Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 19/2012

Álagning aðflutningsgjalda af póstsendingu

19.11.2012

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 16. október 2012, A, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra frá 14. september 2012 um álagningu aðflutningsgjalda á póstsendingu nr. P 150 04 09 2 IS B22 1875.

Kærandi krefst þess að álögð gjöld verði felld niður.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 4. september sl. barst hingað til lands póstsending nr. P 150 04 09 2 IS B22 1875 sem innihélt ýmsar vörur, s.s. blómafræ, jurtir, olíur, ilmefni, pappírsvörur, bækur og dvd-diska. Tilskilin gjöld vöru lögð á umræddar vörur við komu hingað til lands. Ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda var kærð með bréfi kæranda, dags. 16. október 2012.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur sig ekki eiga að greiða álögð aðflutningsgjöld og virðisaukaskatt af vörum póstsendingar nr. P 150 04 09 2 IS B22 1875. Í kæru kemur fram að umræddar vörur séu tengdar fjarnámi kæranda við American College of Healthcare Sciences og séu þær innifaldar í skólagjöldum. Þá bendir kærandi á að fyrir utan þær vörur sem hér um ræði séu aðrar vörur sem ekki fylgi náminu, þ.e. skólabækur og annað sem greiða þurfi sérstaklega fyrir líkt og gert sé í Háskóla Íslands. Að lokum bendir kærandi á að ekki sé verið að kaupa skólaefni sérstaklega í umræddu tilviki og því megi líta svo á að verið sé að mismuna fólki eftir því hvort það stundi nám sitt með hefðbundnum hætti eða í fjarnámi.

IV. Niðurstöður

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 er mælt fyrir um almenna tollskyldu á öllum varningi sem berst til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota nema annað sé tekið fram í tollskrá eða slík skylda sé sérstaklega undanþegin með lögum. Samkvæmt 5. gr. tollalaga skal greiða toll eins og mælt er fyrir í tollskrá af vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins. Innheimta ber virðisaukaskatt af öllum innflutningi með aðflutningsgjöldum. Ákvæði tollalaga, auk reglugerða settum skv. þeim lögum, gilda um álagningu virðisaukaskatts við innflutning að því leyti sem eigi er kveðið á um það í lögum um virðisaukaskatt, sbr. 37. gr. virðisaukaskattslaga nr. 50/1988 en virðisaukaskattur er lagður á við innflutning í samræmi við ákvæði 1. og 34. gr. virðisaukaskattslaga. Álagning virðisaukaskatts byggir á tollverði sem ákvarðast af viðskiptaverði vöru eða þjónustu samkvæmt framlögðum reikningum sem fylgja vöru við innflutning hverju sinni að viðbættum aðflutningsgjöldum og öðrum kostnaðarliðum, sbr. 14. og 15. gr. tollalaga. Ágreiningur er um það hvort vörur fyrrgreindrar sendingar skuli vera undanþegnar aðflutningsgjöldum og virðisaukaskatti á þeirri forsendu að um sé að ræða skólaefni sem sé innifalið í skólagjöldum.

Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu eru háðar þröngri túlkun og ríkar kröfur gerðar til þess að skilyrðum þeirra sé ótvírætt fullnægt. Byggir það sjónarmið á mikilvægi þess að við framkvæmd laga sé gætt að því að jafnræði sé með borgurunum, sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Liður í því er að láta reglur gilda með sama hætti um alla, nema ótvírætt megi telja að undanþáguákvæði eigi við. Með vísan til þess og rótgróinnar stjórnsýsluframkvæmdar er það mat embættis Tollstjóra að skilyrði fyrir undanþágu verði því tvímælalaust að vera uppfyllt. Í 6. og 7. gr. tollalaga er að finna undanþágur frá almennri tollskyldu. Þá er í 36. gr. virðisaukaskattslaga taldar upp þær vörur sem undanþegnar skulu virðisaukaskatti við innflutning. Þegar þessi ákvæði eru skoðuð er ljóst að hvorki í tollalögum eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra laga né í lögum um virðisaukaskatt er að finna ákvæði sem mæla fyrir því að þær vörur sem hér um ræðir skuli undanþegnar aðflutningsgjöldum og/eða virðisaukaskatti.

Með vísan til alls ofangreinds teljast skilyrði til undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda samkvæmt 6. og 7. gr. tollalaga nr. 88/2005 og greiðslu virðisaukaskatts samkvæmt 36. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 ekki uppfyllt. Ákvörðun Tollstjóra um álagningu gjalda, dags. 14. september 2012, skal því standa óbreytt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar, skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda og greiðslu virðisaukaskatts vegna póstsendingar nr. P 150 04 09 2 IS B22 1875, dags. 14. september 2012, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum