Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 2/2017

Höfnun tollafgreiðslu sláttuvélar sem hluti búslóðar

23.10.2017

Reifun

Kærð var ákvörðun Tollstjóra að hafna tollafgreiðslu sláttuvélar sem búslóðarmun. 

Niðurstaða: Kærandi, sem hafði starfsaðstöðu í landinu A, keypti sér sláttuvél ásamt öðrum munum í landinu B. Voru verslunarmunirnir fluttir inn til Íslands frá landinu B án viðkomu til kæranda og áður en kærandi hefði öðlast hér lögheimili eða tekið hér bólfestu. Var niðurstaða Tollstjóra sú að umþrættir verslunarmunir uppfylltu ekki almenn skilyrði til að geta verið tollafgreiddir sem búslóðarmunir við innflutning til landsins. Var fyrri ákvörðun Tollstjóra um höfnun tollafgreiðslu sendingar kæranda sem búslóðarsending staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 2. nóvember 2016, hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra dags. 29. september 2016, um höfnun á beiðni um tollafgreiðslu sláttuvélar sem búslóðarmun.

Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun.

II. Málsmeðferð

Þann 14. ágúst 2016 kom til landsins sending nr. B sem innihélt tjakk og sláttuvél af gerðinni C. Kærandi er skráður innflytjandi. Lagði kærandi inn aðflutningsskýrslu 16. ágúst 2016. Þann 17. ágúst 2016 var aðflutningsskýrslu kæranda hafnað, með þeirri athugasemd að ekki væri um heimilismuni að ræða.

Lögð var inn ný aðflutningsskýrsla 18. ágúst 2016 sem afgreidd var sama dag. Þann 28. september 2016 var móttekin leiðrétt aðflutningsskýrsla, með beiðni um niðurfellingu á gjöldum vegna búslóðarflutning til Íslands. Þann 29. september 2016 var afgreiðslu aðflutningsskýrslu hafnað á þeim grundvelli að ekki væri um heimilismuni að ræða.

Tollafgreiðsla sendingar B var kærð með bréfi dags. 2. nóvember 2016, sem móttekið var 7. nóvember 2016.

Óskað var eftir frekari gögnum frá kæranda. Bárust myndir af sláttuvélinni ásamt útskýringum á tilhögun búslóðarflutnings til Tollstjóra og taldist gagnaöflun lokið þann 22. desember 2016.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi mótmælir því að þurfa að greiða aðflutningsgjöld af sláttuvél af gerðinni C sem hann hafi flutt til landsins. Sláttuvélin sé til einkanota á heimili innflytjanda að bænum D. Enginn búskapur sé stundaður á bænum en tún umhverfis D séu um 3 hektarar. Auk þess hafi innflytjandi flutt inn sambærilega sláttuvél sem búslóð fyrir 10 árum og ekki þurft að greiða aðflutningsgjöld af henni.

IV. Niðurstöður

Í málinu er deilt um tollafgreiðslu sendingar B, hvort sláttuvél af gerðinni C sem flutt var inn frá Bandaríkjunum þann 14. ágúst 2016 eigi að njóta fríðindameðferðar sem búslóðarmunur í skilningi 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 15. og 16. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi nr. 630/2008, og njóta tollfrelsis við innflutning til landsins.

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur inn vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu ber að túlka þröngt og verða því ríkar kröfur gerðar um að skilyrðum þeirra sé fullnægt.

Í 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga, er að finna undantekningu frá ofangreindri meginreglu. Samkvæmt ákvæðinu er búslóð manna sem flytjast búferlum hingað til lands tollfrjáls, enda hafi viðkomandi haft búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins. Ákvæðið er nánar útfært í reglugerð nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Í 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um það skilyrði að viðkomandi hafi búslóðina með sér er hann flytur búferlum til landsins eða flytji hana til landsins eigi síðar en innan 6 mánaða frá því að hann tók sér bólfestu hér á landi og öðlaðist hér lögheimili.

Samkvæmt upplýsingum í Þjóðskrá hefur kærandi ekki verið með skráð lögheimili erlendis á síðastliðnum árum. Þó hefur kærandi með framlögðum gögnum, þ.e. með yfirlýsingu frá E sýnt fram á fasta búsetu erlendis frá 29. ágúst 2014 til 5. september 2016. Með því telst kærandi uppfylla skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Sláttuvél sú sem er kæruefni þessa úrskurðar, kom til landsins 14. ágúst 2016, með sendingu nr. B, en samkvæmt fyrrgreindri yfirlýsingu E lauk starfsdvöl kæranda erlendis þann 5. september 2016. Samkvæmt frásögn kæranda kom annar varningur hans til landsins með almennu flugi sem farangur, en við komu á Keflavíkurflugvöll tilkynnti kærandi tollvörðum að hann hefði búslóð sína meðferðis, en gerðu tollverðir enga athugasemd við það. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda kom búslóðin í samtals sex ferðatöskum og tveim kössum, samanstóð hún mestmegnis af fatnaði, rúmfötum, fáeinum eldhúsáhöldum og einu þrekhjóli.

Ljóst er samkvæmt ofangreindu að kærandi hafði ekki sláttuvélina með sér er hann flutti búferlum hingað til lands, auk þess sem sending B kom til landsins áður en starfstíma kæranda erlendis lauk. Talið verður að ekki sé hægt að flytja búslóð til landsins áður en aðili tekur sér bólfestu hér á landi, í samræmi við orðalag 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008, þar sem tímafrestir eru miðaðir frá annars vegar töku bólfestu hér á landi eða hins vegar frá því að aðili öðlist lögheimili hér.

Í úrskurði ríkistollanefndar nr. 2/2012 var niðurstaða nefndarinnar, að frestir þeir, sem mælt er fyrir um í 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008, eigi aðeins við um flutning búslóðar eins og hún er samansett, þegar búsetu innflytjanda lýkur erlendis. Heimild 3. tölul. sömu greinar til að flytja inn ónotaða búslóðarmuni er á sama hátt háð því skilyrði að innflytjandi eða fjölskyldumeðlimur hafi eignast munina þegar hann er búsettur erlendis. Sláttuvél sú sem er kæruefni þessarar úrskurðar var aldrei hluti af búslóð kæranda og stóð ekki í neinum tengslum við búsetu kæranda erlendis, en sláttuvélin var keypt 5. ágúst 2016 í Bandaríkjunum og send þaðan til systur kæranda sem búsett er hér á landi.

Samkvæmt ofantöldu verður að teljast að andlag sendingar B uppfylli ekki hið almenna skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 til að geta verið tollafgreitt sem búslóðarmunur við innflutning til landsins.

Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 630/2008 getur undanþágan um tollfrelsi búslóða ekki náð til ökutækja eða vélknúinna farartækja. Þar sem áðurnefnt skilyrði 4. tölul. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar 630/2008 fyrir tollfrelsi búslóðar, voru ekki talin uppfyllt var ekki tekin afstaða hvort um væri að ræða ökutæki eða vélknúið farartæki í skilningi áðurnefndra ákvæða.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun tollafgreiðslu sendingar B sem búslóð, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum