Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 23/2004

Aðflutningsgjöld af bifreiðar af gerðinni Toyota Land Cruiser, BTB 1315, árgerð 1997

17.12.2004

I.

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf innflytjanda, dags. 23. september sl. og 24. nóvember sl., þar sem kærð er ákvörðun embættisins um aðflutningsgjöld bifreiðarinnar X, sem er af gerðinni Toyota Land Cruiser, BTB 1315, árgerð 1997 og flutt var til landsins með sendingu U NOR 27 05 4 NO BGO 0142. Innflytjandi sendingarinnar er A.

II.

Málavextir eru á þann veg að þann 27. maí sl. var umrædd bifreið flutt inn til landsins með sendingu U NOR 27 05 4 NO BGO 0142 og var tímabundið akstursleyfi veitt til 29. júlí sl. Með bréfi innflytjanda til embættisins, dags. 14. júlí sl., var óskað eftir því að lokaákvörðun um tollafgreiðslu bifreiðarinnar yrði frestað og var í því samhengi vísað til 3. mgr. 21. gr. tollalaga nr. 55/1987. Beiðni um frestun á lokaákvörðun um tollafgreiðslu bifreiðarinnar Toyota Land Cruiser, BTB 1315, var hafnað með bréfi embættisins, dags. 28. júlí sl. Embættinu barst síðan bréf frá innflytjanda, dags. 23. september sl., þar sem beðið var um endurákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings bifreiðarinnar. Í bréfinu kom fram að innflytjandi hafði verið búsettur um árabil erlendis en vegna veikinda dóttur hans hafi hann flutt fyrr til landsins en áætlað var. Þá tilgreindi innflytjandi að umrædd bifreið, sem væri orðin 7 ára gömul, hefði verið í eigu hans í níu mánuði, bifreiðin hafi verið keypt til að nota sem fjölskyldubifreið ytra og þar sem hún var hluti af búslóðinni hafi hún verið flutt til Íslands sem búslóðarbifreið, en alls ekki til innflutnings eða viðskipta. Óskaði innflytjandi þess að embættið tæki hinar sérstöku og erfiðu aðstæður til athugunar og heimilaði að umrædd bifreið yrði flutt inn til landsins sem búslóðarbifreið. Með bréfi tollstjóraembættisins, dags. 26. október sl., var innflytjanda tilkynnt um að samkvæmt gögnum embættisins hefði aðflutningsskýrslu ásamt fylgiskjölum, varðandi sendingu U NOR 27 05 4 NO BGO 0142, ekki verið skilað til embættisins og því lægu aðeins fyrir hjá embættinu leiðbeinandi útreikningar um aðflutningsgjöld bifreiðarinnar. Aðflutningsgjöld bifreiðarinnar Toyota Land Cruiser, BTB 1315, skráningarnúmer X, hefðu því ekki enn verið ákvörðuð og ekki væri unnt að taka afstöðu til erindisins innflytjanda, dags. 23. september sl., fyrr en aðflutningsgjöld bifreiðarinnar hefðu verið ákvörðuð. Óskað var eftir því að innflytjandi skilaði inn aðflutningsskýrslu ásamt gögnum svo unnt væri að ákvarða aðflutningsgjöld bifreiðarinnar. Umbeiðnum gögnum var skilað til embættisins þann 1. nóvember sl. Innflytjanda var síðan tilkynnt um ákvörðun aðflutningsgjalda bifreiðarinnar með bréfi embættisins, dags.

17. nóvember sl. Taldi embættið að ekki væri unnt að líta til 23. gr. reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun, með síðari breytingum, við ákvörðun aðflutningsgjalda þar sem ljóst væri að innflytjandi hefði ekki átt umrædda bifreið í a.m.k. eitt næstliðið ár áður en hann flutti til landsins. Var innflytjanda tilkynnt um að embættið liti svo á að með bréfi hans, dags. 23. september sl., væri ákvörðun um aðflutningsgjöld bifreiðarinnar kærð og því myndi embættið úrskurða í málinu. Innflytjanda var veittur frestur til að gera frekari grein fyrir sjónarmiðum sínum og framvísa gögnum sem máli kynnu að skipa. Frekari upplýsingar og gögn bárust með bréfi innflytjanda, dags. 24. nóvember sl.

III.

Í 8. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, er að finna þá meginreglu að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð hennar þ.e. það verð, sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöruna við sölu þeirra til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiðir af 9. gr. Um tollverð og tollverðsákvörðun gildir reglugerð nr. 374/1995, með síðari breytingum, en reglugerð þessi er sett með stoð í 10. gr. tollalaga, sbr. 4. gr. laga nr. 87/1995, svo og 148. gr. tollalaga. Grunnregla 8. gr. tollalaga er ítrekuð í 2. gr. tollverðsreglugerðarinnar, en þar kemur fram að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð hennar, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir hana með þeim leiðréttingum sem leiðir af ákvæðum 3. gr., að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði sem sett eru fyrir því að viðskiptaverð vöru sé lagt til grundvallar eru tilgreind í a.-e. lið 2. gr tollverðsreglugerðarinnar.

Í 4. tl. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987, kemur fram að heimilismunir manna sem flytjast búferlum hingað til lands skuli vera tollfrjálsir, enda hafi viðkomandi haft fasta búsetu erlendis í a.m.k. eitt ár áður en hann fluttist til landsins. Skýrt er tilgreint í 4. tl. 5. gr. að tollfrelsi samkvæmt þessum lið taki ekki til ökutækja eða annarra vélknúinna farartækja. Nánari útfærslu á umræddu lagaákvæði er að finna í 3. gr. reglugerðar nr. 797/2000 um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum. Þar segir í 1. mgr. 3. gr. að heimilismunir manna sem flytja búferlum hingað til lands skulu undanþegnir aðflutningsgjöldum að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Í 2. tl. 3. mgr. 3. gr. kemur fram að vélknúin ökutæki, svo sem bifreiðar, bifhjól, beltabifhjól, vélbátar, flugvélar og farartæki eins og seglbátar, svifflugur, svifdrekar o.þ.h. teljist ekki til heimilsmuna í skilningi 3. gr. reglugerðarinnar.

Í V. kafla reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun er að finna sérákvæði vegna innflutnings ökutækja. Í 23. gr. tollverðsreglugerðarinnar segir að flytji maður búferlum til landsins eftir að hafa verið búsettur erlendis í a.m.k. eitt næstliðið ár og hafi með sér ökutæki sem hefur verið í hans eigu það ár eða lengur, skal heimilt að fyrna verð ökutækisins samkvæmt framlögðum vörureikningi fyrir hvern byrjaðan mánuð frá dagsetningu vörureiknings og til komumánaðar flutningsfars. Skal fyrningarhlutfall á mánuði ráðast af aldri ökutækisins, í samræmi við ákvæði b-liðar 2. mgr. 21. gr. Heimild þessi tekur þó ekki til ökutækja að heildarþyngd þrjú tonn eða meira. Í 2. mgr. 23. gr. tollverðsreglugerðarinnar kemur síðan fram að leggi aðili skv. 1. mgr. ekki fram vörureikning við tollafgreiðslu ökutækis fer ákvörðun tollverðs eftir IV. kafla, sbr. 20. og 21. gr. reglugerðarinnar. Sé tollverð notaðs ökutækis ákvarðað skv. 21. gr. reglugerðarinnar, skal heimilt að fyrna líklegt fob-verð um 1,5% fyrir hvern byrjaðan mánuð í 12 mánuði og 1% fyrir hvern mánuð eftir það, þar til náð hefur verið 90% fyrningu, sem er hámarks fyrning.

IV.

Eins og að framan er rakið kemur fram í bréfum innflytjanda, dags. 23. september sl. og 24. nóvember sl., að innflytjandi hafi flutt til Íslands eftir að hafa búið um árabil á Spáni en ástæðan fyrir heimflutningi innflytjanda voru veikindi dóttur hans. Innflytjandi tilgreinir að bifreiðin Toyota Land Cruiser bifreið, árgerð 1997 hafi verið í hans eigu í níu mánuði áður en hún var flutt inn til landsins ásamt búslóðinni. Óskar innflytjandi þess að bifreiðin verði tollafgreidd sem hluti af búslóð sinni og ítrekar í því sambandi að bifreiðin hefði ekki verið flutt til landsins á þessum tíma ef ekki hefðu komið til óvænt og alvarleg veikindi nýfæddrar dóttur hans. Fer innflytjandi þess á leit við embættið að það taki hinar sérstöku og erfiðu aðstæður til athugunar og einnig vísar innflytjandi til þess að ekki sé um að ræða bílainnflutning í viðskiptalegum tilgangi.

Í 23. gr. reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og og tollverðsákvörðun eru tilgreind þau skilyrði sem nauðsynlegt er að séu uppfyllt til að unnt sé að tollafgreiða bifreið sem búslóðarbifreið. Þau grundvallarskilyrði sem að fram koma í 23. gr. eru að innflytjandi hafi verið búsettur erlendis í a.m.k. eitt næstliðið ár og að hann hafi með sér ökutæki sem hafi verið í hans eigu það ár eða lengur. Samkvæmt upplýsingum frá þjóðskrá var innflytjandi skráður með lögheimil á Spáni frá 1. maí 2003 til 1. júní 2004 og því er ljóst innflytjandi var búsettur erlendis í rúmlega eitt ár fyrir innflutning bifreiðarinnar. Reikningur nr. 32300 vegna kaupa á bifreiðinni Toyota Land Cruiser, BTB 1315, er útgefinn þann 20. nóvember 2003 og var bifreiðin flutt til landsins þann 27. maí 2004. Bifreiðin var því í eigu innflytjanda í sex mánuði áður en innflutningur hennar átti sér stað og því er skilyrði 23. gr. tollverðsreglugerðarinnar um að bifreiðin hafi verið í eigu innflytjanda a.m.k. eitt næstliðið ár áður en innflutningur á sér stað ekki uppfyllt.

Embættinu er ljóst að veikindi dóttur innflytjanda urðu til þess að búferlaflutningur til Íslands átti sér stað fyrr en áætlað hafði verið. Embættið gerir sér grein fyrir erfiðum aðstæðum innflytjanda vegna veikinda dóttur hans en þau lög og reglur sem gilda um búferlaflutninga, þ.m.t. búslóðarbifreiðar, eru skýr og ótvíræð. Til þess að unnt sé að tollafgreiða bifreið sem búslóðarbifreið verða skilyrði 23. gr. reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og og tollverðsákvörðun að vera uppfyllt. Hvergi í tollalögum nr. 55/1987, með síðari breytingum, eða reglugerð nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun, að finna heimild til þess að vikið verði frá skilyrðum 23. gr. tollverðsreglugerðarinnar. Tollstjóranum er því ekki unnt að heimila að bifreiðin X, sem er af gerðinni Toyota Land Cruiser, BTB 1315, árgerð 1997, verði tollafgreidd sem búslóðarbifreið.

V.

Með hliðsjón af öllu framansögðu er útreikningur aðflutningsgjalda sendingar U NOR 27 05 4 NO BGO 0142 byggður á viðskiptaverði bifreiðarinnar Toyota Land Cruiser, BTB 1315, árgerð 1997, skráningarnúmer X, sbr. 8. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum og 2. gr. reglugerðar nr. 374/1995 um tollverð og tollverðsákvörðun. Tollverð bifreiðarinnar ákveðst því kr. 1.132.867,00 og eru aðflutningsgjöld bifreiðarinnar að fjárhæð kr. 916.124,00.

Með hliðsjón af þeim erfiðu aðstæðum sem eru hjá innflytjanda heimilar embættið að leyfa greiðslu aðflutningsgjalda sendingar U NOR 27 05 4 NO BGO 0142 með skuldabréfi. Embættið vekur þó athygli á að skuldabréfinu þurfi að fylgja sjálfskuldarábyrgð banka eða sparisjóðs vegna greiðslu skuldar, vaxta og dráttarvaxta.

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík 17. desember 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum