Úrskurður nr. 2/2016
Tollflokkun Mercedes Benz Sprinter bifreiðar
Reifun
T kærði ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á bifreiðinni Mercedes Benz Sprinter 313 CDI. Tollstjóri tollflokkaði bifreiðina í tollskrárnúmer 8704.2128, sem pallbifreið með opnu vörurými. Kærandi mótmælir því og telur að bifreiðin skuli flokkast sem sendibifreið með lokuðu vörurými í tollskrárnúmer 8704.2199.
Niðurstaða: Bifreið sem hér um ræðir er vöruflutningabifreið sem samanstendur af lokuðu ökumannshúsi og palli þar sem strengdur hefur verið yfir dúkur sem skýlir varningi þeim sem fluttur er á pallinum. Kærandi telur að bifreiðina skuli flokka sem vöruflutningabifreið með vörurými. Tollstjóri fellst ekki á það með kæranda enda er um að ræða bifreið með vörupalli þar sem dúkur getur ekki talist varanleg yfirbygging. Bifreiðin skal þar af leiðandi flokkast í tollskrárnúmer 8704.2128.
Í dag var hjá embætti
Tollstjóra kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R
I. Kæra
Með tölvupósti dags. 11. febrúar 2016, hefur J, f.h. T, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 8. desember 2015 um tollflokkun á bifreiðinni Mercedes Benz Sprinter 313 CDI sem ber forskráningarnúmerið X.
Kærandi mótmælir því að bifreiðin skuli flokkast sem pallbifreið í tollskrárnúmer 8704.2128. Telur hann að bifreiðin skuli réttilega flokkast sem sendibifreið með lokuðu vörurými í tollskrárnúmer 8704.2199.
II. Málsmeðferð
Þann 31. mars 2015 flutti kærandi inn bifreið af gerðinni Mercedes Benz Sprinter 313 CDI með sendingarnúmerinu X. Þann 4. nóvember 2015 óskaði Tollstjóri eftir skjölum er vörðuðu sendinguna og bárust þau með tölvupósti frá Eimskip, dags. 3. desember sama ár. Fyrir liggur í málinu verkbeiðni til tollgæslunnar dags. 24. nóvember 2015 þar sem óskað var eftir því að skoðuð yrði uppbygging farmrýmis bifreiðarinnar og var jafnframt óskað eftir að myndir yrðu teknar af rýminu. Þann 8. desember sendi Tollstjóri tölvupóst til Eimskips þess efnis að athugasemd hafi verið gerð við tollafgreiðslu sendingarinnar. Athugasemd var gerð um að bifreiðin væri pallbíll sem flokkast í vörulið 8704 eftir koltvísýrings útblæstri. Var innflytjanda bent á að ákvörðun þessi væri kæranleg til Tollstjóra skv. 117. gr. tollalaga innan 60 daga.
Kæra barst Tollstjóra með tölvupósti dags. 11. febrúar sl. þar sem kærandi mótmælti tollflokkun bifreiðarinnar. Telur kærandi að um sé að ræða sendibifreið og ætti því að flokkast sem slík. Þann 11. mars sl. óskaði Tollstjóri eftir gögnum frá kæranda sem sýndu fram á upplýsingar um CO2 losun bifreiðarinnar. Umbeðin gögn bárust embættinu þann 17. mars 2016.
III. Meginröksemdir kæranda
Kærandi heldur því fram að umrædd bifreið sé ekki skráð hjá Samgöngustofu sem pallbifreið heldur sem sendibifreið, enda sé hún með lokuðu vörurými og eigi því að flokkast í tollflokk sem slík. Þá tekur kærandi það fram að bifreiðin sé skráð á rautt númer sem geri það að verkum að ekki sé leyfilegt að nota bílinn sem fólks- og/eða einkabíl.
Telur kærandi að tilgangur laganna sem sett voru um að tollflokka pallbifreiðar sem fólksbíla, þ.e. miða við CO2 losun, væri til að stoppa af einkaaðila sem voru að fara framhjá kerfinu, en ekki til að hamla atvinnustarfsemi í landinu og eðlilega endurnýjun atvinnutækja.
Kærandi heldur því fram að umræddur bíll verði aldrei notaður í öðrum tilgangi en í atvinnuskyni og óskar því eftir endurskoðun á þessu máli.
IV. Niðurstöður
Ágreiningur í þessu máli snýr að tollflokkun á bifreið af gerðinni Mercedes Benz Sprinter 313 CDI. Kærandi heldur því fram að um sendibifreið með lokuðu farmrými sé að ræða sem eigi að flokkast í tollskrárnúmer 8704.2199. Kærð ákvörðun Tollstjóra lítur hins vegar að því að um sé að ræða bifreið með vörupalli sem skuli flokkast í tollskrárnúmer 8704 eftir CO2 losun.
Kærandi heldur fram að breyting á álagningu vörugjalda á pallbifreiðar, þannig að þær falli í flokk með öðrum fólksbifreiðum, þ.e. miða við CO2 losun, sé til að stoppa af einkaaðila sem voru að fara framhjá kerfinu, en ekki til að hamla atvinnustarfsemi í landinu og eðlilega endurnýjun atvinnutækja. Tollstjóra hafnar þessum rökum kæranda. Í frumvarpi með breytingalögum nr. 156/2010, athugasemdum við 2. gr., kemur fram að ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga, að heildarþyngd 5 tonn eða minna, skulu ekki njóta sérstaks lægra vörugjalds eins og hafði verið. Þar undir féllu t.d. pallbílar en ekki þótti rétt að meðhöndla þá í skattalegu tilliti á annan hátt en aðra fólksbíla. Því var þeirri undanþágu breytt á þann veg að nýtt ákvæði tók gildi sem kvað á um að sendibifreiðar sem aðallega eru ætlaðar til vöruflutninga undir 5 tonn að leyfilegri heildarþyngd, með sambyggt stýrishús og flutningsrými og án farþegasæta í farmrými njóti sömu undanþágu. Með þessari breytingu er markmiðið að pallbílar séu ekki lengur á lækkuðum gjöldum en að sendibílar, sem alla jafna eru eingöngu notaðir í atvinnurekstri, njóti samt sem áður sömu lækkunar. Bifreið sem hér um ræðir fellur ekki undir áðurgreinda skilgreiningu, sbr. g. lið 2. tl. 4. gr. laga nr. 27/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti og fl., þar sem bifreiðin er ekki með sambyggt stýrishús og flutningsrými. Fyrir liggur í gögnum málsins ljósmyndir af umræddri bifreið sem teknar voru af tollgæslunni. Með vísan til myndanna og skoðun tollvarða á bifreiðinni sem fram fór þann 24. nóvember 2015 er um að ræða vöruflutningabifreið sem samanstendur af lokuðu ökumannshúsi og palli þar sem strengdur hefur verið yfir dúkur sem skýlir varningi þeim sem fluttur er á pallinum. Kærandi telur að bifreiðina skuli flokka sem vöruflutningabifreið með vörurými. Embætti Tollstjóra fellst ekki á það með kæranda enda er um að ræða bifreið með vörupalli, þar sem dúkur getur ekki talist vera varanleg yfirbygging. Bifreiðin skal þar af leiðandi flokkast í tollskrárnúmer 8704.2128.
Hvað varðar þær röksemdir kæranda að bifreiðin sé ekki skráð hjá Samgöngustofu sem pallbifreið heldur sem sendibifreið vill Tollstjóri árétta að embættið er bundið af tollskrá varðandi tollflokkun, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 20. gr. tollalaga nr. 88/2005. Það að Samgöngustofa skrái bifreið sem sendibifreið í ökutækjaflokk hjá sér hefur þannig ekki úrslitaþýðingu varðandi það hvaða tollskrárnúmer hún hlýtur við tollflokkun. Einnig er sú staðhæfing kæranda um að bifreiðin sé með rautt skráningarnúmer og sé þar af leiðandi bara til nota í atvinnuskyni ekki til þess fallin að hafa áhrif á tollflokkun bifreiðarinnar. Ekki skiptir máli hvort bifreiðin sé til einkanota eða atvinnunota þegar til álita kemur að tollflokka bifreiðina.
Með vísan til ofangreinds er ljóst að umrædd bifreið getur ekki flokkast í tollskrárnúmer 8704.2199, sem bifreið með vörurými. Bifreiðin ber það með sér að vera pallbíl, og þó svo að búið sé að setja upp segldúk á pall bifreiðarinnar, þá telst það ekki geta breytt henni svo að um sé að ræða bifreið með lokuðu vörurými. Niðurstaða embættis Tollstjóra er því sú að ákvörðun embættisins, dags. 8. desember 2015, skuli standa óbreytt og flokka beri umrædda bifreið sem ökutæki með vörupalli í tollskrárnúmer 8704 eftir skráðri losun CO2. Með vísan til framlagðra ganga um CO2 losun bifreiðarinnar skal hún flokkast í tollskrárnúmer 8704.2128.
ÚRSKURÐARORÐ
Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á bifreið að gerðinni Mercedes Benz Sprinter 313 CDI með forskráningarnúmerið X er staðfest.
Kæruréttur
Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 3 mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um yfirskattanefnd nr. 30/1992.