Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 17/2017

Tollflokkun ökutækis af gerðinni Mercedes-Benz Sprinter

28.9.2017

Reifun

A kærði til Tollstjóra tollflokkun ökutækis af gerðinni Mercedes-Benz Sprinter og krafðist að ökutækið yrði tollflokkað sem sendibifreið í tollskrárnúmer 8704.2199.

Tollstjóri taldi ljóst af útliti og hönnun umþrætts ökutækis að það væri ætlað til að ferja bæði farþega og varning. Var litið til atriða í skýringabókum Alþjóðatollastofnunarinnar til aðgreiningar á ökutækjum sem falla undir vörulið 8703 í tollskrá, þ.e. bifreiðar sem aðallega eru gerðar til mannflutninga og vörulið 8704, þ.e. bifreiðar sem ætlar eru til vöruflutninga.

Kærandi benti á að hann hafi boðið Tollstjóra að breytingar yrðu gerðar á ökutækinu áður en það yrði tekið til tollmeðferðar og samkvæmt skráningu Samgöngustofu yrði ökutækið skráð sem sendibifreið.

Tollstjóri vísaði í úrskurði sínum til meginreglunnar um að vörur séu tollflokkaðar og þ.a.l. tollafgreiddar í því ástandi sem þær eru í við innflutning til landsins, auk þess að Tollstjóri sé bundinn af tollalögum og tollskrá við tollflokkun. Það hafi ekki áhrif á tollflokkun hvernig ökutæki sé skráð hjá Samgöngustofu eða flokkist samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004.

Var niðurstaða Tollstjóra að tollflokka ætti ökutækið undir vörulið 8703, nánar tiltekið 8703.3240.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti dags. 3. ágúst sl. hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, tollflokkun bifreiðar af gerðinni Mercedes-Benz Sprinter sem hlotið hefur fastanúmerið X.

Kærandi krefst þess að bifreiðin verði tollflokkuð sem sendibifreið í tollflokk 8704.2199.

II. Málsmeðferð

Þann 7. júní 2017 flutti kærandi inn ökutæki af gerðinni Mercedes-Benz Sprinter á sendingarnúmerinu Y.

Lagði kærandi inn aðflutningsskýrslu fyrir áðurnefnda sendingu 1. ágúst 2017. Starfsmaður Tollstjóra gerði athugasemd við aðflutningsskýrsluna vegna rangrar tollflokkunar en hann taldi réttan tollflokk ökutækisins vera 8703.3340. Var í kjölfarið tollflokkun breytt á aðflutningsskýrslunni og var sendingin tollafgreidd 2. ágúst 2017.

Tollafgreiðsla ökutækisins var kærð með tölvupósti þann 3. ágúst 2016.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun ökutækisins X af gerðinni Mercedes-Benz Sprinter í tollskrárnúmer 8703.3340 verði endurskoðuð.

Kröfu sinni til stuðnings bendir hann á að ekki sé um að ræða fólksbíl eða skutbíl, heldur sendibifreið til vöruflutninga sem fer á rauð virðisaukaskattsnúmer. Í kæru kæranda er tekið fram að við komu ökutækisins til landsins sé þriggja manna bekkur í fremri vörurými sem ekki muni verða hluti af ökutækinu þegar kemur að frumskoðun ökutækisins, en búið væri að bjóða Tollstjóra að bekknum væri fargað fyrir tollafgreiðslu. Einnig var farið fram á við Samgöngustofu að ökutækið yrði skráð í flokk sendibifreiða. Kærandi tekur fram að þó svo ökutækið hafi verið skráð erlendis fyrir fimm farþega er ekki sagt að að svo þurfi að vera við fyrstu skráningu hér á landi þar sem notkun ökutækisins verður ekki sem fólksbíll eða skutbíll, heldur sendibifreið í vöruflutningum. Auk þess sé það mjög umdeilanlegt hvort hægt er að kalla ökutæki fólksbifreið eða skutbíl þegar vörurými ökutækis er margfalt stærra en farþegarýmið.

Kærandi krefst þess að þessi rök verði tekin til greina þar sem um mikinn gjaldamun sé að ræða og að sanngirni skuli höfð í fyrirrúmi.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýr að tollflokkun bifreiðar af gerðinni Mercedes Benz Sprinter, sem fengið hefur fastanúmerið X. Kærandi gerir þá kröfu að bifreiðin skuli vera tollflokkuð í tollflokk nr. 8704.2199 en ekki tollflokk nr. 8703.3340 sem hún var tollafgreidd í þann 8. ágúst 2016.

Í kæru kæranda er rakið að við komu til landsins sé farþegabekkur fyrir þrjá farþega í fremra rými sem muni ekki verða hluti af ökutækinu þegar kemur að forskoðun og gerð hafi verið tilraun til að bjóða Tollstjóra að bekknum verði fyrir fargað fyrir tollmeðferð.

Meginregla tollalaga nr. 88/2005 er að vara skuli vera tollflokkuð og þ.a.l. tollafgreidd í því ástandi sem hún er í við innflutning sbr. 2. mgr. 73. gr. tollalaga, en ekki er að finna heimild í tollalögum til aðvinnslu vöru eftir tollafgreiðslu og leiðréttingar á tollafgreiðslu í samræmi við þá aðvinnslu. Verður því tollflokkun ökutækisins X miðuð við ástand þess við innflutning til landsins.

Auk ofangreinds er í 1. mgr. 9. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993 fjallað um breytingar á ökutækjum sem verða til þess að ökutæki flokkast í hærri gjaldflokk. Í ákvæðinu segir að ef ökutæki, sem skráð hefur verið samkvæmt umferðarlögum, sé breytt þannig að það flokkist í hærri gjaldflokk en við upphaflega skráningu skuli skráður eigandi þess greiða viðbótarvörugjald ef breytingin á sér stað innan fimm ára frá upphaflegum skráningardegi. Ekki er hins vegar að finna heimild í áðurgreindum lögum eða í reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, til að endurgreiða mismun á vörugjaldi eftir aðvinnslu bifreiðar.

Af ofangreindu er ljóst að löggjafinn taldi sérstaka ástæðu til að kveða á um breytingu á vörugjaldi til hækkunar ef ökutæki skipta um gjaldflokk eftir breytingu. Telur Tollstjóri sér ekki heimilt að lögjafna frá ákvæðinu á þann hátt að sama gildi um breytingu sem verður til þess að ökutæki falli í lægri gjaldflokk.

Þegar grundvöllur fyrir álagningu vörugjalds er skoðaður er nauðsynlegt að líta til laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Samkvæmt 1. gr. laganna ber að greiða vörugjald af ökutækjum sem skráningaskyld eru samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987 og nær gjaldskyldan til allra ökutækja nýrra sem notaðra sem flutt eru til landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Álagning vörugjalda á ökutæki fer að meginreglu eftir 3. gr. laganna þar sem hún er miðuð við skráða losun koltvísýrings. Í 4. og 5. gr. laganna er að finna undantekningar frá þessari meginreglu sem kveða almennt á um lægra vörugjald en þyrfti að greiða félli ökutæki undir 3. gr. laganna. Af tollskrá má lesa að ökutæki sem flokkast í tollskrárnúmer 8703.3340 falla undir meginregluna í 3. gr. laga nr. 29/1993 en ökutæki sem flokkast í tollskrárnúmer 8704.2199 falla aftur á móti undir undanþáguákvæði 4. gr. laganna. Kærandi vísar ekki til ofangreindra laga í kæru sinni, en bifreiðar í tollskrárnúmeri 8704.2199 geta bæði fallið undir g-lið 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna og h-lið sama ákvæðis. Tollstjóri leiðir líkum að því að átt sé við g-lið 2. tölul. 1. mgr. laganna.

Við innflutning til landsins var ökutækið X þannig útbúið að það gat flutt einn ökumann og fjóra farþega. Einnig var í bifreiðinni rúmt vöruflutningarými sem var sambyggt stýrishúsinu en aðskilið með varanlegu skilrúmi fyrir aftan þriggja manna sætisröð fyrir aftan ökumann ásamt einu sæti við hlið ökumanns. Tollstjóri telur ljóst að bifreiðinni er ætlað að ferja bæði farþega og varning. Bifreiðin gæti til að mynda hentað til að flytja vinnuhópa ásamt verkfærum og farangri þeirra til vinnu.

Þegar tollflokka á umrædda bifreið koma til skoðunar tveir vöruliðir, þ.e. nr. 8703 sem fólksflutningabifreiðar falla undir, og nr. 8704, þar sem vöruflutningabifreiðar flokkast. Kærandi fer fram á að bifreiðin sé tollflokkuð sem sendibifreið í vörulið 8704, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 8704.2199 sem skilgreint er sem ökutæki til vöruflutninga, með vörurými.

Í skýringabókum Alþjóðatollastofnunarinnar er að finna fimm atriði sem eru sérstaklega hjálpleg við flokkun bifreiða sem svipar til sendiferðabifreiða og gefa til kynna hvort bifreið sé aðallega til vöruflutninga í vörulið 8704 eða bifreið aðallega gerð til mannflutninga í vörulið 8703. Þau atriði sem benda til þess að ökutækið eigi að flokka í vörulið 8703, sem fólksflutningabifreið, eru eftirfarandi;

  • Í fyrsta lagi verður að vera fyrir hendi, í aftara rými fyrir aftan bílstjóra, varanleg sæti fyrir farþega eða varanlegir festipunktar fyrir slík sæti og öryggisbelti. Sætin mega vera losanleg.
  • Í öðru lagi er nefnt að gluggar verða að vera á báðum hliðum ökutækisins í aftara rými.
  • Í þriðja lagi eru nefndar hurðir með gluggum í aftara rými.
  • Í fjórða lagi er nefndur skortur á varanlegu skilrúmi milli svæðisins fyrir ökumann og aftara rýmis.
  • Í fimmta lagi er nefnd tilvist þæginda, búnaður og innra byrði (innréttinga) sem eru oft í farþegarýmum.

Umrædd bifreið uppfyllir fjögur af þessum fimm atriðum. Þannig eru sæti fyrir þrjá farþega fyrir aftan bílstjórasætisröðina. Gluggar eru á hliðum bifreiðarinnar, það er rennihurð með gluggum á hlið bifreiðarinnar og það er ekki skilrúm sem skilur að bílstjórasætisröðina frá restinni af rýminu.

Hinn vöruliðurinn sem til skoðunar kom er vöruliður 8704 fyrir ökutæki til vöruflutninga. Í skýringabókum Alþjóðatollastofnunarinnar er einnig að finna fimm atriði sem benda til þess að ökutækið eigi að flokka í þann vörulið. Þeim svipar mjög til áðurnefndra atriða fyrir vörulið 8703 en með öfugum formerkjum. Þau eru eftirfarandi:

  • Í farangursrými mega vera einfaldir bekkir sem yfirleitt eru samanfellanlegir svo hægt sé að nýta rýmið til fulls sem farangursrými. Í rýminu má hins vegar ekki vera öryggisbúnaður eða festingar sem leyfa öryggisbúnað eins og öryggisbelti.
  • Klefi fyrir ökumann og farþega á að vera aðskilinn palli (fyrir pallbifreiðar).
  • Ekki mega vera gluggar í hliðum farangursrýmis. Hurðir mega vera til staðar en þær verða að vera án glugga.
  • Varanlegt skilrúm skal vera á milli ökumanns og farþega fram í bifreiðinni annars vegar og á milli farangursrýmis.
  • Ekki mega vera til staðar þægindi, búnaður eða innréttingar í farangursrými sem oft eru í tengslum við og má finna í farþegarýmum.

Ljóst er að bifreiðin sem um ræðir í þessu máli uppfyllir ekkert af þessum 5 atriðum skýringabóka Alþjóðatollastofnunarinnar og getur því ekki flokkast í vörulið 8704. Því ber að flokka bifreiðina sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga í vörulið 8703.

Í því sambandi þykir rétt að benda á að Tollstjóri er bundinn af tollalögum og tollskrá hvað varðar tollflokkun, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 20. gr. tollalaga nr. 88/2005. Hljóta því samskonar vörur samskonar tollflokkun. Ökutækjaflokkun í reglugerð um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 eða skráning Samgöngustofu hefur ekki úrslitaþýðingu við tollflokkun enda byggist slík skráning ekki á tollskrá.

Að öllu ofangreindu virtu er niðurstaða embættis Tollstjóra að bifreiðin X flokkist sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga í vörulið 8703, nánar tiltekið 8703.3340.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að bifreiðin X af gerðinni Mercedes-Benz Sprinter flokkist í tollskrárnúmer 8703.3240.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum