Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 2/2010

Höfnun á tímabundum innflutningi á bifreið

23.3.2010

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 19. febrúar 2010, hefur R hrl. fyrir hönd A, kt. X, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 þá ákvörðun Tollstjóra frá 3. desember 2009 að hafna tímabundnu akstursleyfi fyrir bifreið með skráningarnúmerið D sem flutt var til landsins með sendingu nr. E GOD 17 11 9 DK AAR W103.

Kærandi krefst þess að hann fái leyfi til tímabundins innflutnings og akstursleyfi á bifreiðina.

II. Málsmeðferð

Þann 17. nóvember 2009 sótti kærandi um tímabundinn innflutning á umræddri bifreið. Við tollafgreiðslu var kæranda synjað um heimild til tímabundins innflutnings þar sem hann gat ekki framvísað gögnum sem staðfestu að hann hefði verið með fasta búsetu erlendis. Kærandi framvísaði þá nafnskírteini sem hann taldi vera fullnægjandi. Embættið kannaði skráningu kæranda í þjóðskrá en þar kom ekki fram að kærandi hefði flutt búferlum erlendis. Kæranda var í kjölfarið gefinn kostur á að leggja fram gögn sem staðfestu búsetu hans erlendis eða leggja fram staðfestingu frá Ríkisskattstjóra þess efnis að kærandi hefði ekki fulla skattskyldu á Íslandi, með tölvupósti dags. 2. desember og bréfi embættisins dagsett degi síðar. Kærandi lagði þá fram staðfestingu frá ræðismanni F á Íslandi að hann væri með búsetu- og atvinnuleyfi á F sbr. framlagt skjal dags. 18. desember 2009.

Með bréfi embættisins dags. 22. desember 2009 var kæranda tilkynnt um að umsókn hans um tímabundið akstursleyfi fyrir bifreið á erlendum númerum væri hafnað, eftir að Tollstjóri hafði leitað upplýsinga hjá Ríkisskattstjóra. Kæranda var bent á kærurétt til Tollstjóra.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi mótmælir höfnun um tímabundinn innflutning bifreiðarinnar og telur sig hafa uppfyllt öll skilyrði til tímabundins innflutnings og akstursleyfi fyrir umrædda bifreið, sbr. staðfestingu frá ræðismanni F á Íslandi um búsetu- og atvinnuleyfi í F. Í kæru máls tekur kærandi fram að hann starfi erlendis og hafi gert um langt skeið. Tímabundið hafi hann verið staðsettur hérlendis vegna ráðgjafar og uppsetningar á E sem starfrækt er að B undir nafninu P. Kærandi staðhæfir að hann hafi ekki haft neinar tekjur hérlendis á árinu 2009.

IV. Niðurstöður

Við innflutning vara þá er meginreglan sú samkvæmt 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 að hver sá sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga. Þeir sem hyggjast dvelja hér á landi í ár eða styttri tíma vegna atvinnu eða ferðalaga er heimilt að flytja inn bifreið, skráða erlendis, án greiðslu aðflutningsgjalda að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, sbr. a-lið 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005 og í 18. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Samkvæmt ofangreindum ákvæðum er það skilyrði fyrir tímabundnum innflutningi ökutækis, án greiðslu aðflutningsgjalda, að innflytjandi sé með eða hafi verið með fasta búsetu erlendis.

Kærandi lagði fram staðfestingu á búsetu- og atvinnuleyfi á F sem og nafnskírteini. Embætti Tollstjóra telur að framlögð gögn séu ekki fullnægjandi sönnun á búsetu erlendis enda kemur fram í þjóðskrá að kærandi hafi ætíð verið með skráð lögheimili á Íslandi. Engar færslur er að finna í þjóðskrá sem sýna fram á að kærandi hafi flutt frá Íslandi. Kæranda var bent á af embættinu að leggja fram staðfestingu frá embætti Ríkisskattstjóra þess efnis að hann hefði ekki fulla skattskyldu á Íslandi en kærandi lagði ekki fram slík gögn. Embætti Tollstjóra telur, með vísan til ofangreinds, að skilyrði a-liðar 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga, sbr. 18. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi, um undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda vegna tímabundins innflutnings bifreiðar hafi ekki verið fullnægt.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra þann 22. desember 2009 um höfnun á tímabundnu akstursleyfi er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum