Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 20/2017

Tollflokkun og álagning virðisaukaskatts á glerlistaverk

23.10.2017

Reifun  

R kærði til úrskurðar ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun og álagningu virðisaukaskatts á eigið listaverk við innflutning. Um er að ræða listaverk úr steindu gleri sem sett er í glugga innan við venjulegt gler sem listskreyting. Kærandi fer fram á að fá útlagðan kostnað við greiðslu virðisaukaskatts við innflutning verksins endurgreiddan, enda sé um að ræða eigið listaverk.

Niðurstaða: Um lagagrundvöll fer eftir 4. tl. 36. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 2. tl. 39. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Samkvæmt nefndum ákvæðum skulu listaverk vera undanþegin virðisaukaskatti, flokkist þau undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000 og séu flutt inn af listamanninum sjálfum eða á hans vegum. Undanþága frá greiðslu virðisaukaskatts hefur því tvo skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt. Ljóst er að kærandi er listamaðurinn sjálfur og stóð hann að innflutningi verksins. Tollstjóri efast þá ekki um listrænt gildi verksins, en hins vegar eru ekki öll listaverk undanþegin greiðslu virðisaukaskatts, þar sem skilyrt er að verkið falli í eitthvert númer í vörulið 9701-9703 í tollskrá. Niðurstaða Tollstjóra er sú að umrætt verk falli ekki í áðurgreind númer heldur sé um að ræða blýgreypt gler og þess háttar sem tiltekið er í vörulið 7016 í tollskrá. Vísar Tollstjóri í þessu sambandi til úrskurðar Ríkistollanefndar í sambærilegu máli nr. 9/2011. Ákvörðun Tollstjóra var því breytt á þann veg að varan var færð úr tollflokk 7013.9900 í 7016.9001. Varan ber eftir sem áður virðisaukaskatt við innflutning.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 1. júní 2017, hefur R, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra dags. 24. apríl 2017 um tollflokkun á listaverki sem flutt var inn með sendingu með sendingarnúmerinu X.

Kærandi fer fram á að fá virðisaukaskatt endurgreiddan og að verkið verði flokkað sem eigið listaverk.

II. Málsmeðferð

Þann 9. apríl 2017 kom hingað til lands sending með sendingarnúmerinu X sem innihélt glerlistaverk. Verkið var upphaflega við komu til landsins tollflokkað sem listaverk í tollskrárnúmer 9703.0000. Þann 24. apríl 2017 var tekin ákvörðun af hálfu Tollstjóra um að breyta tollflokkun vörunnar þannig hún yrði flokkuð í tollskrárnúmer 7013.9900. Kærandi greiddi virðisaukaskatt af sendingunni þann 27. apríl sama ár og fékk vöruna afhenta.

Þann 1. júní 2017 barst Tollstjóra kæra dagsett sama dag, þar sem farið var fram á að umrædd sending yrði tollflokkuð sem eigið listaverk og því undanþegin greiðslu virðisaukaskatts. Þann 27. júní sama ár sendi Tollstjóri kæranda tölvupóst þar sem óskað var eftir myndum og nánari upplýsingum um verkið. Svar barst samdægurs þar sem kærandi sendi myndir af verkinu. Í kjölfarið óskaði Tollstjóri eftir því að skoða verkið og fór skoðun fram þann 9. júlí sl.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi fer fram á að fá endurgreiddan virðisaukaskatt sem greiddur var af eigin listaverki við komu til landsins frá Þýskalandi. Um sé að ræða listaverk úr steindu gleri sem sé aldrei sett í glugga á íslenskum húsum eitt og sér, heldur innan við venjulegt gler sem listskreyting. Um sé að ræða tvívíðan skúlptúr, unnin úr gleri og málmi. Telur kærandi að það sama gildi um slík listaverk og önnur sem prýða veggi, loft eða gólf bygginga. Eini munurinn sé sá að steindum glerlistaverkum sé stillt upp inn í gluggum bygginga, þar sem náttúrulegri birtu sé ætlað að draga fram hin listrænu form verksins.

Telur kærandi að verkið skuli teljast vera eigið listaverk og undanþegið greiðslu virðisaukaskatts, en ekki skuli flokka það sem gler og gjöld lögð á eftir því. Krefst kærandi þess að fá útlagðan kostnað við greiðslu virðisaukaskatts af umræddu verki endurgreiddan.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í þessu máli snýr að tollflokkun á listaverki. Kærandi heldur því fram að um eigið listaverk sé að ræða sem skuli undanþegið greiðslu virðisaukaskatts við innflutning. Kærð ákvörðun Tollstjóra lítur hins vegar að því að um sé að ræða gler sem skuli flokkast í tollskrárnúmer 7013.9900 og bera eftir því virðisaukaskatt.

Um lagagrundvöll í þessu máli fer eftir 4. tl. 36. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 2. tl. 39. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Samkvæmt nefndum ákvæðum skulu listaverk vera undanþegin virðisaukaskatti, flokkist þau undir tollskrárnúmer 9701.1000-9703.0000 og séu flutt inn af listamanninum sjálfum eða á hans vegum. Umrædd undanþága hefur því tvö skilyrði sem bæði þurfa að vera uppfyllt svo að vara geti notið undanþágunnar.

Varan sem um ræðir er glerlistaverk sem kærandi gerði í samstarfi við annan listamann. Ekki er deilt um það í þessu máli að kærandi, sem listamaður verksins, hafi sjálfur flutt inn verkið. Þá dregur Tollstjóri ekki í efa listrænt gildi verksins. Hins vegar eru ekki öll listaverk undanþegin greiðslu virðisaukaskatts við innflutning, þar sem skilyrt er að verkið falli undir eitthvert númer í vörulið 9701 -9703 í tollskrá. Undir vörulið 9701 falla „málverk, teikningar og pastelmyndir gerðar í höndum að öllu leyti, þó ekki teikningar í nr. 4906 og handmálaðir eða handskreyttir framleiddir hlutir; klippimyndir og áþekk veggskreytisspjöld“. Undir tollskrárnúmer 9702-0000 falla „frumverk af stungum, þrykki og steinprenti“. Undir tollskrárnúmer 9703-0000 falla „frumverk af höggmyndum og myndastyttum, úr hvers konar efni“.

Tollstjóri telur að ofangreint verk kæranda falli ekki undir þessi tollskrárnúmer, heldur sé um að ræða „blýgreypt gler og þess háttar“ eins og kemur fram í orðalagi vöruliðar 7016 í tollskrá. Samkvæmt túlkunarreglu 1 við tollskrá eru fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla. Það er því álit Tollstjóra að umrædd vara skuli flokkast í tollskrárnúmer 7016.9001. Ekki er gerður greinamunur á hvort um sé að ræða eitt sérsmíðað úthugsað verk, eða hvort um sé að ræða verksmiðjuframleiddan blýgreyptan glugga. Tollstjóri hefur áður úrskurðar í sambærilegu máli þar sem þessi niðurstaða var staðfest af Ríkistollanefnd með úrskurði nr. 4/2009.

Með vísan til ofangreinds er ljóst að skilyrði fyrir undanþágu frá virðisaukaskatti við innflutning eru ekki uppfyllt, þar sem ekki er um að ræða verk sem fellur undir tollskrárnúmer sem talin eru upp í 4. tl. 36. gr. virðisaukaskattslaga.

Hin kærða ákvörðun kveður á um að umrætt verk skuli tollflokkað í vörulið 7013. Ljóst er hins vegar að sá vöruliður á ekki við þar sem í þann kafla fara glervörur notaðar sem borð-, eldhús-, bað- eða skrifstofubúnaður eða til innanhússskreytingar eða áþekkra nota (þó ekki vörur í nr. 7010 eða 7018). Tollstjóri hefur því með úrskurði þessum breytt fyrri ákvörðun dags. 24. apríl 2017 á þann veg að varan flokkast í tollskrárnúmer 7016.9001, ber varan þó eftir sem áður virðisaukaskatt við innflutning.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að varan skuli flokkast í tollskrárnúmer 7016.9001 og er álagning virðisaukaskatts vegna sendingarinnar staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 3 mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um yfirskattanefnd nr. 30/1992.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum