Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 20/2012

Tollflokkun, Ford Transit Van 350

19.12.2012

Reykjavík, 19. desember 2012

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 19. nóvember 2012, hefur L, f.h. B ehf., kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 1. nóvember 2012, um tollflokkun á bifreiðinni Ford Transit Van 350 með fastnúmer X. Kærandi krefst þess að ákvörðun Tollstjóra um að tollflokkun bifreiðarinnar verði endurskoðuð og hún þess í stað tollflokkuð sem sendibifreið í tollskrárnúmer 8704-2199 og til vara að B ehf. fái að breyta bifreiðinni á hafnarbakkanum í Reykjavík til að hún geti flokkast sem sendibifreið.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 23. október 2012 flutti kærandi inn til landsins bifreið af gerðinni Ford Transit Van 350 frá Póllandi með sendingu með sendingarnúmeri E GOD 23 10 2 DE HAM W006. Skýrsla vegna bifreiðarinnar var móttekin af Tollstjóra þann 31. október 2012. Við tollafgreiðslu var bifreiðin tollflokkuð í tollskrárnúmer 8704-2199 sem sendibifreið. Þann 1. nóvember 2012 endurskoðaði tollsérfræðingur Tollstjóra tollflokkun bifreiðarinnar og gerði athugasemd við tollflokkunina. Með ákvörðun, dags. 9. nóvember 2012, var bifreiðin flokkuð undir tollskrárnúmer 8703-3239, sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga með vísan í túlkun tollskrár. Ákvörðunin byggði á því að við tollskoðun kom í ljós að í bifreiðinni voru sæti fyrir sex farþega auk bílstjóra, miðstöð var fyrir farþega og var bifreiðin klædd með filt klæðningu í rýminu fyrir aftan bílstjóra. Einnig var borð með glasahaldara ásamt lesljósi á milli sæta í farþegarými og rúður á hliðum bifreiðarinnar. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2012, var ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun kærð. Kærunni fylgdu gögn, s.s. tölvupóstar, upplýsingar úr gagnagrunni Umferðastofu og ljósmyndir. Með tölvupósti, dags. 11. desember 2012, óskaði Tollstjóri eftir umboði frá H ehf., til handa B ehf, til að annast kæru vegna ákvörðunar Tollstjóra þar sem H ehf. er skráður innflytjandi sendingarinnar og tollskyldur aðili og hefur sem slíkur einn heimild til kæru, sbr. 1. mgr. 117. gr. Umboðið barst Tollstjóra þann 18. desember 2012.

III. Meginröksemdir kæranda

Meginröksemdir kæranda eru að ökutækið hafi verið rangt tollflokkað með tilliti til gerðar þess og notkunarmöguleika. Í kæru, dags. 19. nóvember 2012, bendir kærandi á að áður en bifreiðin hafi verið flutt til landsins hafi kærandi leitað eftir leiðbeiningum frá Umferðarstofu um hvernig bifreiðin mætti vera útbúin til að teljast sendibifreið. Hafi kærandi því verið í góðri trú um að öllum reglum væri fylgt. Vegna þeirra athugasemda sem gerðar voru í ákvörðun Tollstjóra, dags. 9. nóvember, segir í kærunni að ætlunin hafi verið að flytja í bifreiðinni viðkvæm verkfæri sem skaðast geti í kulda og því hafi verið nauðsynlegt að hafa hita í bifreiðinni en að önnur atriði ættu ekki að skipta máli. Að lokum getur kærandi þess að svo virðist sem í umferð séu sambærilegar bifreiðar þeirri sem hér um ræðir sem skráðar séu sendibifreiðar og vísar kærandi í fylgigögn máli sínu til stuðnings. Kærandi fer fram á að Tollstjóri endurskoði og breyti ákvörðun sinni og flokki bifreiðina sem sendibifreið, með vísan í jafnræðisreglu 11. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Til vara krefst kærandi þess að hann fái að breyta bifreiðinni á hafnarbakkanum í Reykjavík til að hún geti flokkast sem sendibifreið því ella yrði kærandi að flytja bifreiðina til útlanda til að breyta henni en nokkuð mikið væri í lagt að gera slíkar kröfur þar sem slíkt væri íþyngjandi, bæði fjárhagslega og vegna umstangs, fyrir kæranda. Vísar kærandi einnig til jafnræðisreglu 11. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í því sambandi.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýst aðallega um tollflokkun á bifreið með fastanúmer X og hins vegar hvort aðvinnsla á bifreiðinni skuli heimiluð í afgreiðslugeymslu á hafnarbakkanum í Reykjavík. Um er að ræða ökutæki af gerðinni Ford Transit Van 350. Við hlið ökumanns er pláss fyrir tvo farþega. Fyrir aftan ökumann er pláss fyrir fjóra farþega í þar til gerðum sætum með öryggisbeltum. Þar er einnig borð fyrir farþegana, tveir drykkjarílátahaldarar og leslampi yfir borði. Í bifreiðinni er miðstöð sem blæs aftur í aftara farþegarýmið. Fyrir aftan farþegarýmið er farangursrými sem er aðskilið með grind frá farþegarými. Grindin er fest með fjórum festingum. Í gólfi bifreiðarinnar eru sex samsíða brautir sem sætin eru fest í. Gluggar eru í hliðum bifreiðarinnar allan hringinn, þ.m.t. í hurðum bílsins. Í aftara farþegarými er rennihurð en í farangursrými er hurð aftan á bifreiðinni sem opnast út. Allt innviði bifreiðarinnar er klætt með teppi utan gólfsins.

Innflytjandi krefst þess aðallega að bifreiðin sé tollflokkað sem sendibifreið í vörulið 8704, nánar til tekið í tollskrárnúmer 8704.2199. Í skýringabókum alþjóðatollastofnunarinnar er að finna fimm atriði sem gefa til kynna hvort bifreið sé sendibifreið eða bifreið aðallega gerð til mannflutninga í vörulið 8703. Þau atriði sem benda til þess að ökutækið eigi að flokka í vörulið 8703 eru eftirfarandi:

  • Í fyrsta lagi verður að vera fyrir hendi, í aftararými fyrir aftan bílstjóra, varanleg sæti fyrir farþega eða varanlegir festipunktar fyrir slík sæti og öryggisbelti. Sætin mega vera losanleg.
  • Í öðru lagi er nefnt að gluggar verða að vera á báðum hliðum ökutækisins í aftara rými.
  • Í þriðja lagi eru nefndar hurðir með gluggum í aftara rými.
  • Í fjórða lagi er nefndur skortur á varanlegu skilrúmi milli svæðisins fyrir ökumann og aftara rýmis.
  • Í fimmta lagi er nefnd tilvist þæginda, búnaður og innra byrði (innréttinga) sem eru oft í farþegarýmum.

Bifreiðin uppfyllir öll þessi atriði og getur því verið flokkuð í vörulið 8703. Í ökutækinu eru sæti og öryggisbelti fyrir sex farþega. Í gólf bifreiðarinnar er hægt að festa fleiri sæti í þar til gerðar brautir. Gluggar eru allan hringinn í bifreiðinni, í hliðum hennar og afturhurðum. Bifreiðin er með hliðarhurð inn í rýmið sem ætlað er fyrir farþegana sem sitja fyrir aftan bílstjórann. Skilrúmið á milli farangursrýmis og farþegarýmis er hægt að fjarlægja með einföldum hætti. Innviði farþegarýmis hefur verið klætt á þann hátt sem oft er gert í farþegarýmum en þar er einnig að finna borð, lampa og drykkjarílátahaldara.

Hinn vöruliðurinn sem til skoðunar kom er vöruliður 8704 fyrir ökutæki til vöruflutninga. Í skýringabókum alþjóðatollastofnunarinnar er einnig að finna fimm atriði sem benda til þess að ökutækið eigi að flokka í þann vörulið. Þeim svipar mjög til áðurnefndra atriða fyrir vörulið 8703 en með öfugum formerkjum. Þau eru eftirfarandi:

  • Í farangursrými mega vera einfaldir bekkir sem yfirleitt eru samanfellanlegir svo hægt sé að nýta rýmið til fulls sem farangursrými. Í rýminu má hins vegar ekki vera öryggisbúnaður eða festingar sem leyfa öryggisbúnað eins og öryggisbelti.
  • Klefi fyrir ökumann og farþega á að vera aðskilinn palli (fyrir pallbifreiðar).
  • Ekki mega vera gluggar í hliðum farangursrýmis. Hurðir mega vera til staðar en þær verða að vera án glugga.
  • Varanlegt skilrúm skal vera á milli ökumanns og farþega fram í bifreiðinni annars vegar og á milli farangursrýmis.
  • Ekki mega vera til staðar þægindi, búnaður eða innréttingar í farangursrými sem oft eru í tengslum við og má finna í farþegarýmum.

Bifreiðin sem um ræðir í þessu máli uppfyllir ekkert af þessum atriðum og getur því ekki flokkast í vörulið 8704. Því ber að flokka bifreiðina sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga í vörulið 8703, nánar til tekið í tollskrárnúmer 8703.3239, samkvæmt túlkunarreglum 1 og 6. Varðandi vísan í jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þær röksemdir kæranda að sambærilegar bifreiðar og hér um ræðir séu skráðar sem sendibifreiðar, sbr. upplýsingar úr gagnagrunni Umferðarstofu sem fylgdu kæru, þykir rétt að benda á að Tollstjóri er bundinn af tollskrá er varðar tollflokkun, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 20. gr. tollalaga nr. 88/2005. Sambærilegar bifreiðar myndu því fá sambærilega tollflokkun hjá Tollstjóra við innflutning til landsins. Það að Umferðarstofa skrái sambærilegar bifreiðar sem sendibifreiðar í ökutækjaflokk hjá sér hefur þannig ekki úrslitaþýðingu varðandi það hvaða tollskrárnúmer þær hljóta við tollflokkun.

Til vara krefst kærandi þess að hann fái að breyta bifreiðinni á hafnarbakkanum í Reykjavík til að hún geti flokkast sem sendibifreið. Í XIII. kafla tollalaga er að finna ákvæði um meðferð og vörslu ótollafgreiddrar vöru. Í 1. tl. 1. mgr. 69. gr. tollalaga kemur fram að heimilt sé að geyma ótollafgreidda vörur í afgreiðslugeymslum farmflytjanda og viðurkenndra tollmiðlarar, sbr. 88.- 90. gr. tollalaga, en hafnarbakkinn í Reykjavík sem kærandi vísar til telst til afgreiðslugeymslu. Í 2. mgr. 73. gr. tollalaga er skýrt kveðið á um það að iðnaður og aðvinnsla á vörum sé óheimil á geymslusvæði fyrir ótollafgreiddar vörur nema annað sé tekið fram í tollalögum. Slíku er ekki fyrir að fara í tollalögum þegar kemur að afgreiðslugeymslum. Því er ljóst að öll aðvinnsla á umræddri bifreið af hálfu kæranda á umræddu svæði er óheimil.

Að lokum þykir rétt að benda á að til stuðnings bæði aðal- og varakröfu sinni vísar kærandi í meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Óljóst er hvað kærandi á við með þeirri tilvísun sinni enda er hún ekki rökstudd sérstaklega. Verður enda ekki séð með hvaða hætti ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun bifreiðarinnar og að heimila ekki aðvinnslu á henni á hafnarbakkanum í Reykjavík brjóti gegn meðalhófsreglunni enda ljóst að annað eða vægara úrræði er ekki til staðar eins og ofangreind umfjöllun og lagarök bera með sér.

Með vísan í allt ofangreint er niðurstaðan embættis Tollstjóra því sú að ákvörðun embættisins, dags. 9. nóvember 2012, skuli standa óbreytt og flokka beri bifreiðina sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga í vörulið 8703, nánar til tekið í tollskrárnúmer 8703.3239, samkvæmt túlkunarreglum 1 og 6.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um tollflokkun bifreiðarinnar, dags. 9. nóvember 2012, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 101 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum