Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 21/2010

Höfnun tollfríðindameðferðar

26.10.2010

Í dag var hjá embætti tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 16. janúar 2010, hefur H, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra um höfnun tollfríðindameðferðar fyrir fjögur bifreiðadekk.

Kærandi krefst þess að fallið verði frá álagningu aðflutningsgjalda af dekkjunum.

II. Málsmeðferð

Þann 18. nóvember 2009 kom kærandi til landsins með flugi B ásamt syni sínum og hafði meðferðis fjögur dekk. Á dekkjunum voru farangurslímmiðar sem merktir voru „H“ og „W“. Við tollafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli lagði kærandi fram reikning að beiðni tollvarðar. A, bróðir kæranda og flugmaður vélarinnar, var skráður kaupandi á reikningnum, þar sem fram kom að um fjögur dekk af gerðinni L2756520E GY WRGATSB var að ræða að verðmæti USD 189,94 auk skatts. Hvert dekk kostaði því u.þ.b. kr. 24.823.- samkvæmt tollgengi dollara var þann 18. nóvember 2009. Ákvörðun var tekin um að aðflutningsgjöld skyldu lögð á vörurnar. Á reikningi Tollstjóra nr. R kemur fram heildartollverð að upphæð kr. 106.639.- Veittur var afsláttur í samræmi við tollfríðindi ferðamanna að upphæð kr. 32.500.- Tollverð til álagningar aðflutningsgjalda var því kr. 74.139.- og aðflutningsgjöld lögð á í samræmi við það. Álögð gjöld voru almennur tollur í samræmi við tollskrá að upphæð kr. 7.414.-, úrvinnslugjald á hjólbarða, 15 kr./kg., að upphæð kr. 1.155.- fyrir 77,28 kg, vörugjald, 20 kr./kg, að fjárhæð kr. 1.540.- og virðisaukaskattur, 24,5% að fjárhæð kr. 20.641.- Alls voru því lögð á aðflutningsgjöld að upphæð kr. 30.750.- sem kærandi greiddi með kreditkorti. Kærandi mótmælti ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda með kæru sinni, dags. 16. janúar 2010, sem barst Tollstjóra 1. febrúar 2010. Með bréfi dags. 2. júní 2010 fór embætti Tollstjóra fram á frekari upplýsingar og útskýringar varðandi málið. Svar barst með bréfi dags. 6. júlí 2010. Með bréfi dags. 23. júlí 2010 var beðið um nánari útskýringar þeirra upplýsinga sem fram komu í svarbréfi kæranda. Svar barst með bréfi dags. 9. ágúst 2010.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að hann hafi uppfyllt skilyrði reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi sem lúta að tollfríðindum ferðamanna. Hann hafi ferðast með syni sínum og þeir hafi því haft heimild til að hafa tollfrjálst með sér varning að verðmæti allt að kr. 130.000.-. Þar að auki hafi hvert dekk verið að andvirði kr. 24.823.- og því undir verðmætamörkum. Kærandi segist vera eigandi dekkjanna en hafi notað kreditkort bróður síns til kaupanna þar sem A hafi skráð heimilisfang kunningja síns í Boston sem „shipping address“ til þess að geta verslað á netinu í Bandaríkjunum. Kærandi hafi ætlað dekkin undir bifreið með fastnúmer X og hann hafi verið búinn að kaupa í vetur. Kaupin hafi þó orðið að ganga til baka vegna vanefnda á afléttingu myntkörfuláns.

IV. Niðurstöður

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 er kveðið á um almenna tollskyldu en þar segir að hver sá sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga er tollskyldur og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá. Í 1. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1088 er kveðið á um að greiða skuli í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum svo og af innflutningi vöru og þjónustu eins og nánar er ákveðið í lögunum.

Í b-lið 2. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga er kveðið á um að varningur sem ferðamenn, búsettir hér á landi, hafa meðferðis hingað til lands eða kaupa í tollfrjálsri verslun hér á landi um fram það sem greinir í a-lið, skuli vera tollfrjáls að verðmæti allt að kr. 65.000.-, miðað við smásöluverð á innkaupsstað. Verðmæti einstaks hlutar skal þó að hámarki vera kr. 32.500.- Börn yngri en 12 ára skulu njóta réttindanna að hálfu. Nánar er kveðið á um undanþágu frá tollskyldu í reglugerð nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi. Í 7. gr. reglugerðarinnar kemur fram að almennt skilyrði tollfrelsis ferðamanna er að innflytjandi hafi varninginn í eigin vörslu við komu til landsins og geti þá framvísað honum til tollskoðunar og að varningurinn sé fluttur inn til persónulegra nota viðkomandi, fjölskyldu hans eða til smágjafa. Í 1. mgr. 8. gr. reglugerðarinnar kemur fram að réttindi sem menn eiga skv. kafla um tollfríðindi ferða- og farmanna verði ekki framseld. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 8. gr. getur viðkomandi notið undanþágu og greitt aðflutningsgjöld af þeim verðmætum sem eru umfram þær fjárhæðir sem um greinir í 1. mgr. 2. gr. Í 3. mgr. 8. gr. kemur fram að tveir eða fleiri aðilar geti ekki lagt saman heimildir sínar til tollfríðinda til þess að flytja tollfrjálst inn hlut sem er verðmeiri en um ræðir í 1. mgr. 2. gr.

Ágreiningur snýst um hvort varningur sá sem fluttur var inn uppfyllir ofangreind skilyrði fyrir tollfrelsi. Eins og fram kemur að ofan er um að ræða varning sem ferðamenn, búsettir á Íslandi, hafa með sér auk þess farangurs sem telja má venjulegan fyrir ferðamenn miðað við lengd og tilgang ferðar.

Það er viðtekin venja hjá embætti Tollstjóra að líta á sett eða heild af hlutum sem eru af sömu gerð og undirtegund, hafa virkni sína sem heild og eru reikningsfærð á eina línu á vörureikningi sem einn hlut, enda myndi sending sem þessi, flutt á annan hátt, vera felld undir eitt sendingarnúmer og tollafgreidd sem ein heild, sbr. 1. mgr. 35. gr. tollalaga nr. 88/2005. Ekki er rétt á að gera greinarmun á því hvort innflytjandi hefur sendinguna með sér sjálfur eða lætur senda sér hana, hvort sem er með skipi eða flugvél. Dekkin sem hér um ræðir eru samkvæmt framlögðum vörureikningi frá fyrirtækinu S, öll af sömu gerð og eru öll færð í sömu línu reikningsins. Á honum kemur fram „4 pieces Tire L2756520E GY WRGATSB, stykkjaverð USD 189.94, heildarverð USD 759.76. Þar að auki liggur fyrir sú yfirlýsing kæranda að hann hafi ætlað dekkin til notkunar undir bifreiðina X af tegundinni Ford F150 Supercrew SS 4X4, sbr. bréf kæranda dags. 9. ágúst sl. Það er því ljóst að kærandi keypti dekkin sem eina heild til notkunar fyrir bifreiðina. Þar af leiðandi voru dekkin með réttu tollafgreidd sem ein heild við komu kæranda til landsins. Það er því aðeins grundvöllur til að heimila nýtingu tollfríðinda ferðamanns fyrir einn aðila við tollafgreiðslu dekkjanna þar sem dekkjasettið að telst vera einn hlutur. Hins vegar er enginn grundvöllur til uppskiptingar heildarverðmætis dekkjanna á milli aðila, eins og kærandi fer fram á, til að nýta fleiri en ein réttindi til tollfríðinda ferðamanna, sbr. ákvæði 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda á fjögur dekk, dags. 18. nóvember 2009 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum