Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 18/2017

Tollflokkun á tæki af gerðinni Terex TA1EH Site Dumper

8.9.2017

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á ökutæki í tollflokk 8704.1001, sem bæri 13% vörugjald og krafðist þess að ökutækið skyldi tollflokkað sem vinnuvél í tollflokki 8430.5000, sem bæri 0% vörugjald.

Tollstjóri taldi ljóst af útliti og hönnun ökutækisins að um væri að ræða ökutæki til vöruflutninga, nánar tiltekið svokallaðan dembara í tollflokk 8704.1001 og hafnaði því kröfu kæranda um ranga tollflokkun.

Við nánari skoðun á undanþáguákvæði 4. gr. laganna var það mat Tollstjóra að dembarar, að heildarþyngd undir 5 tonnum falli undir c-lið 3. tl. 4. gr. laganna og beri þannig 30% vörugjald en undir c-lið falla: „Önnur vélknúin ökutæki sem ekki eru sérstaklega talin upp í þessum kafla.“

Niðurstaða: Staðfest var ákvörðun embættisins um að flokka beri tækið sem ökutæki til vöruflutninga í vörulið 8704, nánar til tekið í tollskrárnúmer 8704.1001.

Í ljósi rangrar tilvísunar tollskrárnúmers til undanþáguákvæða vörugjaldslaga nr. 29/1993 og þá eftirfarandi rangrar álagningar við tollafgreiðslu ökutækisins sem til umfjöllunar var í málinu var málið sent til endurskoðunardeildar embættisins til áframhaldandi meðferðar.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 21. júní 2017, hefur B f.h. A., kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 19. júní 2017, um tollflokkun á tæki af tegundinni Terex TA1EH Site Dumper.

Kærandi mótmælir því að tækið skuli flokkast sem ökutæki til vöruflutninga eftir tollskrárnúmeri 8704.1001. Um sé að ræða vinnuvél en ekki flutningatæki sem skuli flokkast í tollskrárnúmer 8430.5000.

II. Málsmeðferð

Í júní 2017 flutti kærandi inn til landsins tæki af tegundinni Terex TA1EH Site Dumper frá Bretlandi með sendingu með sendingarnúmerinu X. Aðflutningaskýrslu var skilað inn til Tollstjóra og var tækið sett í tollskrárnúmer 8429.5909. Tollstjóri gerði athugasemd við þá tollflokkun sama dag. Ákvörðun var tekin um að tækið bæri að tollflokka í tollflokk 8704.1001, en þar undir falla ökutæki til vöruflutninga. Ákvörðunin var kærð með tölvupósti dags. 21. júní sl. Kærunni fylgdi gögn, ss. tölvupóstar, útfyllt kærueyðublað og ljósmyndir. Með tölvupósti, dags. 4. júlí óskaði Tollstjóri eftir mynd af tækinu í máli þessu og barst Tollstjóra mynd í tölvupósti frá kæranda sama dag. Með tölvupósti 31. júlí 2017 var kæranda tilkynnt að tafir gætu orðið á afgreiðslu málsins. Hinn 21. ágúst óskaði kærandi eftir í símtali við Tollstjóra að fá sent skjal sem innihélt skilgreiningar WCO (Alþjóðatollastofnunarinnar) á vörulið 8704 og varð Tollstjóri við þeirri ósk kæranda sama dag.

III. Meginröksemdir kæranda

Meginröksemdir kæranda eru að tækið hafi verið rangt tollflokkað. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telji umrætt tæki skuli tollflokka sem vinnuvél í vörulið 8430.5000 en ekki sem flutningatæki í vörulið 8704.1001 enda séu tæki í síðarnefnda tollflokknum skráningarskyld hjá Samgöngustofu en tæki kæranda sé það ekki.

Kærandi kveður vöruna vera skráða hjá Vinnueftirlitinu og fái númer í flokki sem heiti IB sem tilheyri flokki fyrir vélbörur. Kærandi kveður tækið ekki notað til vöruflutninga heldur sé tækið vinnuvél og eigi að flokkast sem slík. Kærandi byggir á því að tækið sé ekki „dumper“ heldur vélbörur enda beri tækið einungis 1 tonn og muni aldrei fá fastanúmer eða vera notað á götunni.

Af þessum sökum óskar kærandi að Tollstjóri endurskoði ákvörðun sína um að tollflokka umrætt ökutæki undir tollskrárnúmer 8704.1001.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýst um tollflokkun tækis af tegundinni Terex TA1EH Site Dumper.

Kærandi fer fram á að tækið verði tollflokkað í vörulið 8430, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 8430.5000. Kærð ákvörðun Tollstjóra lítur hins vegar að því að um sé að ræða ökutæki til vöruflutninga í tollskrárnúmeri 8704.1001, nánar tiltekið svokallaðan dembara gerðan til nota utan þjóðvega og að heildarþyngd 5 tonn eða minna.

Þegar grundvöllur fyrir álagningu vörugjalds er skoðaður er nauðsynlegt að líta til laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Samkvæmt 1. gr. laganna ber að greiða vörugjald af ökutækjum sem skráningaskyld eru samkvæmt umferðarlögum nr. 50/1987 o.fl., svo sem nánar greinir í lögum nr. 29/1993, sbr. 87. kafla viðauka I við tollalög nr. 88/2005. Gjaldskyldan nær til allra ökutækja nýrra sem notaðra sem flutt eru til landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna. Þrátt fyrir ábendingu kæranda um skráningarskyldu ökutækja hjá Samgöngustofu þá nær gjaldskylda skv. lögum nr. 29/1993 til skráningarskyldra ökutækja jafnt sem óskráðra ökutækja, sbr. tilvísun 1. gr. laganna til 87. kafla tollskrár. Álagning vörugjalda á ökutæki fer að meginreglu eftir 3. gr. laganna þar sem hún er miðuð við skráða losun koltvísýrings. Í 4. og 5. gr. laganna er að finna undantekningar frá þessari meginreglu sem kveða almennt á um lægra vörugjald en þyrfti að greiða félli ökutæki undir 3. gr. laganna.

Af tollskrá má lesa að ökutæki sem flokkast í tollskrárnúmer 8704.1001 falla undir undanþáguákvæði 4. gr. laga nr. 29/1993 en ökutæki sem flokkast í tollskrárnúmer 8430.5000 bera ekki vörugjald þar sem lög um vörugjald nr. 29/1993 kveða einungis á um að skráningarskyld ökutæki, ökutæki sem sérstaklega eru talin upp í lögunum og ökutæki í 87. kafla tollskrá skuli bera vörugjöld.

Kærandi tiltekur í kæru sinni að tæki eins og hér er til umfjöllunar þurfi hvorki fastanúmer né er það skráningarskylt hjá Samgöngustofu þar sem um vinnutæki er að ræða skv. umferðarlögum nr. 50/1987 og af þeim sökum skuli það ekki bera vörugjald. Tollstjóri dregur ekki í efa staðhæfingar kæranda en þær hafa þó ekki áhrif á gjaldskyldu skv. vörugjaldslögum því eins og fram hefur komið þá bera ökutæki í 87. kafla vörugjald, óháð bæði skráningarskyldu og útgáfu fastanúmers.

Ökutækið sem til umfjöllunar er í málinu er þannig útbúið að það er án stýrishúss en með sæti fyrir ökumann sem stjórnar því. Tækið er á fjórum sérútbúnum dekkjum, sem virðast vera gerð til aksturs utan þjóðvega, og er með skúffu fyrir hlass sem hægt er að sturta úr.

Lýsing á tækjum sem flokkast í vörulið 8704 er: „ökutæki til vöruflutninga“. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) á demburum í vörulið 8704 þá eru dembarar harðbyggð ökutæki með sturtu- eða losunarbúnaði, sérstaklega hönnuð til flutnings á jarðvegi eða öðrum uppgreftri og útbúin sérútbúnum dekkjum til aksturs utanvegar. Dembarar í vörulið 8704 þurfa ekki að vera stórir eða með mikla burðargetu og mega einnig vera stjórnað af gangandi manni.

Lýsing á tækjum í tollskrá sem flokkast í vörulið 8430 er svohljóðandi:„annar vélbúnaður til að færa, hefla, jafna, skafa, grafa, þjappa, binda, vinna eða bora í mold, steinefni eða málmgrýti; fallhamrar og stauratogarar; snjóplógar og snjóblásarar.“ Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) á tækjum í vörulið 8430 þá eiga þau það sameiginlegt að höfuðtilgangur þeirra er að vinna á jarðskorpunni með einum eða öðrum hætti, t.d. með því að skera eða brjóta niður grjót, mold o.fl., grafa upp jarðveg eða jafna jarðveginn.

Í 1. gr. almennra reglna um túlkun tollskrárinnar, sem lögfestar voru sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Tollstjóri telur ljóst að tækið sem hér um ræðir falli að lýsingu vöruliðar 8704 sem ökutæki til vöruflutninga enda verður að telja að tækið sé hannað og nýtt til þess að flytja jarðveg eða annan uppgröft á milli staða en ekki til þess að vinna sjálft á jarðskorpunni, líkt og tæki í vörulið 8430. Þrátt fyrir lágan hámarkshraða þá er tækinu meðal annars ekið og stýrt af ökumanni þess.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af túlkunarreglum 1 og 6 við tollskrá, sbr. viðauka 1 við tollalög nr. 88/2005, er það mat Tollstjóra að tæki af gerðinni Terex TA1EH Site Dumper skuli flokkast sem ökutæki til vöruflutninga í tollskrárnúmer 8704.1001, sem dembari (dumper) gerður til nota utan þjóðvega og að heildarþyngd 5 tonn eða minna.

Tollstjóri telur að tæki eins og til umfjöllunar eru í máli þessu hafi áður verið felld undir f-lið 3. tl. 1. mgr. 4. gr. laga númer 29/1993 eldri laga um vörugjald. Í f-lið 3. tl. 1. mgr. 4. gr. eldri vörugjaldslaga kom fram að „ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna“ skuli bera 13% vörugjald. Með lögum nr. 156/2010 var vörugjaldslögunum breytt á þann hátt að nýtt ákvæði var sett inn í lögin þar sem „sendibifreiðar sem aðallega eru ætlaðar til vöruflutning undir 5 tonn að leyfðri heildarþyngd, með sambyggt stýrishús og flutningsrými og án farþegasæta í farrými“ og „grindur með hreyfli og ökumannshúsi sem búið er að bæta við vöruflutningsrými“ skyldu njóta undanþágu með 13% vörugjaldi. Með breytingarlögunum var hin almenna undanþága fyrir „ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna“ tekin út úr lögum um vörugjald nr. 29/1993. Í lögskýringargögnum kemur þó skýrt fram að sendibifreiðar og grindur með hreyfli skuli áfram bera 13% vörugjald enda eru þau nú vel tilgreind undir g-lið og h-lið 2. tl. 4. gr. gildandi vörugjaldslaga.

Tollstjóri telur vilja löggjafans vera skýran um að afnema átti hina almennu reglu um að að ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna skuli njóta sérstaks vörugjalds.

Hinsvegar kemur fram í veftollskrá að tæki í tollskrárnúmeri 8704.1001 skuli bera 13% vörugjald með tilvísun í 2. tl. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. nr. 29/1993. Við nánari skoðun á undanþáguákvæði 2. tl. 4. gr. laga um vörugjald er það mat Tollstjóra að engin undanþáguliður í 2. tl. 4. gr. geti átt við um dembara eins og um ræðir í máli þessu. Það er mat Tollstjóra að þegar vörugjaldslögunum var breytt með lögum nr. 156/2010 hafi farist fyrir að breyta veftollskránni til samræmis við breytingu á nýju og breyttu undanþáguákvæði vörugjaldslaganna og því sé tilvísun í tollskrárnúmeri 8704.1001 til undanþáguákvæðis 2. tl. 4. gr. vörugjaldslagana röng.

Við nánari skoðun á undanþáguákvæði 4. gr. laganna er það mat Tollstjóra að dembarar, að heildarþyngd undir 5 tonnum falli undir c-lið 3. tl. 4. gr. laganna og beri þannig 30% vörugjald en undir c-lið falla: „Önnur vélknúin ökutæki sem ekki eru sérstaklega talin upp í þessum kafla.“ 

Með vísan til alls ofangreinds er niðurstaða embættis Tollstjóra því sú að ákvörðun embættisins, dags. 19. júní 2017, skuli standa óbreytt og flokka beri tækið sem ökutæki til vöruflutninga í vörulið 8704, nánar til tekið í tollskrárnúmer 8704.1001.

Í ljósi rangrar tilvísunar tollskrárnúmers til undanþáguákvæða vörugjaldslaga nr. 29/1993 og þá eftirfarandi rangrar álagningar við tollafgreiðslu sendingar X hefur Tollstjóri í hyggju að endurákvarða vörugjald á tæki af gerðinni Terex TA1EH Site Dumper sem flutt var til landsins með sendingu X, og verður málið sent til endurskoðunardeildar embættisins til áframhaldandi meðferðar.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun tækis af tegundinni Terex TA1EH Site Dumper í tollskrárnúmer 8704.1001, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum