Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 3/2003.

Álagningar vörugjalds á hópferðabifreið

22.1.2003

Embætti tollstjórans í Reykjavík móttók erindi innflytjanda, dags. 17. janúar sl., er laut að greiðslu vörugjalds af hópferðabifreiðinni X. Leit embættið svo á að innflytjandi væri að kæra ákvörðun embættisins um hækkun vörugjalds.

Við tollafgreiðslu bifreiðarinnar 26. apríl 2001 var greitt 20% vörugjald af bifreiðinni í samræmi við 4. tl. 4. gr. reglugerðar nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum, með síðari breytingum. Var bifreiðin nýskráð sem sendibifreið þann 2. maí 2001 og vörugjald greitt af henni samkvæmt þeirri skráningu. Þann 22. október 2002 var skráningu bifreiðarinnar breytt í að vera hópferðabifreið fyrir 10 manns. Samkvæmt 5. tl. 4. gr. sömu reglugerðar skal greiða 30% vörugjald af hópferðabifreiðum sem skráðar eru fyrir 10-17 manns að meðtöldum ökumanni. Með vísan til þessa og 3. tl. 1. mgr. 8. gr., þar sem segir að eigendur ökutækja séu gjaldskyldir vegna innlendrar framleiðslu og aðvinnslu ef ökutæki þeirra hækka um gjaldflokk við aðvinnslu fyrir nýskráningu eða við breytingu innan fimm ára frá nýskráningardegi, hóf embættið að innheimta þessa vörugjaldshækkun.

Í 6. tl. 1. mgr. 19. gr. fyrrgreindrar reglugerðar er heimild til að lækka vörugjald í 5% af hópferðabifreiðum sem eru skráðar fyrir 10-17 manns að meðtöldum ökumanni og eru í eigu hópferða- eða sérleyfishafa eða í eignarleigu vegna eignarleigusamnings við hópferða- eða sérleyfishafa. Ekki skal þó lækka eða fella niður vörugjald samkvæmt ákvæði þessu nema sótt sé um eftirgjöf fyrir nýskráningu eða í beinum tengslum við hana, sbr. 5. mgr. 21. gr. Ljóst er því að þér getið ekki fengið vörugjaldið á umræddri bifreið lækkað niður í 5%.

Í erindi innflytjanda er ekki farið fram á lækkun vörugjalds niður í 5% og þar með endurgreiðslu á þegar greiddu vörugjaldi, heldur að embættið hætti við innheimtu á mismuni greidds 20% vörugjalds og endurálagðs 30% vörugjalds.

Með vísan til framangreinds og þess að ekki er lengur hægt að sækja um lækkun á vörugjaldi umræddrar bifreiðar, hefur embættið ekki heimild til þess að falla frá innheimtu 30% vörugjalds af umræddri bifreið. Greiðsluskylda hvílir á innflytjanda skv. áðurgreindu ákvæði 8. gr. reglugerðarinnar.

Úrskurði þessum er hægt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi þessa bréfs, sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 331/2000 og 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík 22. janúar 2003

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum