Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 21/2011

Höfnun beiðni um endurgreiðslu vörugjalds af þremur dráttarvélum

7.11.2011

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 29. ágúst 2011, hefur Þ f.h. einkahlutafélagsins R ehf., kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 27. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., ákvörðun Tollstjóra, dags. 22. júlí 2011, um höfnun beiðni um endurgreiðslu vörugjalds af þremur dráttarvélum með fastnúmer og . Kærandi krefst þess að vörugjald af tilgreindum dráttarvélum verði endurgreitt auk dráttarvaxta frá gildistöku laga nr. 156/2010 til endurgreiðsludags.

II. Málsmeðferð

Kærandi flutti inn þrjár dráttarvélar á árunum 2006 og 2007 með sendingum nr. M KRE 02 06 6 NL VLI S991, E GOD 20 11 7 NL RTM S002 og E GOD 20 11 7 NL RTM S003.

Vörugjald var lagt á vélarnar ári eftir innflutning og skuldfært hjá kæranda. Kærandi hafði samband við embættið símleiðis í byrjun júlí ársins 2011 og óskaði eftir því að fá vörugjald af dráttarvélunum, að fjárhæð kr. 552.433.-, endurgreitt. Kærandi vísaði til breytinga á lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti og fl. sem tekið höfðu gildi þann 1. janúar 2011. Embætti Tollstjóra leiðbeindi kæranda á þann veg þar sem kærandi hefði einungis flutt inn vélarnar og greitt vörugjald eins og lög gerðu ráð fyrir á árunum 2006 og 2007 væri ekki hægt að verða við kröfu um endurgreiðslu án þess að frekari skilyrðum yrði fullnægt. Var kæranda tjáð að hann yrði að selja vélarnar til að eiga lögmætt tilkall til endurgreiðslu vörugjaldsins og að leggja þyrfti fram gögn því til sönnunar sem teldust fullnægjandi að mati embættis Tollstjóra. Kærandi lagði fram sömu kröfu formlega skömmu síðar og vörureikning þar sem fram kom að vélarnar höfðu verið seldar Þ þann 8. júlí 2011 gegn staðgreiðslu. Með ákvörðun Tollstjóra, sem kæranda var send með tölvupósti, dags. 22. júlí 2011 var beiðni um endurgreiðslu hafnað. Ákvörðuninni var mótmælt með kæru dags. 29. ágúst 2011.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur skilyrði fyrir endurgreiðslu vera uppfyllt, þar sem ákvæði um 10% vörugjald á dráttarvélar hafi verið fellt niður með lögum nr. 156/2010. Kærandi hafi selt vélarnar í júlí 2011 og því hafi skapast skilyrði til endurgreiðslu í samræmi við framkvæmd Tollstjóra á sviði endurgreiðslna vörugjalds sem greitt hafi verið af dráttarvélum í tíð eldri laga.

IV. Niðurstaða

Greiða skal í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Gjaldskyldan nær til allra skráningarskyldra ökutækja, nýrra sem notaðra, sem flutt eru til landsins eða eru framleidd, unnið að eða sett saman hér á landi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1993. Vörugjald af innfluttri vöru skal innheimt við tollafgreiðslu, sbr. 22. gr. laga nr. 29/1993, sbr. þó greiðslufrest skv. 23. gr. laganna, en þar kemur fram að vörugjald af skráningarskyldum ökutækjum skuli greitt áður en skráning þeirra fer fram en þó ekki síðar en tólf mánuðum eftir tollafgreiðslu.

Ákvæði 4. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. sem mælti fyrir um 10% vörugjald af dráttarvélum, var breytt með lögum nr. 156/2010 á þann veg að dráttarvélar urðu eftir gildistöku þeirra, þann 1. janúar 2011, alfarið undanþegnar vörugjaldi Fyrir gildistöku laganna voru dráttarvélar einungis undanþegnar vörugjaldi ef þær voru nýttar á lögbýli, sbr. þágildandi g-lið 1. tl. 2. mgr. 5. gr. laganna. Innflytjendur og söluaðilar dráttarvéla fengu vörugjaldið endurgreitt við sölu þeirra á lögbýli en um var að ræða ófrávíkjanlegt skilyrði slíkrar endurgreiðslu. Þá var lögð kvöð á þær dráttarvélum sem seldar voru á lögbýli í fimm ár frá sölu þeirra þess efnis að yrði slík dráttarvél seld að nýju innan þessa tímamarka væri seljandi skyldugur til að greiða eftirstöðvar eftirgefins vörugjalds að tiltölu við þann tíma sem eftir var af kvöðinni.

Í lögum nr. 156/2010 er ekki að finna sérstakar lagaskilareglur. Ekki var tekin afstaða til þess hvernig fara ætti með þau tilvik þar sem vörugjald hafði verið greitt af dráttarvélum sem fluttar höfðu verið inn til endursölu og tollafgreiddar fyrir gildistöku laganna, en voru enn óseldar um áramótin. Þeirri spurningu var því ósvarað í lögum, hvort innflytjendur sem tollafgreiddu dráttarvélar samkvæmt ofangreindu væru að öllu leyti bundnir af eldri lögum með tillit til skilyrða fyrir endurgreiðslu vörugjaldsins. Samkvæmt eldri löggjöf voru þeir bundnir af því að selja dráttarvélarnar á lögbýli ásamt því að kvöð hvíldi á vélunum á fimm ár eftir söluna meðan þeir innflytjendur sem tollafgreiddu eftir áramót greiddu engin vörugjöld og engar kvaðir fylgdu vélunum við sölu.

Meginreglan er sú að miða skuli við þær lagareglur sem gilda á tollafgreiðsludegi vöru við álagningu aðflutningsgjalda. Vörur eru ýmist tollafgreiddar strax við komu þeirra til landsins eða eigi síðar en 6 mánuðum síðar sbr. 22. gr. tollalaga nr. 88/2005 nema varan sé færð í Tollvörugeymslu. Breytingarlögin voru birt í stjórnartíðindum þann 29. desember 2010 og tóku gildi 1. janúar 2011. Þeir innflytjendur sem tollafgreitt höfðu dráttarvélar fyrir áramót og greiddu af þeim vörugjöld áttu því strangt til tekið engan kost á að fá þau endurgreidd nema vélarnar yrðu verið seldar á lögbýli, meðan engin vörugjöld voru innheimt eftir áramót og engar kvaðir skyldu fylgja hinum seldu vélum. Ljóst var að óbreytt framkvæmd gagnvart tilvikum er heyrðu undir eldri löggjöf hefði skapað mikinn ójöfnuð við sölu dráttarvéla sem fluttar voru inn með stuttu millibili í sumum tilvikum. Gat slíkt ekki samræmst vilja löggjafans, að mati Tollstjóra, enda kemur skýrt fram í athugasemdum með frumvarpi til laga nr.156/2010 að dráttarvélar hafi verið undanþegnar vörugjaldi í því skyni að koma á jafnræði við innflutning dráttarvéla og annarra vinnuvéla auk þess að ná fram sparnaði þar sem eftirlit með dráttarvélum háðar kvöð hafi verið erfitt og kostnaðarsamt.

Með vísan til ofangreinds tók Tollstjóri þá ákvörðun að gera ekki kröfu um að vélar sem tollafgreiddar voru í tíð eldri laga yrðu seldar á lögbýli. Vélarnar yrðu að sama skapi ekki háðar kvöð eftir sölu þeirra. Þó yrði áfram gerð krafa um að vélarnar yrðu seldar ellegar fengist vörugjaldið ekki endurgreitt. Þá yrði einnig að framvísað gögnum sem að mati Tollstjóra væru fullnægjandi sönnun fyrir sölu þeirra. Slík niðurstaða taldist ekki andstæð þeim lögmætu væntingum sem innflytjendur höfðu við ákvörðun um innflutning vélanna í upphafi að mati Tollstjóra. Kærandi lagði fram reikning dags. 8. júlí 2011, til sönnunar þess að sala þriggja dráttarvéla hefði sannarlega farið fram og krafði embætti Tollstjóra um endurgreiðslu vörugjalds vegna þeirra.

Á framlögðum reikningi kemur fram að um staðgreiðslusölu á umræddum vélum sé að ræða milli kæranda, R ehf., og Þ en sá hinn sami einstaklingur lagði fram kæru fyrir hönd félagsins til Tollstjóra og hefur komið fram fyrir hönd þess í samskiptum við embættið. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá þá er fyrrnefndur Þ skráður meðstjórnandi, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félags kæranda. Samkvæmt upplýsingum bifreiðaskrár Umferðarstofu hafa dráttarvélarnar og ekki verið skráðar á nafn Þ. Engin önnur gögn hafa verið lögð fram. Þá liggur fyrir skýrsla tollvarða dags. 24. október 2011 þar sem fram kemur að umræddar vélar standa enn fyrir framan starfsstöð söluaðila, ehf., og eru boðnar þar til sölu.

Ekki hefur verið sýnt fram á að raunveruleg sala vélanna hafi farið fram að mati Tollstjóra. Skilyrði fyrir endurgreiðslu vörugjalds eru því ekki uppfyllt. Engin lagaskilyrði eru til að fallast á beiðni kæranda um endurgreiðslu vörugjalds af þremur dráttarvélum byggt á þeim breytingum sem urðu með lögum nr. 156/2010.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 27. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun endurgreiðslu vörugjalds vegna þriggja dráttarvéla með fastnúmer og dags. 22. júlí 2011, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum