Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 17/2004

Innheimta eftirgefins vörugjalds af leigubifreið

30.7.2004

I

Embættinu hefur borist bréf yðar, dagsett þann 16. maí 2004 þar sem mótmælt er ákvörðun tollstjóra um að innheimt verði eftirgefið vörugjald af bifreiðinni A. Leit embættið svo á að kærð hefði verið ákvörðun þess þann 9. janúar 2004, sbr. 1. mgr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II

Þann 27. mars 2003 undirritaði B, yfirlýsingu vegna eftirgjafar vörugjalds af leigubifreiðinni A. Í yfirlýsingunni fólst skuldbinding þess efnis að endurgreiða beri eftirgefið vörugjald að fullu, með verðbótum í samræmi við 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 254/1993 um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, sbr. nú reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, hafi sá sem eftirgjafar nýtur ekki að lágmarki kr. 1.164.000,00 í reiknað endurgjald af leiguakstri, annað af tveimur almanaksárum eftir að eftirgjöf var veitt, sbr. 2. mgr. 1. tl. a-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum. Sama gildir sé ökutækið selt eða tekið til annarrar notkunar en leiguaksturs. Var yfirlýsingunni þinglýst á bifreiðina sem kvöð um greiðsluskylduna þann 11. apríl 2000, sbr. 3. mgr. 25. gr. reglugerðar nr. 254/1993.

Þann 10. apríl 2003 var yður sent bréf þar sem tilkynnt var að kvaðabinding ökutækisins A hefði runnið út og var þess því óskað, sbr. 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 254/1993, að send yrðu staðfest endurrit af skattskýrslu, næstu tveggja heilu almanaksára eftir að eftirgjöf var veitt þann 27. mars 2000.

Þann 5. apríl 2003 fór fram nauðungaruppboð á bifreiðinni A að beiðni S en embætti tollstjórans gerði ekki kröfu um greiðslu eftirgefins vörugjalds þar sem ekki var þá ljóst hvort að skilyrði yfirlýsingarinnar yrðu uppfyllt.

Með ákvörðun tollstjóra þann 9. janúar 2004 var yður tilkynnt að samkvæmt framlögðum skattskýrslum hefðuð þér ekki haft þær tekjur sem eru skilyrði fyrir eftirgjöf vörugjalds og yfirlýsingin dags. 27. mars 2003 kvað á um. Því lægi fyrir að ekki væru uppfyllt skilyrði um lágmarkstekjur, samanber ofangreint, og því yrði embættið að innheimta vörugjaldið. Voruð þér því þá krafinn um greiðslu eftirgefins vörugjalds að upphæð kr. 536.406,00, skv. 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 254/1993. Þá kom fram í ákvörðuninni að yrði umrætt vörugjald ekki greitt yrði gengið að lögveði tollstjóra í ökutækinu fyrir ógreiddu vörugjaldi, dráttarvöxtum og kostnaði skv. 3. mgr. 111. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, sbr. og 1. mgr. 27. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

Með bréfi embættisins þann 4. mars 2004 var ítrekuð ákvörðun embættisins frá 9. janúar 2004 um endurgreiðslu eftirgefins vörugjalds, nú að upphæð kr. 550.213,00 og að ef það yrði ekki greitt yrði gengið að lögveði tollstjóra í ökutækinu A. Þá var yður leiðbeint um kærurétt yðar skv. 1. mgr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, og 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en ákvörðun embættisins varðandi greiðslu eftirgefins vörugjalds var kæranleg til úrskurðar embættisins innan þriggja mánaða frá 9. janúar 2004 (misritað í bréfi 2003). Kærufrestur rann því út þann 9. apríl 2004. Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru í máli þessu, og þess að kærandi hefur áður komið að munnlegum andmælum, hefur embættið ákveðið að úrskurða um málið þrátt fyrir að kærufrestur sé liðinn.

Með bréfi embættisins þann 28. apríl 2004 var yður tilkynnt að komið hefði í ljós að ökutækið hefði verið selt á uppboði þann 5. apríl 2003 að beiðni S en embætti tollstjórans hafði ekki gert kröfu um greiðslu þar sem á þeim tíma var ekki ljóst hvort skilyrði yfirlýsingarinnar hefðu verið uppfyllt. Með bréfinu var yður ennfremur tilkynnt að ef vörugjaldið yrði ekki greitt innan tilskilins frests yrði farið í frekari innheimtuaðgerðir sem þér yrðuð látinn bera allan kostnað af.

Þann 18. maí 2004 sendi tollstjórinn í Reykjavík sýslumanninum í Kópavogi aðfararbeiðni og var þess óskað að gert yrði fjárnám hjá yður, gerðarþoli B, til tryggingar skuldar að upphæð kr. 557.166,00, auk áfallandi dráttarvaxta skv. lögum um vexti og verðtryggingar nr. 38/2001 til greiðsludags, og alls kostnaðar af frekari fullnustugerðum, ef til þeirra kæmi. Um heimildir til að krefjast fjárnáms vísar embættið til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og 4. mgr. 111. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 9. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Með bréfi yðar dagsett þann 16. maí 2004, sem barst embættinu þann 19. maí sl., var ákvörðun tollstjóra mótmælt. Kemur þar fram að bifreiðin hafi verið keypt í Þýskalandi í mars 2000 og að þar sem þér hafið þá verið starfandi leigubílstjóri hafið þér átt rétt á eftirgjöf vörugjalds. Í ársbyrjun 2001 hafið þér hins vegar veikst alvarlega og legið á spítala í um það bil 10 mánuði. Þar sem þér hafið ekki getað staðið í skilum með bílalán vegna bifreiðarinnar A hafi lánveitandinn farið fram á nauðungarsölu á bifreiðinni. Kemur fram í bréfi yðar að eftir að þér hafið fengið bréf tollstjóra þann 10. apríl 2003 hafið þér haft samband við lögfræðing hjá embættinu sem hafi þá tjáð þér að bíllinn yrði seldur á uppboði til tryggingar lögveði. Ljóst er að bifreiðin A var seld á uppboði þann 5. apríl 2003. Gerði tollstjórinn í Reykjavík kröfu í umrædda bifreið vegna þungaskatts en lögveð var á bifreiðinni vegna framangreinds skatts. Hins vegar var ekki gerð krafa í bifreiðina vegna eftirgefins vörugjalds þó embættið hefði einnig lögveð í bifreiðinni vegna þess. Þann 5. apríl 2003, þegar uppboð bifreiðarinnar fór fram, var enn ekki ljóst hvort skilyrði yfirlýsingarinnar væru uppfyllt. Aðeins voru liðnir 9 dagar frá því að kvöðin rann út og embættið hafði enn ekki farið fram á að gögnum, sem sýndu fram á hvort skilyrði kvaðarinnar væru uppfyllt, væri skilað til embættisins. Var farið fram á umrædd gögn með bréfi embættisins dags. 10. apríl 2003, þ.e. umræddra gagna var ekki óskað fyrr en 5 dögum eftir að uppboð bifreiðarinnar fór fram. Embættið telur því að ekki hafi verið ljóst fyrr en eftir uppboð bifreiðarinnar, að skilyrði kvaðarinnar væru ekki uppfyllt og endurgreiða bæri eftirgefið vörugjald.

Í bréfi yðar, dags. 16. maí sl., kemur ennfremur fram að þér hafið haft samband við starfsmann embættisins eftir að ákvörðun tollstjóra, dagsett þann 9. janúar 2004, barst yður. Þá kemur fram í bréfi yðar að í samtali við starfsmann embættisins hafi hann tjáð þér að mistök hafi ollið því að ekki var gerð krafa um greiðslu við nauðungaruppboðið þann 5. apríl 2003. Að mati embættisins er það hins vegar ekki rétt að umræddur starfsmaður hafi talið að um mistök væri að ræða. Hins vegar er ljóst að ekki var við uppboðið gerð krafa í bifreiðina vegna eftirgefins vörugjalds, enda var þá enn ekki ljóst hvort skilyrði yfirlýsingarinnar yrðu uppfyllt.

Í bréfi yðar farið þér fram á að vegna mistaka embættisins endurskoði það kærða ákvörðun sína, en ella að þar sem reiknað endurgjald fyrir umrætt tímabil hafi farið langleiðina upp í það lágmark sem kveðið er á um í reglugerð, verði tekið tillit til þess.

III

Hvað varðar lágmark það sem kveðið er á um í 2. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 254/1993 um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum, kemur fram í ákvæðinu að endurgjald af leiguakstri annað af tveimur almanaksárum eftir að eftirgjöf er veitt þurfi að ná að lágmarki kr. 1.164.000,00, sbr. og 2. mgr. 1. tl. a-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, með síðari breytingum. Samkvæmt ofangreindri reglugerð er engin heimild fyrir hendi til að gera undanþágu frá þessari fjárhæð. Verður þegar af þeirri ástæðu að hafna því að taka megi tillit til lægri fjárhæðar við ákvörðun um endurgreiðslu.

Hvað varðar heimild tollstjóra til að óska fjárnáms í eignum yðar til tryggingar ofangreindrar skuldar er ljóst að sú heimild er skýr í tollalögum sbr. 4. mgr. 111. gr. tollalaga nr. 55/1987, 1. mgr. 27. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og 9. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Þá telur embættið það ekki hafa verið mistök þess að hafa ekki gert kröfu í andvirði bifreiðarinnar A við nauðungaruppboð þess, þar sem þá var ekki enn fullreynt hvort skilyrði reglugerðar nr. 254/1993 um vörugjald af bifreiðum yrði fullnægt. Með vísan til þessa telur tollstjóri því að ákvörðun embættisins þann 9. janúar 2004, sem og sú ákvörðun embættisins að óska eftir fjárnámi í eignum yðar skuli standa óbreytt, sbr. ofangreind lagaákvæði.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, að innheimta beri eftirgefið vörugjald af bifreiðinni A, hjá eiganda hennar B, sbr. 4. mgr. 111. gr. tollalaga nr. 55/1987, 1. mgr. 27. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og 9. tl. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

Úrskurði þessum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 30. júlí 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum