Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 2/2014

Höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda af gjöf

27.3.2014

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 28. febrúar sl., hefur E, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 17. febrúar 2014, um höfnun á beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda á póstsendingu nr. P 150 03 02 4 IS R05 6942.

Kærandi fer fram á leiðréttingu álagðra gjalda.

II. Málsmeðferð

Þann 3. febrúar 2014 barst hingað til lands sending nr. P 150 03 02 4 IS R05 6942, sem innihélt snyrtivörur. Varan var sett á lager fyrir ótollafgreiddar vörur hjá Tollpóstinum. Móttakanda var send tilkynning um sendinguna en taldi sig ekki þurfa að greiða álögð gjöld og var sendingin því færð aftur á lager fyrir ótollafgreiddar vörur. Þann 17. febrúar tilkynnti Tollstjóri kæranda að beiðni um gjafafríðindi væri hafnað þar sem of langt var liðið frá jólum þegar sendingin barst hingað til lands.

Kæra vegna ofangreindrar ákvörðunar Tollstjóra barst embættinu þann 28. febrúar 2014.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi kveður að um sé að ræða síðbúna jólagjöf úr jólavinaleik á erlendri vefsíðu. Ástæða þess að jólagjöfin barst svona seint sé sú að manneskjan sem upphaflega ætlaði að senda henni gjöf gerði það ekki og því hafi önnur stúlka ákveðið að senda henni gjöf þann 25. janúar 2014.

Kærandi kveðst hafa verið krafinn um greiðslu gjalda af vörunum þegar sendingin kom til landsins, þó svo að skýrt hafi verið frá því að um jólagjöf væri að ræða og farið fram á endurmat hjá tollmiðlun. Kærandi telur sig uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir gjafafríðindum skv. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi, þar sem gjöfin sé undir hámarksfjárhæðinni 13.500 kr., búið sé að sýna fram á að um jólagjöf sé að ræða og skýrt hafi verið frá því hvers vegna gjöfin hafi borist svo seint.

Kærandi fer fram á niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna ofangreindrar sendingar.

IV. Niðurstöður

Meginregla tollalaga nr. 88/2005 er sú að almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt tollalögum, sbr. 3. gr. laganna. Undantekningu frá þessari meginreglu er m.a. að finna í 1. mgr. 6. gr. laganna. Allar undantekningar ber að túlka þröngt og verður því að gera ríkar kröfur um að skilyrðum fyrir undantekningu á almennri tollskyldu séu fyrir hendi.

Gjafir sem sendar eru til landsins eru tollfrjálsar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, það er að segja að um sé að ræða gjafir sem aðilar búsettir erlendis senda hingað til lands eða hafa með sér frá útlöndum af sérstöku tilefni, þó ekki í atvinnuskyni, enda sé verðmæti gjafarinnar ekki meira en 13.500 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 13.500 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti, sbr. 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga.

Í reglugerð nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi er ofangreint ákvæði tollalaga nánar útfært, sbr. reglugerðarheimild í 2. mgr. 6. gr. tollalaga. Í 32. gr. reglugerðarinnar kemur fram að með gjöfum af sérstöku tilefni skv. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sem undanþegnar eru aðflutningsgjöldum, sé átt við tækifærisgjafir sem aðilar búsettir erlendis senda til landsins eða hafa meðferðis frá útlöndum vegna tilefnis sem tengist einkalífinu, svo sem vegna jóla, afmælis eða fermingar, enda sé verðmæti þeirra að hámarki kr. 13.500 miðað við smásöluverð á innkaupsstað.

Ágreiningur stendur um hvort umrædd sending innihaldi jólagjöf og falli þar með undir gjafaákvæði a-liðar 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, eða beri almenna tollskyldu, sbr. 3. gr. laganna.

Kærandi heldur því fram að um sé að ræða jólagjöf en sendingin barst hingað til lands þann 3. febrúar 2014. Þegar lagt er mat á það hvort í raun sé um að ræða jólagjöf í sendingu sem þessari er meðal annars horft til þess hvort sérstakt tilefni til að senda gjöf sé fyrir hendi, sbr. a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Þegar lagt er mat á það hvort gjöf sé send af sérstöku tilefni er litið til þess hvort gjafasending berst í kringum það tilefni sem sendandi tiltekur. Ekki er kveðið á um það í tollalögum eða reglugerð nr. 630/2008, hvenær gjöf skuli berast til landsins til að geta talist jólagjöf. Telja verður að eðli máls samkvæmt séu gjafir almennt sendar nálægt dagsetningu tilefnis. Berist sending ekki í kringum tilefni er því litið svo á að hún sé ekki í nægum tengslum við það tilefni sem sendandi tiltekur og uppfylli þar af leiðandi ekki skilyrði áðurnefndra ákvæða tollalaga og reglugerðar um ýmis tollfríðindi um að vera gjöf af sérstöku tilefni. Þessi túlkun samræmist því markmiði laganna að gjafir þurfi að vera af sérstöku tilefni. Út frá sanngirnissjónarmiðum er í einstaka tilvikum gefinn rýmri tímarammi þegar sendingar koma lengra frá og sendingartíminn þ.a.l. lengri. Í því máli sem hér um ræðir var sendingartíminn stuttur og gefur ekki tilefni til rýmkunar frestsins. Sendingin var hins vegar ekki póstlögð fyrr en þann 25. janúar. Þegar litið er til þess hve langur tími líður frá tilefni og komudags sendingarinnar þá er ekki hægt að fallast á með kæranda að sendingin falli undir gjafafríðindi tollalaga. Rúmur mánuður var liðinn frá tilefni þegar sendingin barst. Er því ekki hægt að fallast á að innihald umræddrar sendingar geti talist vera jólagjöf í skilningi a-liðar 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Með vísan til ofangreinds teljast skilyrði til niðurfellingar aðflutningsgjalda af vöru í sendingu nr. P 150 03 02 4 IS R05 6942, ekki uppfyllt. Ákvörðun um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda vegna gjafar er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Bríetartúni 7, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum