Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 23/2012

Höfnun beiðni um niðurfellingu aðflutningsgjalda af gjöf

13.3.2013

Í dag var hjá Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með tölvupósti, dags. 28. nóvember 2012, hefur S kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra, dags. 12. október 2012, um höfnun niðurfellingar aðflutningsgjalda af vörusendingu nr. F 21326092 DK CPH 1818.

Kærandi krefst þess að álögð gjöld verði felld niður þar sem umrædd sending sé undanþegin aðflutningsgjöldum á grundvelli a-liðar 8. mgr. 6. gr. tollalaga og 1. mgr. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 26. september 2012 barst hingað til lands vörusending nr. F 21326092 DK CPH 1818 sem innihélt fjóra stóla. Skráður móttakandi var S en hún var einnig skráður sendandi vörunnar. Tilskilin gjöld vöru lögð á umrædda vöru við komu hingað til lands. Kærandi greiddi tilskilin gjöld og móttók sendinguna þann 17. október 2012. Ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda var kærð með tölvupósti kæranda, dags. 28. nóvember 2012.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi telur sig ekki eiga að greiða álögð aðflutningsgjöld af vöru vörusendingar nr. F 21326092 DK CPH 1818. Kærandi krefst þess að álögð gjöld verði felld niður þar sem umrædd sending sé undanþegin aðflutningsgjöldum á grundvelli a-liðar 8. mgr. 6. gr. tollalaga og 1. mgr. 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi.

Í kæru kemur fram að umrædd vara sé brúðkaupsgjöf til systur kæranda frá kæranda, systrum hennar og bræðrum auk vinafólks. Það sem legið hafi til grundvallar ákvörðunar Tollstjóra frá 12. október 2012 hafi m.a. verið að kærandi var skráður sendandi og viðtakandi vörunnar. Kærandi kveðst hafa séð um umsýslu stólanna fyrir hönd meðgefenda, þ.e. að finna stólana og fá nógu marga meðgefendur til að taka þátt í kaupunum. Til að forða systur sinni frá vandræðum við að fá stólana leysta út hafi sendingin verið stíluð á kæranda en hún sé þó ekki sendandi vörunnar. Það sé X, einn meðgefandi, en varan hafi þó verið greidd með visa-korti A, annar meðgefandi, og aðrir meðgefendur svo borgað honum síðar. Í kærunni eru allir níu meðgefendur brúðkaupsgjafarinnar tilgreindir og þá fylgir henni yfirlýsing frá Á, systur kæranda, þess efnis að hún og eiginmaður hennar hafi fengið umrædda stóla í brúðkaupsgjöf frá fjölskyldu sinni og vinum á brúðkaupsdag þeirra hjóna þann 16. júní 2012. Að lokum óskar kærandi þess að ákvörðun Tollstjóra frá 12. október 2012 sé endurskoðuð á grundvelli þess að X sé meðgefandi í brúðkaupsgjöfinni.

Með tölvupósti, dags. 19. desember 2012, óskaði Tollstjóri eftir frekari gögnum og rökstuðningi til stuðnings kröfu kæranda. Þar var m.a. óskað eftir gögnum er styddu fullyrðingar kæranda þess efnis að hún væri ekki sendandi umræddrar vöru heldur X. Gögn málsins, t.d. flugfarmbréf Icelandair og tilkynning um komu vöru frá Icelandair Cargo, báru það hins vegar með sér að kærandi hafi bæði verið sendandi og móttakandi vörunnar. Var kæranda veittur frestur til 28. desember 2012 til að skila inn umræddum gögnum. Þar sem engin gögn bárust fyrir umræddan frest ítrekaði Tollstjóri umrædda beiðni þann 17. janúar 2013 og aftur þann 20. febrúar 2013, eftir að hafa rætt við kæranda í síma nokkrum dögum áður. Var kærandi upplýstur um að ef gögnum yrði ekki skilað yrði úrskurðað á grundvelli fyrirliggjandi gagna Ekkert svar hefur enn borist frá kæranda og er því úrskurðað á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu.

IV. Niðurstöður

Í 3. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, er kveðið á um almenna tollskyldu, þ.e. að hver sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum tollalaga er tollskyldur og skal greiða toll af hinni innfluttu vöru, nema annað sé tekið fram í tollskrá. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins.

Í a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 er kveðið á um undanþágu frá almennri tollskyldu þegar um gjafir er að ræða. Undanþágan er nánar útfærð í 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Til að þessi undanþáguheimild hafi gildi þurfa skilyrði áðurnefndra greina að vera uppfyllt en þau ber að túlka þröngt líkt og aðrar undanþágur frá almennri tollskyldu. Skilyrði ofangreindrar undanþágu er að um gjöf af sérstöku tilefni sé að ræða. Gjafir vegna afmælis, brúðkaups, jóla eða fermingar teljast meðal annars vera gjafir af sérstöku tilefni í þessu samhengi. Sending þarf einnig að bera það með sér að um sé að ræða gjöf frá gefanda búsettum erlendis og að tengsl séu milli hans og þess sem gjöfina fær. Þá má verðmæti gjafa ekki vera meira en 10.000 kr. Sé verðmæti gjafar meira en 10.000 kr. skal gjöf þó einungis tollskyld að því marki sem hún er umfram þá fjárhæð að verðmæti. Brúðkaupsgjafir eru undanþegnar aðflutningsgjöldum án tillits til verðmætismarkanna, enda séu þær eðlilegar og hæfilegar að mati Tollstjóra og fluttar inn eigi síðar en 6 mánuðum frá brúðkaupi.

Ágreiningur í máli þessu stendur í raun aðeins um það hvort tilgreind sending innihaldi gjöf sem send hafi verið hingað til lands af aðila búsettum erlendis en líkt og skýrt er kveðið á um í a-lið 8. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008 er það skilyrði fyrir undanþágu frá almennri tollskyldu. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að tilgreind sending hafi verið send hingað til lands frá aðila búsettum erlendis. Gögn málsins, t.d. flugfarmbréf Icelandair og tilkynning um komu vöru frá Icelandair Cargo, bera það hins vegar með sér að kærandi hafi bæði verið sendandi og móttakandi vörunnar en kærandi er búsettur hér á landi. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir um gögn er styddu annað hefur kærandi ekki orðið við því. Þá þykir rétt að benda á að samkvæmt kæranda eru meðgefendur umræddrar brúðkaupsgjafar níu einstaklingar. Af þessum níu einstaklingum eru átta þeirra búsettir á Íslandi og því ljóst að umrætt undanþáguákvæði á ekki við.

Með vísan til alls ofangreinds teljast skilyrði til niðurfellingar aðflutningsgjalda, skv. a-lið 1. mgr. 6. gr. tollalaga, sbr. 32. gr. reglugerðar nr. 680/2008, af vöru í sendingu nr. F 21326092 DK CPH 1818 ekki uppfyllt.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar, skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan að ákvörðun um höfnun á niðurfellingu aðflutningsgjalda af sendingu nr. F 21326092 DK CPH 1818 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum