Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 18/2004

Lækkun vörugjalds af hópbifreið af tegund Ford E-350.

14.7.2004

Þann 6. júlí sl. barst embætti tollstjórans í Reykjavík bréf frá B hdl. f.h. fyrirtækisins C. Í bréfinu er kærð ákvörðun embættisins frá 14. júní sl. um ákvörðun vörugjalds og óskað eftir úrskurði tollstjórans í Reykjavík varðandi kröfu fyrirtækisins um að lækka vörugjald úr 30% í 5% af hópbifreiðinni A.

Málavextir eru á þann veg að C flutti inn bifreið af tegundinni Ford E-350. Bifreið þessi er hópbifreið fyrir 14 farþega auk bílstjóra. Bifreiðin var flutt inn á sendingarnúmerinu E BRU 12 04 4 US NEN W147 og var tollafgreidd hjá tollstjóranum í Reykjavík þann 29. apríl sl. Við tollafgreiðslu var lagt á 30% vörugjald svo sem skylt er skv. 5. tl. 4. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum og a-lið 5. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum. Reglugerð 331/2000 er sett með stoð í 28. gr. laga nr. 29/1993. Hópbifreiðin var síðan nýskráð hjá Umferðarstofu þann 5. maí sl. og hefur kærandi framvísað gögnum því til staðfestingar. Hlaut bifreiðin fastanúmer (...). Kærandi sótti síðan um almennt rekstrarleyfi til fólksflutninga samkvæmt lögum nr. 73/2001 um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi, með síðari breytingum. Veitti Vegagerðin síðan fyrirtækinu almennt rekstrarleyfi skv. 4. gr. l. 73/2001 þann 18. maí sl.

Kröfu sinni til stuðnings um lækkun vörugjaldsins vísar kærandi til þess að umsóknin hafi verið í beinum tengslum við nýskráningu bifreiðarinnar. Þá hafi almennt rekstarleyfi einnig verið fyrir hendi. Á þessa skýringu getur embættið ekki fallist. Eins og kom fram hér að ofan var rekstarleyfi til fyrirtækisins ekki veitt fyrr en 18. maí og það skilyrði er fyrir lækkun vörugjalds í 2. tl. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 að hópbifreið, sem skráð er fyrir 10-17 manns að meðtöldum ökumanni, sé í eigu hópferða- eða sérleyfishafa. Ljóst er að C fékk ekki úthlutað rekstarleyfi fyrr en 20 dögum eftir að bíllinn var tollafgreiddur hjá embættinu. Þar sem að embættið getur ekki byggt álagningu vörugjalds á öðrum gögnum en þeim sem liggja fyrir við tollafgreiðslu bifreiða líkt og getur um í máli þessu telur embættinu sér ekki stætt á öðru en að innheimta lögboðið 30% vörugjald af hópbifreiðinni A. Til þess að 5. mgr.

21. gr. reglugerðar nr. 331/2000 geti átt við þarf umsækjandi niðurfellingar að uppfylla þau skilyrði sem gerð eru á tollafgreiðsludegi. Ekki var um það að ræða í þessu tilfelli og verður því að hafna kröfu um lækkun vörugjalds. Með vísan til framangreinds er ekki tekin afstaða til þess hvort 20 dagar frá tollafgreiðsludegi teljast í beinum tengslum við tollafgreiðslu.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík hafnar hér með kröfu kæranda, C, um lækkunar álagningar vörugjalds af hópbifreiðinni A.

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá dagsetningu bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 14. júlí 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum