Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 2/2013

Höfnun á beiðni um endurgreiðslu vörugjalds vegna bensínkaupa

6.3.2013

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 26. janúar 2012, hefur G, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra dags. 2. desember 2011, um höfnun beiðni um endurgreiðslu vörugjalds vegna bensínkaupa.

Kærandi fer fram á endurgreiðslu vörugjalds í samræmi við lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nr. 29/1995.

II. Málsmeðferð

Með bréfi, sem barst Tollstjóra þann 30. júní 2011, lagði kærandi fram kröfu um endurgreiðslu vörugjalds sem greitt var fyrir kaup á bensíni frá Skeljungi. Krafan snýr að endurgreiðslu vörugjalds vegna bensínkaupa að fjárhæð kr. 7.438. Skeljungur hefur staðsett bensíntank fyrir F, sem kærandi er í forsvari fyrir, á flugvelli við Úlfarsfell og afgreiðir félagið 95 oktana bifreiðabensín á tankinn sem flugmenn sjá svo sjálfir um að afgreiða á flugvélar sínar. Flestar flugvélar á svæðinu geta nýtt hvort sem er venjulegt 95 oktana bensín og flugvélabensín (avgas). Meðal gagna í málinu eru ljósmyndir sem kærandi lagði fram og samningur sem undirritaður er af þeim flugmönnum sem aðgang hafa að umræddum bensíntanki. Beiðni kæranda um endurgreiðslu var hafnað með ákvörðun Tollstjóra dags. 2. desember 2011 og byggði á þeim rökum að þar sem notendur bensínsins afgreiði sig sjálfir væri ekki fyrir hendi fullnægjandi sönnun þess að bensínið hefði verið notað á flugvélar. Með kæru, dags. 26. janúar 2012, krafðist kærandi þess að fyrrgreind ákvörðun um höfnun yrði ógilt og vörugjald fengist endurgreitt í samræmi við lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nr. 29/1995.

Embætti Tollstjóra hefur nú ógilt úrskurð nr. 5/2012, dags. 22. febrúar 2012, á grundvelli 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með bréfi dags. 13. febrúar 2013. Umræddur úrskurður var haldin þeim annmörkum að í máli sem hér er til meðferðar var upphaflega úrskurðað á grundvelli upplýsinga sem áttu ekki við um málið. Með þessum úrskurði er embættið að leiðrétta þau mistök sem gerð voru í málsmeðferð í máli kæranda.

III. Meginröksemdir kæranda

Beiðni um endurgreiðslu snýr að 94,96 lítrum af venjulegu eldsneyti og telur kærandi að oftekið vörugjald að inniföldum virðisaukaskatti sé kr. 78,32 á hvern lítra, eða alls að fjárhæð kr. 7.438.-

Kærandi byggir kröfu sína á 17. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., en þar segir að bensín sem verður notað eða hefur sannanlega verið notað á flugvélar skuli undanþegið vörugjaldi. Kærandi telur að sönnunarkrafa Tollstjóra sé langt umfram það sem eðlilegt þykir og tekur sem dæmi að íslenskir dómstólar telji ómótmæltan vitnisburð vera sönnun og að samhljóða vitnisburður fleiri einstaklinga sé enn sterkari sönnun. Þá tekur kærandi fram að kröfur þær sem hafnað var með ákvörðun Tollstjóra, sem nú er kærð, hafi byggt á slíkum vitnisburði manna.

IV. Niðurstöður

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., skal m.a. greiða vörugjald af eldsneyti, sbr. 27. kafla viðauka I við tollalög nr. 88/2005. Allar undanþágur frá meginreglum skattalaga eru almennt háðar þröngri túlkun í samræmi við viðteknar lögskýringarreglur þar um. Það er því mat Tollstjóra að skilyrði til undanþágu greiðslu vörugjalds skuli tvímælalaust vera uppfyllt.

Meginreglan er sú að greiða ber vörugjald af bensíni sbr. 14. og 15. gr. laga nr. 29/1993, en þar segir að greiða skuli vörugjald af hverjum lítra af bensíni og að auki skal greiða sérstakt vörugjald, bensíngjald, af bensíni. Í 17. gr. laganna er hins vegar bensín sem verður eða hefur sannanlega verið notað á flugvélar undanþegið vörugjaldi. Eins og áður hefur komið fram eru allar undanþágur á almennri gjaldskyldu vörugjalds túlkaðar þröngt og strangar kröfur eru gerðar til þess að skilyrðum fyrir undanþágu séu uppfyllt.

Í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 29/1993 kemur fram í athugasemdum við 16. gr., sem nú er 17. gr. laganna, að á þeim tíma sem lögin voru samin hafi hvorki verið lagður tollur né bensíngjald á bensín sem notað var á flugvélar. Frumvarpið innihélt því tillögu þess efnis að heimilt yrði að fella niður vörugjöld af bensíni sem notað væri á flugvélar. Flugvélabensín, sem kann að vera notað í öðrum tilgangi, t.d. til að knýja bíla, skuli hins vegar vera gjaldskylt. Í almennum athugasemdum með 2. mgr. 15. gr. laganna kemur fram að tekjum af bensíngjaldi skuli einungis varið til vegagerðar samkvæmt vegaáætlun. Rennir það enn frekar stoðum undir það markmið laga nr. 29/1993 að vörugjald skuli leggjast á ökutæki, tengdar vörur og eldsneyti.

Í reglugerð nr. 255/1993 um vörugjald af eldsneyti, sem sett er með heimild í 28. gr. laga nr. 29/1993, er að finna nánari útlistun á reglum sem gilda um vörugjald af eldsneyti. Reglugerðin kveður á um fjárhæð almenns vörugjalds af bensíni og greiðslu sérstaks vörugjalds, bensíngjald, af bensíni, sbr. 1. og 3. gr. reglugerðarinnar. Flugvélabensín er undanþegið greiðslu bensíngjalds, enda flokkast það í tollskrárnúmer 2710.1210, og sönnun er færð á að það hafi verið notað eða verði notað á flugvélar, sbr. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Það verður því að teljast ljóst að ríkar kröfur eru gerðar til sönnunar um að bensín, sem er að öðrum kosti gjaldsskylt með vísan í ofangreind ákvæði, uppfylli öll skilyrði svo það teljist undanþegið tilskildum gjöldum.

Embætti Tollstjóra telur að kærandi hafi ekki lagt fram fullnægjandi sönnun þess að umrætt bensín hafi sannanlega einungis verið notað á flugvélar. Eðli máls samkvæmt þarf minna eftirlit þegar um er að ræða flugvélabensín (avgas), þar sem slíkt bensín er ekki einnig nýtanlegt á bifreiðar og önnur farartæki. Því verður að gera ríkari kröfur um eftirlit þegar um er að ræða 95 oktana bensín sem mörg aksturstæki ganga einnig fyrir. Krafa kæranda um endurgreiðslu vörugjalds lítur að bensíni sem staðsett er í sjálfsafgreiðslutank á flugvelli þar sem ekkert formlegt eftirlit er haft með afgreiðslu þess eða notkun. Með vísan til þess að notendur bensínsins afgreiða sig sjálfir þá þykir ekki liggja fyrir fullnægjandi sönnun þess að bensínið hafi sannanlega verið notað á flugvélar.

Embætti Tollstjóra telur að þær umleitanir kæranda til að sanna að umrætt bensín sé eingöngu nýtt á flugvélar séu ekki til þess fallnar að sýnt sé fram á með óyggjandi hætti að umrætt bensín uppfylli skilyrði um endurgreiðslu vörugjalds skv. 17. gr. laga nr. 29/1993. Kærandi lagði bæði fram ljósmyndir þar sem sýnt er hvernig aðstæðum er háttað sem og samning undirritaðan af flugmönnum sem afgreiða bensínið um að það fari eingöngu á flugvélar. Líkt og áður hefur komið fram er afgreiðsla þessa eldsneytis með þeim hætti að ekkert formlegt eftirlit er haft með afgreiðslutanki og vegna staðsetningar hans er með engu móti hægt að tryggja það að bensín sem afgreiðist af fyrrgreindum tanki sé sannanlega eingöngu nýtt á flugvélar.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á kröfu kæranda um endurgreiðslu vörugjalds af 94,96 lítrum af bensíni, dags. 2. desember 2011, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum