Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 17/2012

Álagning aðflutningsgjalda

3.7.2012

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 25. júní 2012, hefur B kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda á póstsendingu P15020062ISB160187. Kærandi krefst leiðréttingar álagðra aðflutningsgjalda.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom með flugi frá Kaupmannahöfn þann 11. júní 2012 og óskaði eftir því við komu til landsins að staðfest yrði af starfsmanni Tollstjóra að tollheimild hefði ekki verið fullnýtt. Slík staðfesting var veitt og hún undirrituð af tollverði. Kærandi hafði fyrr sama dag keypt 12 stk. matardiska frá Royal Copenhagen og ákveðið að senda þá með pósti vegna kostnaðar við yfirvigt. Verslunin sá um að pakka vörunum inn og senda þær og greiddi kærandi flutningsgjald og tryggingu fyrir vörurnar hjá versluninni. Varan barst til landsins þann 20. júní 2012 og vitjaði kærandi vörunnar og greiddi aðflutningsgjöld þann 28. júní 2012.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að ekki hafi borið að greiða aðflutningsgjöld af vörum þeim er sendar voru. Kærandi hafi viljað leita hagkvæmari leiða til að taka með sér vörur til landsins og skilningur kæranda hafi verið sá að 11. gr. reglugerðar nr. 630/2008 ætti við í þessu tilviki, en hún fjallar um tollfrjálsan innflutning farangurs sem orðið hefur viðskila við eiganda.

IV. Niðurstöður

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 með síðari breytingum er kveðið á um almenna tollskyldu. Í því felst að hver sá er sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga, er tollskyldur og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá. Virðisaukaskattur er einnig lagður á við innflutning vöru í samræmi við ákvæði 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins nema sérstakar undanþágur í lögum eigi við. Undanþágu frá almennri tollskyldu er m.a. að finna í b-lið 2. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. og 1. og 2. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Þar kemur fram að ferðamönnum búsettum hérlendis sé heimilt að hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun hér á landi, umfram almennan farangur og ferðabúnað, varning að verðmæti allt að 65.000 kr., miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Virðisaukaskattur er með sama hætti undanþegin, sbr. 36. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Þær vörur sem ferðamenn hafa meðferðis við komu til landsins eru þannig tollfrjálsar í samræmi við ofangreint. Í 7. gr. reglugerðar nr. 630/2008 er fjallað um almenn skilyrði fyrir þeim tollfríðindum sem mælt er fyrir um í 1.- 6. gr. reglugerðarinnar. Skilyrðin eru þau að innflytjandi hafi vöruna í eigin vörslu við komu til landsins og geti þá framvísað henni til tollskoðunar og að varan sé flutt inn til persónulegra nota viðkomandi, fjölskyldu hans eða til smágjafar. Meginreglan er því sú að einstaklingur getur einungis notið tollfríðinda hafi hann haft vöruna meðferðis við komu til landsins.

Undantekningu frá meginreglunni er að finna í 11. gr. reglugerðar 630/2008 þar sem fjallað er um farangur sem verður viðskila við eiganda. Ljóst er að tilgangurinn með nefndu ákvæði er að tryggja að farangur sem týnist eða verður með öðrum hætti viðskila við eiganda á ferð erlendis, fáist sendur til landsins tollfrjáls, líkt og hefði hann komið til landsins í vörslum eiganda. Um er að ræða undanþágu frá meginreglunni um toll- og skattskyldu sem ber að túlka þröngt samkvæmt viðurkenndum lögskýringareglum. Þar sem kærandi sendi hina innfluttu vöru með pósti, borgaði flutningsgjald og greiddi fyrir tryggingu er ekki um að ræða farangur sem varð viðskila við eiganda í skilningi téðs ákvæðis reglugerðar nr. 630/2008, en ákvæðinu er ætlað að taka til tilvika þar sem farangur verður vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna viðskila við eiganda.

Með vísan til ofangreinds er niðurstaðan sú að embætti Tollstjóra hafnar því að skilyrði séu til þess að endurgreiða ætluð ofreiknuð aðflutningsgjöld með þeim hætti sem krafist er af hálfu kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti tollstjóra úrskurðar, skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda á sendingu nr. P15020062ISB160187 dags. 20. júní 2012 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum