Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 19/2010

Tollflokkun, samtollun, rafgeymar í Segway hjól

20.9.2010

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 21. júlí 2010, hefur L ehf., kt. 550395-2589, kært þá ákvörðun Tollstjóra að rafgeymar ætlaðir til nota í Segway hjól, sem bárust til landsins með sendingu með sendingarnúmer F782 26 05 0 US JFK W527, skuli færðir til tollflokks með tollskrárnúmer 8507.8099. Kæran er lögð fram samkvæmt kæruheimild 117. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Kærandi krefst viðurkenningar á því að heimilt sé að samtolla rafgeyma sem bárust með sendingu með sendingarnúmer F782 26 05 0 US JFK W527 og hjól sem bárust með sendingu með sendingarnúmer F782 26 05 0 US JFK W520, en af því leiði að fella verði rafgeymana undir tollskrárnúmer 8711.9021 með hjólunum.

II. Málsmeðferð

Þann 27. maí 2010 flutti kærandi inn vöruna Segway hjól með tilheyrandi aukahlutum frá fyrirtækinu Segway Inc. í Bandaríkjunum. Vegna öryggisreglna flugskilmála þurfti kærandi að fjarlægja rafgeyma úr hjólunum og skipta þannig vörunni niður á tvö farmbréf í farmskrá flugfarsins. Af því leiddi að um var að ræða tvær sendingar sem báru sitt hvort sendingarnúmerið. Rafgeymarnir voru aðskildir öðrum vörum í flugfari og settir sér á farmbréf með sendingarnúmer F782 26 05 0 US JFK W527. Hjólin ásamt öðrum fylgihlutum voru þannig flutt inn á öðru farmbréfi á sömu farmskrá í sama flugi en sú sending fékk sendingarnúmerið F782 26 05 0 US JFK W520. Af þeim sökum voru hjólin og rafgeymar þeirra tollafgreidd í sitt hvoru lagi. Hjólin voru færð til tollflokks með tollskrárnúmer 8711.9021 en fylgihlutir og bæklingar voru flokkuð í viðeigandi tollskrárnúmer. Rafgeymarnir voru síðan afgreiddir sérstaklega og færðir til tollflokks 8507.8099. Kærandi lagði fram kæru, dags. 22. júní 2010, sem barst embættinu þann 28. júní sl. þar sem krafist var viðurkenningar á heimild hans til að samtolla sendingarnar eins og um eina vöru væri að ræða þannig að fella mætti rafgeymana undir tollskrárnúmer 8711.9021 með hjólunum. Tollstjóri ritaði kæranda bréf, dagsett 20. júlí sl., þar sem óskað var nánari upplýsinga varðandi einstaka liði á vörureikningi og fleira. Svör bárust embættinu 21. júlí 2010 og taldist gagnaöflun þá lokið að undangenginni könnun Tollstjóra á fyrri innflutningi á vegum kæranda sem vísað var til í kærumálsgögnum.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi vísar til þess að félag hans flytji reglulega inn samskonar vöru en í flestum tilvikum hafi hjólin með rafgeymunum verið flutt inn til landsins með skipi og þá á einu og sama sendingarnúmerinu. Sendingarnar hafi því hingað til verið flokkaðar undir eitt tollskrárnúmer við tollafgreiðslu, þ.e. tnr. 8711.9021. Vegna skilmála í flugi hafi kærandi í þetta sinn þurft að skipta upp sendingunni og setja rafgeymana á sér sendingarnúmer. Vegna þessa hafi hjólin og rafgeymarnir sem knúa þau verið tollafgreidd í tveimur hlutum og færð undir tvö ólík tollskrárnúmer. Kærandi telur að málið hafi verið rangt afgreitt hvað varðar ofangreint og færslu til tollflokka þar sem skilyrði til samtollunar hafi verið fyrir hendi. Af því leiði að rafgeymarnir og hjólin falli undir eitt og sama tollskrárnúmerið, 8711.9021, með sama hætti og fyrri sendingar hafa verið afgreiddar. Það eina sem sé frábrugðið hér er að um hafi verið að ræða annan flutningsmáta, flug, þar sem öryggisskilmálar leiddu til þess að varan var tekin í sundur og skráð á tvö sendingarnúmer.

IV. Niðurstöður

Vörur þær sem kæra lýtur að eru rafgeymar fyrir rafknúin Segway vélhjól ásamt umræddum hjólum og fylgihlutum. Ágreiningur í málinu snýst um tollflokkun og hvort skilyrði standi til þess að samtolla rafgeyma og hjól þrátt fyrir að þau hafi verið skráð á sitt hvort farmbréfið og þar með sitt hvort sendingarnúmerið á farmskrá flugfars.

Könnun Tollstjóra leiddi í ljós að kærandi hefur áður flutt inn samskonar vöru með skipi eins og fram kemur í kæru. Í þeim tilvikum voru rafgeymar og hjól ekki aðskilin á sitt hvort farmbréfið á farmskrá skipsfars heldur var um eitt og sama sendingarnúmer og farmbréf að ræða. Samskonar hjól ásamt rafgeymum hafa þannig verið færð saman til tollflokks með tollskrárnúmer 8711.9021.

Málsatvik hér eru þó ekki sambærileg við fyrri innflutning kæranda samkvæmt þeim tollskjölum sem liggja fyrir í málinu. Um er að ræða tvær sendingar með sitt hvort sendingarnúmerið á sitt hvoru farmbréfinu í farmskrá flugfars en eins og fram hefur komið var slíkt gert vegna flutningsskilmála. Rafgeymar voru teknir úr hjólum og settir á sér farmbréf og þar með sér sendingarnúmer og aðskildir annarri frakt vegna öryggis. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 4. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru, skulu vörur sem skráðar eru á sama sendingarnúmeri teknar til tollafgreiðslu í einu lagi nema annað sé heimilt skv. 8. og 9. gr. reglugerðarinnar. Grundvallarskilyrði þess að heimilt sé að skipta upp sendingum samkvæmt ofangreindu er að þær vörur eða vörusafn sem um ræðir hverju sinni hafi komið til landsins á einu og sama farmbréfinu í öndverðu, sbr. 8. gr. reglugerðarinnar eða á einu farmbréfi og fleiri undirfarmbréfum, sbr. 9. gr.

Ofangreindum skilyrðum er ekki fullnægt enda ekki um eiginlega uppskiptingu að ræða í þessum skilningi. Hvað samtollun varðar þá verða sundurteknar vörur að koma á sama farmbréfi og sendingarnúmeri í farmskrá fars til að færa megi þær sem eina heild til sama tollflokks. Óheimilt er að sameina sendingar sem ekki tilheyra sama sendingarnúmeri og farmbréfi. Þar sem um tvær aðskildar sendingar er að ræða í skilningi tollalaga er ekki heimilt að færa rafgeyma og hjól í einu lagi til sama tollflokks. Niðurstaðan verður því sú að líta skal á vörurnar líkt og um tvær sjálfstæðar einingar væri að ræða sem hafa ekki tengsl eða samsömun hvor við aðra.

Samkvæmt 20. gr. tollalaga nr. 88/2005 skulu innflytjendur færa vöru til tollflokks í viðeigandi tollskjölum samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrár sem birtar eru í viðauka I við tollalögin. Reglurnar eru birtar fremst í tollskránni en einnig er að finna athugasemdir í flokkum og köflum skrárinnar sem ráða túlkun hverju sinni. Tollflokkun skal byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi flokka og kafla kafla skv. túlkunarreglu 1. Þá segir í 1. málsl. reglunnar að fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum séu einungis til leiðbeiningar. Flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða skal jafnframt byggð á orðalagi undirliðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemd við þá og vöruliði í viðeigandi flokkum og köflum tollskrárinnar skv. túlkunarreglu 6.

Í lagalegu tilliti skal tollflokkun þannig fyrst og fremst byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla. Um er að ræða rafgeyma án vökva til notkunar í rafknúin vélhjól af gerðinni Segway eins og fram hefur komið. Rafgeymar eru nefndir sérstaklega undir vörulið 8507 og verða þeir því felldir þar undir. Undirliður 8099 tekur til rafgeyma án vökva og verða rafgeymar þeir sem hér um ræðir því færðir til tollflokks með tollskrárnúmer 8507.8099, sbr. túlkunarreglu 1 og 6.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar, skv. 21. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem rakið er hér að framan að rafgeymar sem fluttir voru inn með sendingu nr. F782 26 05 0 US JFK W527 skuli færa til tollflokks með tollskrárnúmer 8507.8099.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum