Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 2/2018

Greiðsla eftirgefins vörugjalds af leigubifreið

24.1.2018

Reifun

J kærði til úrskurðar ákvörðun Tollstjóra um greiðslu eftirgefins vörugjald af leigubifreið. Kærandi mótmælir ákvörðun Tollstjóra og óskar eftir því að fá að greiða upp það sem eftir var af kvaðartímanum.

Niðurstaða: Tollstjóri hafnar beiðni kæranda um að greiða hluta eftirgefins vörugjald af leigubifreið, í réttu hlutfalli við þann tíma sem eftir er miðað við heildartíma kvaðar, sbr. 22. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Álagning lægra vörugjalds á leigubifreiðar er m.a. háð því skilyrði samkvæmt ákvæðum 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar að rétthafi lækkunar vörugjalds hafi í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, næsta heila almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt. Með vísan til framlagðra gagna þá gat kærandi ekki sýnt fram á að skilyrði fyrir tekjulágmarki væru uppfyllt. Var því ákvörðun um höfnun greiðslu hluta eftirgefins vörugjalds af leigubifreið staðfest.

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti dags. 22. október 2017, hefur J, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra dags. 19. október 2017 um höfnun greiðslu hluta eftirgefins vörugjalds af leigubifreiðinni X.

Kærandi fer fram á að ákvörðun Tollstjóra verði endurskoðuð og hann fái að greiða upp það sem eftir er af kvaðartíma bifreiðarinnar.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi undirritaði þann 28. janúar 2016 yfirlýsingu þar sem hann skuldbatt sig til að hlíta þeim skilyrðum sem sett eru um nýtingu leigubifreiða, m.a. um lágmarkstekjur af leigubifreiðaakstri og skyldu til að senda Tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslu, sbr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum. Þann 18. september 2017 sótti kærandi um að aflétt yrði breytingalás vegna vörugjalds af leigubifreið með fastanúmerið UBBB68, samkvæmt 1. tl. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., þar sem til stóð að endurnýja bifreiðina. Kærandi hafði lagt fram afrit af staðgreiðslukvittunum fyrir tímabilið frá 13. janúar - 27. ágúst 2017. Embættið tók ákvörðun þann 19. október 2017 um að hafna kæranda um beiðni um að fá að greiða hlutfallslega það sem eftir var af kvaðartímanum. Ákvörðun Tollstjóra byggði á því að kærandi gæti ekki sýnt fram á að hann uppfyllti skilyrði um lágmarks reiknað endurgjald vegna leigubílaaksturs fyrir tekjuárið 2017, sbr. 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000.

Kærandi kærði ofangreinda ákvörðun Tollstjóra með tölvupósti dags. 22. október 2017, þar sem hann óskaði eftir að fá að greiða hlutfallslega upp eftirgefið vörugjald af umræddri leigubifreið. Með tölvupósti dags. 23. nóvember sama ár óskaði Tollstjóri eftir frekari upplýsingum um reiknað endurgjald. Daginn eftir skilaði kærandi til Tollstjóra afriti af staðgreiðslukvittunum fyrir tímabilið 2. október - 23. nóvember 2017. Ljóst var af samtölu þessara kvittana að kærandi var ekki búinn að uppfylla skilyrði fyrir lágmarkstekjum fyrir tekjuárið 2017, og uppfyllti þar með ekki skilyrði 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Var kæranda bent á að möguleiki væri að greiða upp allt vörugjaldið, og óska svo eftir endurupptöku máls síns þegar fyrir lægju tekjur fyrir árið 2017. Væri þá möguleiki á að fá endurgreitt fyrir þann hluta sem eftir væri af kvaðartímanum uppfyllti hann sett skilyrði skv. 15. gr. reglugerðarinnar. Kærandi greiddi upp allt vörugjaldið að fjárhæð 602.786 kr. þann 21. desember sl. og var breytingalás tekinn af umræddri bifreið samdægurs.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir málatilbúnað sinn á því að túlkun Tollstjóra á reglugerð 331/2000 leiði til þess að misræmi sé milli rétthafa, þar sem erfiðara sé fyrir suma að endurnýja bifreið sína innan tímamarkanna. Þeir sem fá niðurfellingu vörugjalds vegna leigubifreiðar í byrjun árs eiga tvo kosti ef ætlunin er að selja ökutækið innan tímamarka reglugerðarinnar, annars vegar að eiga bifreiðina í að verða á þriðja ár, eða að borga kvöðina alla ef selt er innan tímamarka, líkt og túlkun embættisins sé í dag. Þeir sem kaupi síðar á árinu geti aftur á móti selt eftir fyrsta heila almanaksárið og borgað það sem eftir stendur af niðurfellingunni í réttu hlutfalli við þann tíma sem eftir er miðað við heildartíma kvaðar.

Kærandi vísar til 22. gr. reglugerðar nr. 331/2000, þar komi m.a. fram að gert sé ráð fyrir því að rétthafi megi selja bifreið innan tímamarkanna og eftirstöðvar þá greiddar í réttu hlutfalli við þann tíma sem sé eftir miðað við heildartíma kvaðar. Þá tekur kærandi fram að í 22. gr. sé ekki gert ráð fyrir því að mönnum sé mismunað miðað við kaupdag bifreiðar. Í 15. gr. sömu reglugerðar komi skýrt fram að rétthafi beri að greiða eftirgefið vörugjald að fullu hafi hann ekki tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, næsta heila almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt. Einnig komi það skýrt fram í reglugerðinni að rétthafi eigi að skila inn staðfestu endurriti af skattskýrslu að tveimur árum liðnum frá því að eftirgjöf var veitt. Þá tekur kærandi það fram að ekkert komi fram í 15. gr. að mönnum sé mismunað miðað við kaupdag.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýr að ákvörðun Tollstjóra um að hafna beiðni kæranda um að greiða hluta eftirgefins vörugjald af leigubifreið með fastanúmerið X, í réttu hlutfalli við þann tíma sem eftir er miðað við heildartíma kvaðar, sbr. 1. mgr. 22. gr. reglugerðar nr. 331/2000.

Tollstjóri hafnaði beiðni kæranda þar sem ekki þótti sýnt fram á að kærandi uppfyllti tekjuskilyrði fyrir næsta heila almanaksár frá nýskráningu bifreiðar, sbr. 15. gr. sömu reglugerðar.

Í 1. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. er kveðið á um að greiða skuli í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningaskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987. Samkvæmt 3. gr. laganna skal vörugjald lagt á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. gr., eftir gjaldflokkum miðað við sprengirými aflvélar, mælt í rúmsentímetrum. Á leigubifreiðar til fólksflutninga skal lagt á vörugjald samkvæmt undanþáguflokki 3. gr. miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis. Þá eru skilyrði lækkunar vörugjalds af leigubifreið að kaupandi hennar hafi atvinnuleyfi til leiguaksturs fólksbifreiða og hafi akstur hennar að aðalatvinnu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 5. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Um er að ræða undanþágu frá skattskyldu sem bundin er ákveðnum skilyrðum. Kveðið er á um frekari skilyrði fyrir lækkuninni í reglugerð nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum í samræmi við heimild í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 29/1993. Álagning lægra vörugjalds á leigubifreiðar er m.a. háð því skilyrði samkvæmt ákvæðum 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar að rétthafi lækkunar vörugjalds hafi í tekjur að lágmarki 70% af reiknuðu endurgjaldi í staðgreiðslu eins og það er ákvarðað af ráðherra árlega, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, næsta heila almanaksár eftir að eftirgjöf var veitt. Að auki ber rétthafa, að tveimur árum liðnum frá eftirgjöf, að senda Tollstjóra staðfest endurrit af skattskýrslu næsta heila almanaksárs eftir að eftirgjöf var veitt, til sönnunar á tekjum rétthafa.

Ofangreind ákvæði eru undanþága frá skattskyldu sem m.a. er bundið því skilyrði að ákveðin upphæð sé talin fram til skatts næsta heila tekjuár eftir að eftirgjöf er veitt. Þar af leiðandi þarf að liggja fyrir skýr sönnun þess efnis að umrætt skilyrði sé uppfyllt. Til að kærandi geti uppfyllt skilyrði um tekjulágmark skv. ofangreindu þarf hann að sýna fram á tekjur fyrir tekjuárið 2017, sem er næsta heila almanaksár frá eftirgjöf vörugjaldsins. Líkt og fram hefur komið lagði kærandi fram afrit af staðgreiðslukvittunum fyrir tímabil frá 13. janúar - 23. nóvember 2017. Með vísan til framlagðra gagna uppfyllti kærandi ekki skilyrði um lágmarkstekjur í samræmi við ákvæði 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Af þeim sökum verður ekki hægt að fallast á að heimilt sé fyrir kæranda að greiða upp hluta eftirgefins vörugjald í réttu hlutfalli miðað við heildartíma kvaðar, sbr. 22. gr. reglugerðarinnar.

Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu eru háðar þröngri túlkun og ríkar kröfur gerðar til þess að skilyrðum þeirra sé ótvírætt fullnægt. Með vísan til þess sem ofan greinir er það mat embættis Tollstjóra að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 3. tl. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um eftirgjöf af vörugjaldi af leigubifreið með fastanúmer UBB68 og þ.a.l. sé ekki heimild fyrir hendi að greiða upp hluta vörugjaldsins skv. 22. gr. reglugerðarinnar. Ákvörðun Tollstjóra, dags. 19. október 2017, er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um höfnun greiðslu hluta eftirgefins vörugjalds af leigubifreið með fastanúmerið X, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 3 mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um yfirskattanefnd nr. 30/1992.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum