Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 2/2003

Áætlunar aðflutningsgjalda vegna ótollafgreiddra vara

16.1.2003

Með bréfi fyrirtækisins, dags. 9. desember sl. er kærð til embættisins ákvörðun um áætlun aðflutningsgjalda vegna ótollafgreiddra vara í sendingarnúmeri Y, dags. 19. nóvember sl.

Málavextir.

Með bréfi embættisins, dags. 17. október sl. var fyrirtækinu tilkynnt um að vara í umræddri sendingu vanti í vörugeymslu og að ekkert lægi fyrir um að afhending hennar hafi verið heimiluð af hálfu tollstjóra. Fyrirtækinu var gefinn kostur á að leggja fram gögn um innflutninginn sem unnt væri að byggja á álagningu aðflutningsgjalda. Að öðrum kosti þyrfti að áætla aðflutningsgjöldin á grundvelli 105. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Fyrirtækið vísaði með bréfi, dags. 21. október sl. til fyrirspurnar til tollstjóra frá 5. september sl. Þar kemur fram að misskilningur hafi valdið því að send var SMT tollskýrsla til tollstjóra þar sem vara er tilgreind vera ensím að verðmæti JPY 8.100. Í ljós hafi komið að sendingin innihélt samkvæmt farmbréfi “personal effects” sem mun hafa verið búslóð starfsmanns sem fyrirtækið aðstoðaði við búferlaflutninga til landsins. Starfsmaðurinn var skráður viðtakandi á farmbréfi ásamt fyrirtækinu.

Athugun embættisins leiddi í ljós að varan var afhent þ. 16. nóvember 1999 án þess að fyrir lægju gögn um tollafgreiðslu hennar. Í framhaldi af því var fyrirtækinu tilkynnt um að varan hafi verið afhent án heimildar tollstjóra og því kæmi til áætlunar aðflutningsgjalda vegna hennar á grundvelli vörulýsingar í farmskrá og meðaltalsverði Hagstofu Íslands á komudegi flutningsfars, sbr. 97. og 105. gr. tollalaga. Var bæði farmflytjanda, F. ehf. og fyrirtækinu síðan tilkynnt um áætlun aðflutningsgjalda vegna sendingarinnar með bréfi þ. 19. nóvember sl.

Málsástæður kæranda.

Af hálfu fyrirtækisins er vísað til þess að skv. farmbréfi sendingarinnar er vara tilgreind vera þrjár einingar af persónulegum munum eða búslóð, sem sé undanþegin aðflutningsgjöldum enda hafi innflutningurinn uppfyllt skilyrði tollalaga þar um. Er því jafnframt lýst að farmbréfið sé stimplað af hálfu farmflytjanda þ. 16. nóvember 1999 um að afhending sé heimil. Þar sem skjöl sem varði innflutninginn séu glötuð eru þau send að nýju og þess óskað að aðflutningsgjöld verði felld niður í samræmi samkvæmt þeim og gildandi réttarheimildum.

Úrskurður.

Það liggur fyrir að vara í umræddri sendingu var afhent án þess að leyfi tollstjóra hafi legið fyrir og þegar af þeirri ástæðu ber tollstjóra að áætla aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar eins og mælt er fyrir um í 105. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum. Áritun farmflytjanda á farmbréf um heimild til afhendingar hefur enga þýðingu í málinu en farmflytjandi ber jafnframt ábyrgð á ólögmætri afhendingu vara skv. 66. og 67. gr. tollalaganna. Ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 797/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum kemur ekki til álita eftir að vara hefur verið afhent eins og hér um ræðir, enda verður ekki gengið úr skugga um hvort að varan uppfylli skilyrði reglugerðarinnar.

Með hliðsjón af öllu framansögðu stendur ákvörðun tollstjóra um áætlun aðflutningsgjalda vegna sendingarinnar óbreytt.

Úrskurðarorð.

Hin kærða ákvörðun tollstjórans í Reykjavík um áætlun aðflutningsgjalda vegna sendingar nr. Y skal standa óbreytt.

Reykjavík, 16. janúar 2003.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum