber heitið ökutæki til vöruflutninga. Bifreiðin er hins vegar ekki með sambyggt stýrishús og flutningsrými og telur Tollstjóri því ljóst að bifreiðin uppfylli ekki skilyrði til að flokkast sem sendibifreið skv. g. lið 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga. Tollstjóri telur einnig ljóst að umrædd bifreið getur ekki flokkast sem sendibifreið í tollskrárnúmer 8704.2191, þar sem bifreiðin er útbúin vörupalli og ber með sér að vera pallbíll.

Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki gert þær kröfur í málinu tekur Tollstjóri næst til skoðunar hvort hægt sé að flokka bifreið kæranda sem grindarbifreið, með vísun til nýlegra úrskurða yfirskattanefndar nr. 8/2017 og 9/2017 og h-liðar 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga. Í úrskurðum yfirskattanefndar nr. 8/2017 og 9/2017 var deilt um tollflokkun bifreiða af gerðinni Ford Transit og Mercedes-Benz Sprinter 313 CDI. Niðurstaða yfirskattanefndar var að tollflokka skyldi bifreiðarnar í tollskrárnúmer 8704.2199 með vísun til undanþáguákvæðis h-liðar 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga, enda teldust þær grindur með hreyfli og ökumannshúsi sem búið væri að bæta við vöruflutningarými. Yfirskattanefnd felldi þar með úr gildi ákvörðun Tollstjóra um að fella skyldi bifreiðarnar undir meginreglu 3. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Verður sá skilningur lagður í forsendur framangreindra úrskurða yfirskattanefndar að bifreiðar útbúnar vörupalli (nefndir pallbílar í daglegur tali) beri, samkvæmt meginreglu, vörugjald miðað við skráða losun koltvísýrings nema þær megi fella undir undantekningarákvæði h-liðar 2. tl. 4. gr. vörugjaldslaga. Við þá ákvörðun skal framkvæma heildarmat á útliti og útbúnaði bifreiðar við framvísun til tollmeðferðar en í vafatilvikum er heimilt að líta til þess hvort almennt séu bifreiðar af viðkomandi tegund, eða eftir atvikum undirtegund, seldar sem grindur frá verksmiðju við innflutning. Þá virðist nefndin telja þann skilsmun á milli pallbíla, sem bera vörugjald miðað við koltvísýringslosun, og grindarbíla með viðbættu vöruflutningarými, sem bera 13% vörugjald, að hinir síðarnefndu hafi einkenni svokallaðra vinnuflokkabifreiða, svo sem vegna þess að vörupallur þeirra er við innflutning útbúinn niðurfellanlegum skjólborðum.

Í kjölfar úrskurða yfirskattanefndar í ofangreindum málum var skilgreiningu h-liðar 2. tl 4. gr. vörugjaldslaga breytt en h-liðurinn tekur til svokallaðra grindarbíla. Hugtakið vöruflutningarými var skilgreint nánar til að einfalda greinarmun milli svokallaðra grindarbíla og pallbíla en í frumvarpi til laga nr. 59/2017 kemur fram að pallbílar teljast til mannskapsbifreiða og beri vörugjald samkvæmt meginreglu 3. gr. laganna. Í frumvarpinu í umfjöllun um svokallaða grindarbíla er notast við orðalagið „viðbætt vöruflutningarými“ en með því er átt við að vöruflutningarýminu hafi verið bætt á ökutækið sérstaklega og það sé því ekki órjúfanlegur hluti ökumannshúss eins og á t.d. við í tilviki sendibíla en í sendibílum er vöruflutningarými bifreiðarinnar sambyggt ökumannshúsinu. Í umræddu frumvarpi eru frekari skilyrði talin upp svo að bifreið geti talist vera grindarbíll en þar segir „að eins og leiða má af gildandi lögum er með vöruflutningarými átt við vörukassa eða vörupall. Til þess að gera enn skýrara að rýmið verði að teljast viðbætt er sérstaklega kveðið á um að það megi ekki vera sambyggt ökumannshúsi. Þá er að auki áskilið að vöruflutningarýmið megi ekki hvað varðar lögun, lit eða efni eiga sjónræna samstöðu með ökumannshúsinu sem á grindinni er.“

Rétt er að geta þess að lögum nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. var breytt með lögum nr. 156/2000 en í frumvarpi með þeim breytingarlögum kemur fram í athugasemdum við 2. gr., að ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna, skuli ekki njóta sérstaks lægra vörugjalds eins og hafði verið.

Þar segir jafnframt að þar undir falli m.a. pallbílar og þótti ekki, út frá almennum notum þeirra, ástæða til að meðhöndla þá í skattalegu tilliti á annan veg en aðra fólksbíla. Í frumvarpinu segir að með breytingunni sé markmiðið að pallbílar verði ekki lengur á lækkuðum gjöldum en að sendibílar, sem alla jafna eru einungis notaðir í atvinnurekstri, njóti samt sem áður sömu lækkunar.

Bifreið kæranda hentar vel til vöruflutninga en bifreiðin samanstendur af lokuðu ökumannshúsi og palli. Ökutæki að sömu tegund og bifreið kæranda eru almennt ekki framleidd/afhent frá verksmiðju eða framleiðanda sem grind án vöruflutningarýmis, þ.e. bíður þá ekki upp á þann möguleika að bæta við síðar vöruflutningarými á grindina. Ökutæki kæranda er þannig útbúin að vöruflutningarými bifreiðarinnar er ekki viðbætt heldur er vöruflutningarýmið (vörupallur ökutækisins) órjúfanlegur hluti bifreiðarinnar. Að auki er ekki hægt að fella niður skjólborð vöruflutningarýmis bifreiðarinnar. Vöruflutningarými bifreiðarinnar myndar sjónræna samstöðu með ökumannshúsinu hvað varðar lögun, lit og efni.

Með vísun til umfjöllunar hér að ofan fellur bifreið kæranda að mati Tollstjóra ekki að neinu undantekningarákvæða 4. eða 5. gr. vörugjaldslaga nr. 29/1993 þar sem hún er ekki yfir 5 tonnum að heildarþyngd sbr. b-liður 1. tl. 4. gr., telst ekki vera sendibifreið sbr. g-liður 2. tl. 4. gr. og er ekki grind með hreyfli og eftir atvikum viðbættu vörurými sbr. h-liður 2. tl. 4. gr.

Hvað varðar þær röksemdir kæranda að Tollstjóri hafi ekki heimild til að ákvarða tollflokka á annan máta en skráning bifreiðar kveður á um hjá Samgöngustofu vill Tollstjóri árétta að embættið er bundið af tollskrá varðandi tollflokkun, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 20 gr. tollalaga nr. 88/2005. Það að Samgöngustofa skrái umrædda bifreið sem vörubifreið I í ökutækjaflokk hjá sér hefur þannig ekki úrslitaþýðingu varðandi hvaða tollskrárnúmer bifreiðin hljóti við tollflokkun.

Með vísan til ofangreinds er ljóst að umrædd bifreið getur ekki flokkast í tollskrárnúmer 8704.2191, sem bifreið til vöruflutninga að heildarþyngd 5 tonn eða minna með vörurými. Bifreiðin er útbúin vörupalli og ber það með sér að vera pallbíll. Niðurstaða embættis Tollstjóra er því sú að ákvörðun embættisins, dags. 24. ágúst 2018 skuli standa óbreytt og flokka beri umrædda bifreið sem ökutæki með vörupalli eftir skráðri losun Co2 í tollskrárnúmer 8704.3140.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, ákvörðun Tollstjóra dags. 24. ágúst 2018 um tollflokkun á bifreið af gerðinni Nissan Titan fastanúmerið C, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum