Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 18/2018

Synjun á tímabundnum tollfríðindum vegna ökutækja

7.12.2018

Reifun

A og B kærðu í sameiningu ákvörðun Tollstjóra um synjun á tímabundnum tollfríðindum vegna ökutækis með erlenda skráningarnúmerið X. Kærendur töldu sig uppfylla öll skilyrði fyrir tímabundnum tollfrjálsum innflutningi en hin kærða ákvörðun Tollstjóra byggðist á því að kærendur væru fluttir til landsins og ættu því ekki rétt á tollfríðindum vegna ökutækisins.

Tollstjóri leit til þess að um væri að ræða undanþágu frá meginreglum tollalaga varðandi greiðslu aðflutningsgjalda og sem slíka bæri að túlka hana þröngt. Farið var yfir réttarheimildir sem snúa að tímabundnum tollfrjálsum innflutningi en þar kom fram að réttur til tímabundins tollfrjáls innflutnings ökutækja félli niður tæki innflytjandi upp varanlega búsetu hér á landi. Til skilgreiningar á hugtakinu búseta var litið til laga um lögheimili en þar kemur fram að lögheimili manns sé sá staður, þar sem hann hefur fasta búsetu. Þar sem kærendur höfðu flutt lögheimili sitt til landsins, ásamt því að hafa notið tollfríðinda sem fólk sem flyst búferlum til landsins, var það mat Tollstjóra að kærendur uppfylltu ekki skilyrði fyrir tímabundnum tollfrjálsum innflutningi ökutækja sem aðilar sem koma tímabundið hingað til lands.

Var ákvörðun Tollstjóra um synjun á tímabundnum tollfríðindum vegna ökutækis með erlenda skráningarnúmerið X, því staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti dags. 6. nóvember 2018, hafa A og B, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 2. nóvember 2018, um synjun á tímabundnum tollfríðindum vegna ökutækis með erlenda skráningarnúmerið X.

Kærendur krefjast þess að ákvörðun Tollstjóra verði hnekkt og sér verði gert heimilt að njóta tollfríðinda vegna ökutækisins til 23. ágúst 2019.

II. Málsmeðferð

Þann 21. ágúst 2018 fluttu kærendur til landsins bifreið af gerðinni Z, árgerð 2017, sem bar erlenda skráningarnúmerið X. Bifreiðin kom til landsins með sendingunni E og þann 23. ágúst 2018 sendi umboðsmaður kærenda Tollstjóra yfirlýsingu um tímabundinn tollfrjálsan innflutning á farartæki vegna ökutækisins. Á yfirlýsingunni kom fram að kærendur hygðust njóta tollfríðinda í eitt ár, eða til 23. ágúst 2019. Tollstjóri, með tölvupósti, gerði samdægurs athugasemdir við lengd hins tímabundna tollfrjálsa innflutnings í ljósi þess að kærendur hefðu áður notið tollfríðinda af búslóð sinni og öðru ökutæki auk þess sem lögheimili kærenda var skráð hér á landi. Yfirlýsingin var í kjölfarið leiðrétt af umboðsmanni kærenda og þar kveðið á um að hinn tímabundni tollfrjálsi innflutningur skyldi vera á tímabilinu 23. ágúst 2018 – 23. september 2018, með vísan til 2. mgr. 7. gr. reglugerðar um vörugjald af ökutækjum nr. 331/2000.

Við lok heimildar kærenda til að njóta tollfríðinda fyrir ökutækið kom kærandinn A til Tollstjóra og ítrekaði kröfu sína um að fá að nota ökutækið án greiðslu aðflutningsgjalda til 23. ágúst 2019. Tollstjóri benti á að í ljósi þess að kærendur væru komnir með lögheimili hér á landi og búin að njóta tollfríðinda sem aðilar er flytja hingað til lands fyrir bæði búslóð sína og annað ökutæki ættu kærendur ekki rétt á því að njóta tollfrelsis fyrir ökutækið í eitt ár. Kærendum var þó gefinn viðbótarheimild til 11. nóvember í því skyni að kærendur hefðu umhugsunarfrest til þess að ákveða hvort ökutækið yrði tollafgreitt eða sent aftur úr landi.

Í byrjun nóvember kom kærandinn A aftur til Tollstjóra og óskaði eftir að njóta tollfrelsis vegna ökutækisins til 23. september 2019. Var kæranda þá aftur tjáð að hann ætti ekki rétt á því að njóta tollfrelsis fyrir ökutækið í eitt ár og einnig tilkynnt að engin frekari viðbótarheimild yrði gefin vegna ökutækisins. Var kærandanum einnig leiðbeint um kærurétt sinn skv. 117. gr. tollalaga. Með tölvupósti, dags. 6. nóvember 2018, kærðu kærendur ákvörðun Tollstjóra, dags. 2. nóvember 2018, um synjun á tímabundnum tollfríðindum vegna ökutækis með erlenda skráningarnúmerið X. Með kærunni fylgdi yfirlýsing frá C þess efnis að kærandinn B væri skráð þar í nám til 2021.

Með tölvupósti, dags. 12. nóvember 2018, spurðist Tollstjóri fyrir um hvort kæran varðaði ökutæki með skráningarnúmerið Y eða sendingu með sendingarnúmerið E. Tollstjóra bárust þau svör samdægurs að kæran varðaði sendingu með sendingarnúmerið E og bifreiðin Y hefði verið flutt til landsins fyrir foreldra kærandans A og væri að öðru leyti kærendum óviðkomandi. Nokkur símasamskipti áttu sér stað í framhaldinu á milli kærenda og Tollstjóra þar sem áréttað var að ökutækið Y væri ekki í þeirra eigu og þeim óviðkomandi ásamt því að kærendur töldu ákvörðun Tollstjóra ekki eiga sér lagastoð. Með tölvupósti, dags. 4. desember 2018, sendu kærendur yfirlýsingu frá C þar sem fram kom að nám kærandans B við skólann væri að hluta til staðsett á Íslandi en að síðasti hluti námsins myndi fara fram erlendis. Þá tóku kærendur fram að ef deilan varðandi ökutækið tengdist því að kærendur hefðu notið tollfríðinda vegna búslóðar sinnar þá vildu kærendur frekar greiða aðflutningsgjöld af búslóðinni í stað þess að tollafgreiða ökutækið.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærendur kveða sig hafa flutt tímabundið til Íslands þann 13. ágúst 2018 vegna 11 mánaða námsdvalar annars kæranda en eðli málsins samkvæmt hafi þau þurft að flytja lögheimili sitt þar sem fyrirhuguð dvöl þeirra myndi vara lengur en sex mánuði og dóttir kærenda þurfi að stunda grunnskólanám á dvalartímabilinu. Því til stuðnings hafa kærendur lagt fram yfirlýsingar frá C um að kærandinn B væri skráð þar í nám og að síðasti hluti námsins muni fara fram erlendis. Af þessum sökum telja kærendur ljóst að fyrir liggi að dvöl þeirra hér á landi sé tímabundin og að þau uppfylli öll skilyrði 18. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi, nr. 630/2008, fyrir tímabundnum tollfrjálsum innflutningi ökutækis.

IV. Niðurstöður

Í máli þessu er deilt um heimild til tímabundins tollfrjáls innflutnings ökutækis. Kærendur telja sig uppfylla öll skilyrði fyrir tímabundnum tollfrjálsum innflutningi en hin kærða ákvörðun Tollstjóra byggist á því að kærendur séu fluttir til landsins og eigi því ekki rétt á tollfríðindum vegna ökutækisins.

Almennt ber að greiða aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins, skv. meginreglu 3. og 5. gr. tollalaga nr. 88/2005. Í tilviki ökutækja þeirra sem koma tímabundið hingað til lands er aftur á móti gerð undantekning frá þessari meginreglu sem heimilar tímabundinn tollfrjálsan innflutning ökutækja að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. a-lið 4. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga og III. kafla reglugerðar um ýmis tollfríðindi. Um er að ræða undanþágu frá meginreglu laganna og samkvæmt almennum og viðteknum lögskýringarsjónarmiðum þá ber að túlka hana þröngt og gerðar eru ríkar kröfur um að skilyrðum hennar sé fullnægt.

Um tímabundinn tollfrjálsan innflutning ökutækja er fjallað í a-lið 4. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga en þar segir að bifreiðar sem eru skráðar erlendis skulu vera tollfrjálsar ef innflytjandi hennar hefur eða hefur haft fasta búsetu erlendis, hyggst dvelja hér á landi tímabundið og nota bifreiðina í eigin þágu. Þá er einnig tekið fram að hver sá sem ætlar að dveljast hér á landi í ár eða styttri tíma telst dvelja hér á landi tímabundið. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. tollalaga skal með reglugerð kveða nánar á um skilyrði tollfrelsis samkvæmt greininni. Skilyrðin eru nánar tilgreind í III. kafla reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008 en kaflinn tekur til tollfríðinda þegar ökutæki, skráð erlendis, eru flutt inn til tímabundinnar notkunar og þegar óskráð ökutæki eru keypt hér á landi til notkunar um stundarsakir, sbr. 17. gr. reglugerðarinnar. Skilyrðin fyrir tímabundnum tollfrjálsum innflutningi ökutækja eru tilgreind í 18. gr. reglugerðarinnar en þau eru að innflytjandi sé með eða hafi verið með fasta búsetu erlendis, bifreiðin sé ætluð til persónulegra nota innflytjanda og fjölskyldumeðlima hans og annarra sem eru með honum í för og eru búsettir erlendis, bifreiðin sé flutt til landsins innan eins mánaðar frá komu viðkomandi til tímabundinnar dvalar og að bifreiðin verði flutt úr landi við lok dvalar viðkomandi í landinu, en þó eigi síðar en innan eins árs frá komu innflytjanda til landsins. Þá kemur fram í ákvæðinu að óheimilt sé að nota viðkomandi bifreið til fólks- eða vöruflutninga í atvinnuskyni. Loks er tekið fram að ferðamönnum sé jafnframt heimilt að flytja inn með sömu skilyrðum önnur ökutæki en bifreiðar, s.s. bifhjól, fellihýsi, hjólhýsi og tjaldvagna. Í 24. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi kemur fram að tollfríðindi samkvæmt III. kafla skuli falla niður ákveði innflytjandi að dvelja hér á landi lengur en í eitt ár eða að taka hér upp varanlega búsetu. Samkvæmt athugasemdum við 2. gr. laga nr. 146/2006, sem breyttu 4. tl. 1. mgr. 7. gr. tollalaga í núverandi horf, kemur fram að við skilgreiningu á hugtakinu búseta beri að líta til laga um lögheimili nr. 21/1990.

Samkvæmt 1. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990 er lögheimili manns sá staður, þar sem hann hefur fasta búsetu. Kærendur skráðu lögheimili sitt á Íslandi þann 11. ágúst 2018. Frá þeim tímamörkum ber að telja þau búsett á Íslandi en frá lögheimilisskráningu báru kærendur réttindi og skyldur sem aðilar búsettir á Íslandi. Að mati Tollstjóra geta kærendur ekki um leið notið tollfríðinda sem ferðamenn eða aðilar sem koma hingað til lands tímabundið. Þá er óhjákvæmilegt, þrátt fyrir mótbárur kærenda þess efnis, að líta til þess að kærendur nýttu sér heimildir til þess að njóta tollfríðinda fyrir búslóð sína með sendingu D. Með því lýstu kærendur því yfir að þau væru að flytjast búferlum til landsins, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Að mati Tollstjóra uppfylltu kærendur skilyrði fyrir tollfrelsi búslóðar enda voru þau m.a. sannanlega að flytja til landsins og höfðu skráð lögheimili sitt hér á landi. Af þeim sökum er ekki hægt að verða við ósk kærenda um að greiða af búslóðinni en njóta þess í stað tollfríðinda fyrir ökutækið.

Þar að auki verður að taka til skoðunar að kærendur lýstu því einnig yfir við Tollstjóra í tengslum við afgreiðslu sendingarinnar F, sem innihélt bifreið með fastanúmerið Y, að þau væru að flytja hingað til lands til búsetu. Á grundvelli 69. gr. reglugerðar um vörslu og tollmeðferð vöru nr. 1100/2006 reiknaði Tollstjóri út tollverð ökutækisins í samræmi við framlagðan vörureikning sem fylgdi með sendingunni þannig að tollverð ökutækisins varð lægra en á framlögðum reikningi. Miðað við þær upplýsingar sem kærendur lögðu fram við afgreiðslu ökutækisins Y var það mat Tollstjóra að kærendur uppfylltu skilyrði fyrir því að láta reikna út tollverð ökutækisins í samræmi við 69. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 enda var sendingin skráð á kærandann A og kærendur að flytjast búferlum til landsins.

Þar sem kærendur hafa flutt lögheimili sitt til landsins teljast þau búsett hér landi. Í ljósi þess og annars sem að ofan hefur verið rakið er það mat Tollstjóra að kærendur uppfylla ekki skilyrði 18. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi fyrir tímabundnum tollfrjálsum innflutningi ökutækis með með erlenda skráningarnúmerið X, sem flutt var inn til landsins með sendingu E.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra, dags. 2. nóvember 2018, um synjun á tímabundnum tollfríðindum vegna ökutækis með erlenda skráningarnúmerið X, er staðfest.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum