Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 17/2010

Leiðrétting aðflutningsgjalda skv. 116. gr. tollalaga

31.8.2010

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með aðflutningsskýrslu, dags. 29. janúar 2010, hefur M lagt inn beiðni um leiðréttingu aðflutningsgjalda af sendingu með sendingarnúmer E GOD 28 12 9 SE HEL V596 skv. 116. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Kærandi krefst þess að aðflutningsgjöld verði lögð á sendinguna í samræmi við leiðrétta aðflutningsskýrslu.

II. Málsmeðferð

Kæranda barst í desember 2009 sending nr. E GOD 28 12 9 SE HEL V569, sem innihélt tölvubúnað frá S. Samkvæmt upplýsingum kæranda eignaðist hann búnaðinn samkvæmt ákvörðun J þar um. Eftir að Tollstjóri kallaði eftir vörureikningi lagði kærandi fram „delivery note“ eða kvittun frá fyrirtækinu P, þar sem búnaðurinn var metinn. Uppgefið verð á kvittun var SEK 1.000.000.-, eða ISK 17.773.000.- skv. gildandi tollafgreiðslugengi á þeim tíma er sendingin var tollafgreidd þann 19. janúar 2010. Tollafgreiðsla byggði á framlögðum gögn, að undangenginni skoðun sérfræðings Tollstjóra á búnaðinum á geymslustað.

Þann 29. janúar 2010 lagði kærandi inn beiðni um leiðréttingu tollverðs skv. 116. gr. tollalaga nr. 88/2005. Með athugasemd skráðri í Tollakerfi þann 1. febrúar 2010 var beiðni um leiðréttingu hafnað af starfsmanni embættisins.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir leiðréttingu aðflutningsskýrslu á því að upphæð á framlagðri kvittun („delivery note“) hafi verið of há og krefst þess að miðað verði við það verð sem kærandi bókfærði fyrir tölvurnar sem eign skv. fyrirmælum J, alls kr. 5.004.525.-. Kærandi bendir á að búnaðinn beri að afskrifa niður í allt að 10% á 3 árum skv. reglum ríkisskattstjóra en fyrningarhlutfall geti verið allt að 35% á ári, sbr. a. lið 4. tölul., 1. mgr. 37. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Kærandi tekur fram að tilboð hafi borist í búnaðinn frá F að fjárhæð kr. 250.000.- sem miði við að kaupandi þurfi ekki að sjá um að taka búnaðinn niður sjálfur. Kæranda er ekki ljóst hvort um hafi verið að ræða tilboð í sænskum krónum eða íslenskum.

IV. Niðurstöður

Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. tollalaga skal innflytjandi leggja fram beiðni hjá Tollstjóra um viðeigandi leiðréttingar verði hann þess var innan sex ára talið frá tollafgreiðsludegi vöru að upplýsingar sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vöru voru rangar eða ófullnægjandi.

Kærandi fer þess á leit að álögð gjöld verði leiðrétt í samræmi við þær upplýsingar sem lagðar voru fram með beiðni um leiðréttingu tollverðs þann 29. janúar 2010 og að tollverð verði lækkað úr SEK 1.000.000.- í ISK 5.004.525.-.

Tollverð innfluttra vara er viðskiptaverð þeirra, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiðir af ákvæðum 15. gr., sbr. 14. gr. tollalaga nr. 88/2005. Nánar er kveðið á um tollverð vöru í reglugerð nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru. Í 2. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar kemur fram að viðskiptaverð vöru sé aðalgrundvöllur tollverðs hennar, sbr. 1. mgr. 14. gr. tollalaga. Verði tollverð ekki ákvarðað á grundvelli viðskiptaverðs, skal það ákvarðað skv. 57.- 62. gr. Sama gildi þegar ekkert er greitt fyrir vöru eða greiðsla er einungis til málamynda. Með vísan til ofangreinds er ljóst að til þess getur komið að munur sé milli þess kaupverðs sem greitt er fyrir vöru og tollverði hennar til innflutnings.

Varan sem um ræðir, þ.e. tölvubúnaður, gagnageymslur og netþjónar, var nýtt í rekstri S. Upprunaleg tollafgreiðsla búnaðarins var byggð á verðmati fyrirtækisins P sem kærandi lagði fram eftir beiðni embættisins um vörureikning til tollafgreiðslu. Áður en tollafgreiðsla fór fram var umrætt verðmat skoðað af starfsmanni embættisins, sem er sérfræðingur á rekstrarsviði auk þess sem hann hefur umsjón með netkerfi embættisins og uppsetningu og viðhald á tölvubúnaði. Sá hinn sami starfsmaður skoðaði vöruna, þ.e.a.s. búnaðinn, á geymslustað farmflytjanda áður en tollafgreiðsla fór fram. Þá var rannsókn verðsins jafnframt gerð með hliðsjón af upplýsingum sem fengust m.a. á ebay og öðrum síðum á internetinu. Að úttekt og rannsókn lokinni mat starfsmaður raunhæft heildarverð búnaðarins vera u.þ.b. kr. 16.938.500.-. Mat þetta byggði einvörðungu á vélbúnaði þeim sem fluttur var inn, án hugbúnaðar eða annars. Því var fallist á að verðmat fyrirtækisins P gæfi raunhæfa mynd af því verði sem greiða bæri fyrir búnaðinn, sbr. 14. gr. tollalaga, og sendingin tollafgreidd á grundvelli framlagðs reiknings („delivery note“).

Innflytjandi ber sönnunarbyrði fyrir því að rangar og ófullnægjandi upplýsingar hafi verið lagðar til grundvallar tollafgreiðslu vöru ef breyttar forsendur geta leitt til lækkunar álagðra aðflutningsgjalda, sbr. 3. mgr. 116. gr. tollalaga. Í athugasemdum um 116. gr. í frumvarpi því sem varð að tollalögum nr. 88/2005 kemur fram að beiðni um leiðréttingar samkvæmt greininni lýtur að aðflutningsskjölum vegna innfluttra vara sem hafa verið tollafgreiddar, þ.e. afhentar til notkunar innan lands. Eins og fram kemur í athugasemdunum er ómögulegt að staðreyna réttmæti nýrra upplýsinga með óyggjandi hætti þegar vara hefur verið afhent undan tolleftirliti. Af því leiðir að gera verður strangar kröfur til sönnunar innflytjanda þegar beiðni um leiðréttingu er lögð fram með stoð í þessu ákvæði. Nýr reikningur verður til dæmis ekki lagður fram nema atvik og gögn málsins eins og þau lágu fyrir við tollafgreiðslu styðji að um rangar upplýsingar hafi verið að ræða.

Með vísan til ofangreinds er ljóst að miklar kröfur verður að gera til þeirra gagna sem innflytjandi leggur fram til leiðréttingar skv. 116. gr. tollalaga. Þar af leiðandi er ekki hægt að fallast á beiðni um leiðréttingu aðflutningsgjalda dags. 29. janúar 2010, enda er verð sem þar er uppgefið, kr. 5.004.525.-, rétt tæplega þriðjungur þess verðs sem upphaflega var gefið upp. Framlögð gögn eru ekki til þess fallin að sýna fram á að um of hátt verð hafi verið að ræða.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að beiðni um leiðréttingu aðflutningsgjalda af sendingu nr. E GOD 28 12 9 SE HEL V569 skv. 116. gr. tollalaga nr. 88/2005 er hafnað.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 1144/2008.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum