Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 23/2010

Álagning aðflutningsgjalda á fatnað

4.10.2010

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 6. september 2010, hefur A, f.h. S, kært skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 álagningu aðflutningsgjalda á póstsendingar nr. P 150 01 09 0 IS B20 4513, P 150 01 09 0 IS B20 4514 og P 150 01 09 0 IS B20 4515. Kærandi krefst þess að aðflutningsgjöld vegna sendinganna verði felld niður, þar sem um notuð föt hafi verið að ræða og honum endurgreidd útlögð aðflutningsgjöld.

II. Málsmeðferð

Hin kærða tollafgreiðsla fór fram þann 3. september 2010. Um var að ræða þrjár sendingar sem innihéldu alls 10,7 kg. af fatnaði fyrir börn. Kærandi er skráður innflytjandi sendingar nr. P 150 01 09 0 IS B20 4515 en Þ er skráður viðtakandi sendinga nr. P 150 01 09 0 IS B20 4513 og P 150 01 09 0 IS B20 4514. Enginn vörureikningur fylgdi sendingunum. Fram fór verðmat á vörunni og aðflutningsgjöld voru ákvörðuð í samræmi við meðalverð þeirra samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Það verð var svo lækkað um helming. Tollverð varanna var þannig ákvarðað kr. 20.000.- Lagður var á 10% A-tollur að fjárhæð kr. 3.000.- og 25,5 % virðisaukaskattur að fjárhæð kr. 5.866.- Alls voru því lögð á aðflutningsgjöld að fjárhæð kr. 8.866.- auk þess sem Íslandspóstur innheimti tollmeðferðargjald að fjárhæð kr. 550.- Álagning tollmeðferðargjalds var hagað þannig að sendingar nr. P 150 01 09 0 IS B20 4513 og P 150 01 09 0 IS B20 4514 voru skráðar tollfrjálsar en heildarkostnaður vegna allra sendinganna lagður á sendingu nr. P 150 01 09 0 IS B20 4515 í því skyni að spara kæranda tollmeðferðargjald, sem er kr. 550.- fyrir hverja sendingu. Ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda var kærð með bréfi, dags. 6. september 2010, sem Þ skrifar einnig undir.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur að póstsendingarnar skuli vera undanþegnar aðflutningsgjöldum þar sem um hafi verið að ræða notaðan fatnað. Af þeim sökum beri að fella ákvörðun Tollstjóra um álagningu úr gildi og endurgreiða álögð gjöld.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða til eigin nota nema annað sé tekið fram í tollskrá, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins nema í sérstökum lögbundnum undantekningartilvikum. Um er að ræða gjaldskyldan varning samkvæmt ofangreindu enda eiga engar lögbundnar undantekningar við um andlag hinnar kærðu álagningar.

Álagningarstofn aðflutningsgjalda miðast við tollverð innfluttra vara. Tollverð innfluttra vara er viðskiptaverð þeirra, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins, sbr. 1. mgr. 14. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 2. mgr. 52. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru. Í framkvæmd er tollverð að öllu jöfnu ákvarðað út frá því verði sem greitt var fyrir vöruna skv. framlögðum vörureikningi. Verði tollverð hins vegar ekki ákvarðað á grundvelli viðskiptaverðs, skal það ákvarðað skv. 57. - 62. gr. reglugerðarinnar. Hið sama gildir þegar ekkert er greitt fyrir vöru eða þegar greiðsla fyrir vöru er einungis til málamynda, sbr. 3. málslið 2. mgr. 52. gr.

Hin innflutta vara er fatnaður án verðmerkinga sem send var til landsins án vörureiknings. Af því leiðir að ákvarða ber tollverð skv. þeim reglum sem fram koma í 57.-62. gr. reglugerðar nr. 1100/2006. Í dreifibréfi Tollstjóra frá 1. febrúar 2008 (þá tollstjórinn í Reykjavík), er að finna fyrirmæli um álagningu aðflutningsgjalda á matvæli og fatnað sem fólk hefur meðferðis við komu til landsins eða fær sent með pósti. Þar kemur fram að álagningarstofn tiltekinna vöruflokka skuli vera meðaltalsinnflutningsverð sambærilegrar vöru skv. upplýsingum Hagstofu Íslands. Skilyrðin eru þau að um sé að ræða innflutning utan atvinnurekstrar og að ekki sé hægt að ákvarða tollverð samkvæmt 1. mgr. 14. gr. tollalaga nr. 88/2005 eða beita verðákvörðunaðferðum 57.-61. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, en svo var ástatt um andlag hinnar kærðu álagningar. Í dreifibréfinu er að finna gjaldskrá sem byggir á ofangreindum fyrirmælum Tollstjóra um álagningarstofn, þ.e. meðaltalsinnflutningsverð innfluttra vara.

Sendingarnar þrjár innihéldu fatnað sem var alls 10,7 kg. en samkvæmt gjaldskrá dreifibréfs Tollstjóra frá 1. febrúar 2008 ber að leggja aðflutningsgjöld að fjárhæð kr. 745.- á hvert kíló af fatnaði. Bent skal á að um er að ræða meðaltalsverð sem ákvarðað var í byrjun árs 2008 og hefur ekki verið uppfært.

Með vísan til alls ofangreinds bar að leggja aðflutningsgjöld á fatnaðinn að fjárhæð kr. 7.972.-.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 að aðflutningsgjöld vegna sendinga með sendingarnúmer P 150 01 09 0 IS B20 4513, P 150 01 09 0 IS B20 4514 og P 150 01 09 0 IS B20 4515 skuli vera alls kr. 7.972.- Að öðru leiti er ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda, dags. 3. september 2010, staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum