Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 2/2011.

Krafa um niðurfellingu virðisaukaskatts af innflutningi listaverks

28.3.2011

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 6. febrúar 2011, hefur K kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra frá 12.10.2010 um álagningu virðisaukaskatts á listaverk sem flutt var inn til landsins frá Danmörku með sendingu númer E GOD 22 09 9 DK AAR V283 þann 22. september 2009. Kærandi krefst þess að álagður virðisaukaskattur af hinu innflutta listaverki verði felldur niður.

II. Málsmeðferð

Þann 22. september 2009 flutti kærandi inn listaverkið T“ eftir B. Á aðflutningsskýrslu, dags. 22. september 2009, var farið fram á að sendingin yrði tollafgreidd sem tímabundinn innflutningur, þar sem listaverkið yrði hér á sýningu og endursent að henni lokinni. Aðflutningsskýrslu fylgdi proforma reikningur, dags. 10. september 2009 þar sem fram kemur að verkið séu alls sjö myndir, fjórar dag og þrjár nætur og að hver mynd kosti EUR 1.200.- Heildarverð fyrir verkið sé því EUR 8.400.- Þann 12. október 2010 var gerð athugasemd til innflytjanda þess efnis að um innflutning þriðja aðila væri að ræða og þar með ekki sala á eigin listaverki. Því bæri að greiða virðisaukaskatt að fjárhæð kr. 393.144.- Með bréfi dags. 6. febrúar 2011 mótmælti kærandi álagningu virðisaukaskatts og vísaði í meðsendan reikning frá listamanninum til kæranda þar sem fram kæmi að enginn þriðji aðili hafi komið að sölunni. Reikningur sem vísað er í ber númerið 00020 og er dags. þann 30. júní 2009. Á honum er móttökustimpill H dags. 14. júlí 2009. Á reikningnum koma fram sömu upplýsingar og á fyrrgreindum proforma reikningi auk þess sem fram kemur kostnaður að upphæð EUR 380.- fyrir 7 umbúðapakkningar til sendingar. Heildarupphæð þessa reiknings er því EUR 8.780.- Þann 18. febrúar 2011 gerði Tollstjóri athugasemd þar sem niðurfellingu virðisaukaskatts var hafnað.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að innheimta virðisaukaskatts af listaverkinu beri að fella niður, þar sem ekki sé um að ræða innflutning þriðja aðila og þar af leiðandi um að ræða sölu á eigin listaverki. Þar fyrir utan sé starfsemi safna, þ.m.t. listasafna, undanþegin virðisaukaskatti skv. virðisaukaskattslögum nr. 50/1988. Auk þess séu listamenn undanþegnir skattskyldu að því er varðar sölu á þeirra eigin listaverkum, enda falli listaverkin undir tollskrárnúmer 9701.1000- 9703.0000.

IV. Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, skal greiða virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum, svo og af innflutningi vöru. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan sú að greiða skal virðisaukaskatt af öllum vörum. Undanþágur frá meginreglum skattalaga um gjaldskyldu á almennt að skýra þröngt. Því er það mat Tollstjóra, með vísan til fordæma fjármálaráðuneytisins, að skilyrði undanþágu verði tvímælalaust að vera uppfyllt.

Einnig samkvæmt 34. gr. laga um virðisaukaskatt skal virðisaukaskattur innheimtur af tollverði skattskyldrar vöru við innflutning á vöru að viðbættum tolli og öðrum gjöldum sem á eru lögð við tollmeðferð. Almenn tollskylda er skilgreind í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005.

Í 4. tl. 1. mgr. 36. gr. laga um virðisaukaskatt segir, eins og að ofan greinir, að listaverk sem falla undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000 og listamaðurinn sjálfur flytur inn skulu undanþegin virðisaukaskatti við innflutning. Þessi undanþága gildir því einungis fyrir innlenda listamenn sem eru að flytja eigin verk til landsins og einnig eru listamenn undanþegnir virðisaukaskatti við sölu á eigin verkum hérlendis samkvæmt 2. tl. 4. gr. laga um virðisaukaskatt. Kærandi skráður innflytjandi listaverksins, sem keypt var af listamanninum Kristleifi Björnssyni í júní 2009, sbr. vörureikning dags. 30. júní 2009, sem lagður var fram með kæru. Innflutningur átti sér hins vegar stað þann 22. september 2009. Jafnframt er um að ræða verk sem samanstendur af sjö ljósmyndum, sbr. lýsingu listamannsins á verkinu á heimasíðu hans, http://www.kristleifur.com. Ljósmyndir sem listaverk ber að tollflokka undir tollskrárnúmer 4911.9109, en þar undir falla myndir, snið og ljósmyndir; annað. Ofangreindur innflutningur fellur því ekki undir tilgreint lagaákvæði og innheimta virðisaukaskatt við innflutning listaverksins því heimil.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem rakið er hér að framan að kröfu um niðurfellingu virðisaukaskatts af ofangreindu listaverki sem flutt var til landsins þann 22. september 2009 er hafnað.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum