Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 19/2017

Tollflokkun á þremur tunnulaga flutningsgámum

4.10.2017

Reifun

A kærði ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á þremur tunnulaga flutningsgámum í tollskrárnúmer 8707.9000, sem yfirbygging fyrir ökutæki. A krafðist þess að flutningsgámarnir yrðu flokkaðir í tollskrárnúmer 8609.0000 þar sem um væri að ræða flutningsgáma sem eru festir á sleða en ekki festir á ökutæki.

Niðurstaða: Ákvörðun Tollstjóra dags. 18. september 2017 um tollflokkun þriggja tunnulaga flutningsgáma í tollskrárnúmer 8707.9000 var felld úr gildi. Fallist var á kröfu kæranda um að flokka skuli flutningsgámana í tollskrárnúmer 8609.0000.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 26. september 2017, hefur B f.h. A., kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 18. september 2017, um tollflokkun á þremur samskonar sérbyggðum flutningsgámum fyrir korn.

Kærandi mótmælir því að flutningagámarnir skuli flokkast sem yfirbygging fyrir ökutæki í tollskrárnúmer 8707.9000. Um sé að ræða flutningsgáma sem eru festir á sleða en ekki festir við ökutæki og geta aldrei orðið hluti ökutækis og skuli flutningsgámarnir því flokkast í tollskrárnúmer 8609.0000.

II. Málsmeðferð

Í ágúst 2017 flutti kærandi inn til landsins þrjá flutningsgáma frá Hollandi á sendingarnúmerinu X.

Samkvæmt aðflutningsskýrslu kæranda innihélt sendingin þrjá flutningsgáma sem tollflokkaðir voru í tollskrárnúmer 8707.9000. Sendingin var tollafgreidd í samræmi við aðflutningsskýrslu kæranda og tilskilin gjöld lögð á hana.

Þann 6. september 2017 móttók Tollstjóri leiðréttingarskýrslu kæranda fyrir áðurnefnda sendingu, sbr. 116. gr. tollalaga nr. 88/2005. Leiðrétting fólst í því að flutningsgámarnir yrðu færðir úr tollskrárnúmeri 8707.9000 í tollskrárnúmer 8609.0000. Tollafgreiðslu leiðréttingarskýrslu kæranda var hafnað þann 18. september sl. með þeirri athugasemd að fyrri tollafgreiðsla skyldi standa, þ.e. að flutningsgámarnir skyldu tollflokkast í tollskrárnúmer 8707.9000.

Sú ákvörðun Tollstjóra að hafna leiðréttingu aðflutningsskýrslunnar var kærð með tölvupósti til Tollstjóra dags. 26. september 2017. Með kæru fylgdu gögn, s.s. yfirlýsing frá framleiðanda, pro forma reikningur fyrir vörunni og ljósmyndir.

III. Meginröksemdir kæranda

Meginröksemdir kæranda eru að flutningsgámarnir hafi upphaflega verið ranglega tollflokkaðir. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi telji umrædda gáma skuli tollflokka í tollskrárnúmer 8609.0000 þar sem tunnurnar eru festar á sleða og verða því ekki festar við ökutæki og geta aldrei orðið hluti ökutækis. Þessir tunnulöguðu flutningsgámar eigi af þeim sökum ekki að tollflokka í vörulið 8707, þar sem sá vöruliður eigi við um yfirbyggingu fyrir ökutæki sem ekki sé tilfellið með þessa flutningsgáma.

Af framangreindum ástæðum telur kærandi fráleitt að innheimta vörugjöld eins og um ökutæki sé að ræða.

Að auki kemur fram í kærunni að fyrir mistök framleiðanda hafi rangur tollflokkur verið tilgreindur á farmskírteini og hafi framleiðandi viðurkennt þau mistök í yfirlýsingu sem fylgir sem fylgigagn með kæru kæranda.

Af þessum sökum óskar kærandi að Tollstjóri endurskoði ákvörðun sína um að hafna tollflokkun þessara þriggja tunnulagaða flutningsgáma undir tollskrárnúmer 8609.0000.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýst um tollflokkun tunnulagaðra flutningsgáma.

Kærandi fer fram á að flutningsgámarnir verði tollflokkaðir í vörulið 8609, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 8609.0000. Kærð ákvörðun Tollstjóra lítur hins vegar að því að gámarnir skuli tollflokkaðir í tollskrárnúmer 8707.9000.

Kærandi tiltekur í kæru sinni að tunnulaga flutningsgámarnir eins og hér eru til umfjöllunar séu festir á sleða og verði því ekki festir við ökutæki og geta aldrei orðið hluti þess eins og þær tunnur sem til þess eru ætlaðar. Af þeim ástæðum eigi ekki að innheimta af þeim vörugjald eins og um ökutæki sé að ræða.

Samkvæmt þeim gögnum sem lögð hafa verið fram á kærustigi og þeim upplýsingum sem kærandi hefur gefið er ljóst að um er að ræða flutningsgáma. Þessir þrír tunnulöguðu flutningsgámar sem framleiddir eru af Welgro B.V í Hollandi til flutnings á korni og vörum framleiddum úr korni eru að mati Tollstjóra ekki festir við ökutæki.

Með vísan í ofangreint er niðurstaða embættis Tollstjóra sú að fallast beri á kröfu kæranda um að tollflokkun umræddra flutningsgáma verði endurskoðuð. Skulu gámarnir flokkaðir í tollskrárnúmer 8609.0000, sem „gámar (þar með taldir gámar til flutnings á vökvum) sérstaklega hannaðir og búnir til flutnings með einni eða fleiri gerðum farartækja“.

Með vísan til alls ofangreinds er niðurstaða embættis Tollstjóra því sú að ákvörðun embættisins, dags. 18. september 2017, skuli felld úr gildi og flokka beri umrædda flutningsgáma í vörulið 8609, nánar til tekið í tollskrárnúmer 8609.0000.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra dags. 18. september um tollflokkun þriggja tunnulaga flutningsgáma í tollskrárnúmer 8707.9000, skuli felld úr gildi. Fallist er á kröfu kæranda um að flokka skuli flutningsgámana í tollskrárnúmer 8609.0000.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum