Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 17/2018

Kæra synjunar á leiðréttingu aðflutningsskýrslu skv. 116. gr. tollalaga nr.88/2005.

6.12.2018

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um synjun á leiðréttingu aðflutningsskýrslu skv. 116. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Kærandi krafðist þess að ákvörðun Tollstjóra um synjun á leiðréttingu á aðflutningsskýrslu verði breytt og aðflutningsskýrsla sem til umfjöllunar er í málinu verði leiðrétt á þann hátt að kærandi verði skráður sem innflytjandi vörunnar þar sem við tollafgreiðslu hafi rangur aðili verið tilgreindur sem innflytjandi vöru fyrir mistök.

Í kæru er vísað til 1. mgr. 116. gr. tollalaga nr. 88/2005 þar sem fram kemur að innflytjandi hafi sex ár frá tollafgreiðsludegi vöru til að leggja fram leiðréttingar hafi upplýsingar sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vörur, verið rangar eða ófullnægjandi.

Niðurstaða: Upplýsingarnar sem tollafgreiðsla byggist á þurfa að hafa verið rangar eða ófullnægjandi til þess að 1. mgr. 116. gr. komi til álita og óska þarf eftir leiðréttingu innan 6 ára frá tollafgreiðsludegi vöru. Um er að ræða heimild fyrir innflytjanda sjálfan til að óska eftir leiðréttingu, að öllum skilyrðum uppfylltum.

Tollstjóri telur kæranda ekki hafa sýnt fram á að upplýsingar þær sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vöru, hafi verið rangar eða ófullnægjandi en slíkt er skilyrði fyrir leiðréttingu sbr. 1. mgr. 116. gr. tollalaga. Tollstjóri telur þvert á móti allt benda til þess að rétt hafi verið staðið af tollafgreiðslu sendingar þeirrar sem til umfjöllunar er í málinu.

Þá er eitt af skilyrðum 116. gr. tollalaga að innflytjandi sjálfur óski eftir leiðréttingu aðflutningsskýrslu. Kærandi í máli þessu er ekki skráður innflytjandi og skilyrði 116. gr. því ekki uppfyllt að þessu leyti.

Staðfest var ákvörðun embættisins um synjun leiðréttingu á aðflutningsskýrslu.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 16. október 2018, hafa B. fyrir hönd A falið C., að kæra til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 26. september 2018 um synjun á leiðréttingu á aðflutningsskýrslu vegna sendingar á sendingarnúmeri Z, dags. 18. júní 2017.

II. Málsmeðferð

Þann 18. júní 2017 voru lækningatæki flutt til landsins með hraðsendingu á sendingarnúmeri Z. Tilgreindur innflytjandi vörunnar var G. Tollmiðlari annaðist tollflokkun og skjalagerð fyrir hönd innflytjanda. Varan hlaut rafræna SMT-tollafgreiðslu, sbr. 23. gr. tollalaga nr. 88/2005. Með vörunni fylgdi pro forma reikningur, sbr. 2. málsl. 1. tl. 1. mgr. 28 gr. tollalaga.

Með tölvupósti dags. 26. september 2018 óskaði B eftir því að tollskýrsla dags. 18. júní 2017 yrði leiðrétt á þann hátt að A yrði skráður sem innflytjandi vöru í stað G. Tollstjóri svaraði kæranda samdægurs að of langt væri liðið frá tollafgreiðslu sendingarinnar og hafnaði ósk kæranda um leiðréttingu á aðflutningsskýrslunni.

Hinn 16. október 2018 var ákvörðun Tollstjóra um synjun á leiðréttingu á aðflutningsskýrslu kærð skv. 117. gr. tollalaga. Með kæru fylgdi sem viðhengi breytt tollskýrsla ásamt þeim reikningi sem tollafgreiðsla byggði á.

III. Meginröksemdir kæranda

Meginröksemdir kæranda eru að um augljós mistök hafi verið að ræða við tollafgreiðslu þegar rangur aðili hafi verið tilgreindur sem innflytjandi vöru.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra um synjun á leiðréttingu á aðflutningsskýrslu verði breytt og aðflutningsskýrsla sem til umfjöllunar er í málinu verði leiðrétt á þann hátt að kærandi verði skráður sem innflytjandi vörunnar.

Í kæru kemur fram að kærandi selji búnað og tæki til heilbrigðisstarfsemi á Íslandi og telst því reka skattskylda starfsemi skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr 50/1988, um virðisaukaskatt. Hefur B., sem umboðsmaður kæranda hér á landi, staðið skil á virðisaukaskatti kæranda til ríkissjóðs.

Í kæru er vísað til 1. mgr. 116. gr. tollalaga nr. 88/2005 þar sem fram kemur að innflytjandi hafi sex ár frá tollafgreiðsludegi vöru til að leggja fram leiðréttingar hafi upplýsingar sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vörur, verið rangar eða ófullnægjandi.

Kærandi bendi á að Ríkisskattstjóri hafi hafnað innskattsfærslu félagsins á uppgjörstímabilinu maí – júní 2017 að fjárhæð kr. X þar sem kærandi geti ekki lagt fram fullnægjandi gögn til embættis Ríkisskattstjóra.

Af þessum sökum óskar kærandi eftir því að Tollstjóri endurskoði ákvörðun sína dags. 26. september 2018 um synjun á leiðréttingu á aðflutningsskýrslu kæranda dags. 18. júní 2017.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýr að því hvort kærandi eigi rétt á leiðréttingu á aðflutningsskýrslu vegna vöru sem flutt var inn á sendingarnúmeri Z, dags. 18. júní 2017, með vísun til 116. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Kærandi krefst þess að tollskýrsla dags. 18. júní 2017 verði leiðrétt, þar sem við tollafgreiðslu hafi rangur aðili verið tilgreindur sem innflytjandi vöru fyrir mistök og hafi Ríkisskattstjóri hafnað ósk kæranda um innskattsfærslu að fjárhæð kr. X vegna þessa.

Kærð ákvörðun Tollstjóra lítur hins vegar að því að of langt sé liðið frá tollafgreiðslu vöru til að Tollstjóri geti samþykkt bakfærslu/leiðréttingu á aðflutningsskýrslu kæranda og hafnaði embættið af þeirri ástæðu umbeðinni leiðréttingu.

Í 116. gr. tollalaga nr. 88/2005 er að finna heimild fyrir innflytjanda til að óska eftir leiðréttingu á aðflutningsskýrslu eftir tollafgreiðslu en þar segir í 1. mgr. 116. gr. : „Verði innflytjandi þess var innan sex ára talið frá tollafgreiðsludegi vöru að upplýsingar, sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vöru, voru rangar eða ófullnægjandi skal hann leggja fram beiðni hjá tollstjóra um viðeigandi leiðréttingar, sbr. 2. mgr.“ Upplýsingarnar sem tollafgreiðsla byggist á þurfa því að hafa verið rangar eða ófullnægjandi til þess að 1. mgr. 116. gr. komi til álita og óska þarf eftir leiðréttingu innan 6 ára frá tollafgreiðsludegi vöru. Um er að ræða heimild fyrir innflytjanda sjálfan til að óska eftir leiðréttingu, að öllum skilyrðum uppfylltum. Í máli þessu fer kærandi, eins og áður segir, fram á að gerð verði kennitölubreyting á sendingunni og að kærandi A verði skráður sem innflytjandi vöru í stað G og að aðflutningsgjöld verði skuldfærð á kæranda eftir þá breytingu.

Í fyrirliggjandi máli var sendingin tollafgreidd þann 18. júní 2017. Í farmskrá og á farmbréfi sendingarinnar var G skráður sem innflytjandi og viðtakandi vöru. F., sem er skráður tollmiðlari/umboðsmaður í málinu, sendi aðflutningsskýrslu til Tollstjóra þar sem G var tilgreindur sem innflytjandi. Tollmiðlarinn óskaði eftir því að aðflutningsgjöld fyrir viðkomandi sendingu yrðu skuldfærð á sig. Beiðni um bakfærslu/leiðréttingu á aðflutningsskýrslunni barst Tollstjóra þann 26. september 2018 eða ríflega 15 mánuðum eftir að tollafgreiðsla hafði farið fram.

Tollstjóri telur kæranda ekki hafa sýnt fram á að upplýsingar þær sem lágu til grundvallar tollafgreiðslu vöru, hafi verið rangar eða ófullnægjandi en slíkt er skilyrði fyrir leiðréttingu sbr. 1. mgr. 116. gr. tollalaga. Tollstjóri telur þvert á móti allt benda til þess að rétt hafi verið staðið af tollafgreiðslu sendingar þeirrar sem til umfjöllunar er í málinu, þar sem G var, eins og áður segir, skráður bæði í farmskrá og á farmbréfi sem innflytjandi og viðtakandi vöru. G, sem skráður innflytjandi vörunnar, hefur ekki gert neinar athugasemdir við tollafgreiðslu sendingarinnar sem til umfjöllunar er í málinu en rúmir 17 mánuðir eru liðnir frá tollafgreiðsludegi sendingarinnar og að mati tollstjóra rennir það enn frekari stoðum undir að rétt hafi verið staðið að viðkomandi tollafgreiðslu. Þá er eitt af skilyrðum 116. gr. tollalaga að innflytjandi sjálfur óski eftir leiðréttingu aðflutningsskýrslu. Kærandi í máli þessu er ekki skráður innflytjandi og skilyrði 116. gr. því ekki uppfyllt að þessu leyti. Af þessu er ljóst að aðildarskortur er til staðar í málinu þar sem kærandi er ekki sá sem getur gert þá kröfu sem höfð er uppi í málinu.

Með vísan til alls sem fram hefur komið hér að ofan er að mati embættis Tollstjóra rétt að hafna beiðni kæranda dags. 26. september 2018 um leiðréttingu á sendingu þeirri sem til umfjöllunar er í máli þessu.

Niðurstaða embættis Tollstjóra er að ákvörðun embættisins, dags. 26. september 2018, um synjun á leiðréttingu á aðflutningsskýrslu vegna sendingar á sendingarnúmeri Z, dags. 18. júní 2017, skuli standa óbreytt.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, ákvörðun Tollstjóra dags. 26. september 2018 um synjun á leiðréttingu á aðflutningsskýrslu vegna sendingar á sendingarnúmeri Z, dags. 18. júní 2017, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum