Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 3/2004.

Endurgreiðslu eftirgjafar vörugjalds af bifreiðunum

4.2.2004

Með bréfi embættis tollstjórans í Reykjavík, dags. 27. nóvember 2003, var fyrirtækið S, krafið um greiðslu vörugjalda af bifreiðunum X og Y þar sem ekki var talið að uppfyllt hefðu verið skilyrði kvaðar vegna eftirgjafar vörugjalds af bifreiðunum. Ástæðan var sú að ekki var unnt að gera grein fyrir a.m.k. 90% akstri hverrar bifreiðar með framlagningu leigusamninga viðkomandi bílaleigu eða með öðrum hætti en það er eitt af skilyrðum undanþágu sbr. 4. tl. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum með síðari breytingum.

Embættið móttók erindi S dags. 10. desember 2003 og 8. janúar 2004, varðandi umrædda eftirgjöf og var litið svo á að kærð væri til úrskurðar ákvörðun tollstjóra frá 27. nóvember 2003.

Málavextir höfðu áður verið raktir í bréfi embættisins frá 27. nóvember sl. en voru raktir að nýju:

Samkvæmt framlögðum gögnum höfðu bifreiðarnar X og Y, verið nýttar til útleigu hjá bílaleigunni Á. Höfðu því skilyrði eftirgjafar vörugjalds verið brotin sbr. 4. tl 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum með síðari breytingum.

Skv. framlögðum gögnum bílaleigunnar var notkun bifreiðanna sem hér segir:

X: Skv. gögnum frá bílaleigunni var bifreiðin ekin 43.340 km. við lok 18 mánaða tímabilsins. Lagðir hafa verið fram af hálfu bílaleigunnar, leigusamningar upp á 35.392 km, sem eru 81% af notkun bifreiðarinnar. Ekki er hægt að taka til greina leigusamninga frá bílaleigunni Á, þar sem eingöngu mátti nýta bifreiðina til útleigu hjá viðkomandi bílaleigu.

Y: Skv. gögnum frá bílaleigunni var bifreiðin ekin 42.975 km við lok 18 mánaða tímabilsins. Lagðir hafa verið fram af hálfu bílaleigunnar, leigusamningar upp á 29.882 km, sem eru 70% af notkun bifreiðarinnar. Ekki er hægt að taka til greina leigusamninga frá bílaleigunni Á, þar sem eingöngu mátti nýta bifreiðina til útleigu hjá viðkomandi bílaleigu.

Á bifreiðunum X og Y hvíla kvaðir um endurgreiðslu eftirgefins vörugjalds, skv. lögum nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með síðari breytingum, og reglugerð nr. 331/2000, um vörugjald af ökutækjum og voru yfirlýsingar þess efnis undirritaðar f.h. bílaleigunnar S þ. 8. nóvember 2001. Yfirlýsingarnar fela í sér skuldbindingu þess efnis að eftirgjöf vörugjalds sé m.a. bundin því skilyrði að “bifreið skal eingöngu nýtt til útleigu hjá viðkomandi bílaleigu. Við mat á því skal miðað við að unnt sé að gera grein fyrir a.m.k. 90% af akstri hennar með framlagningu leigusamninga eða með öðrum hætti sem tollstjóri metur fullnægjandi.” sbr. 4. tl. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum.

Lagðir hafa verið fram leigusamningar af hálfu S upp á 35.392 km eða 81% af notkun bifreiðarinnar X og leigusamningar upp á 29.882 km, sem eru 70% af notkun bifreiðarinnar Y. Óumdeilt er að bifreiðarnar X og Y voru leigðar út í nafni bílaleigunnar Á. Voru bifreiðarnar því ekki eingöngu nýttar til útleigu hjá viðkomandi bílaleigu. Þar með hafa skilyrði 4. tl. 14. gr. reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum, fyrir eftirgjöf vörugjalds verið brotin. Skilyrði ofangreindrar reglugerðar eru mjög skýr og ljóst er að löggjöfin tekur ekki tillit til huglægra þátta s.s. alvöru brotsins, brotavilja, tilgangs o.s.frv. og verður því að hafna beiðni þinni um að tekið verði tillit til þess að reglur hafi ekki verið vísvitandi brotnar.

Rík skylda hvílir á forsvarsmönnum/manni þeirrar bílaleigu er í hlut á að kynna sér skilyrði eftirgjafar vörugjalds. Sérstaklega þegar litið er til þess að skilyrði eftirgjafarinnar koma einnig mjög skýrt fram í yfirlýsingum þeim, er hvíla á viðkomandi bifreiðum og undirritaðar eru fyrir hönd viðkomandi bílaleigu. Í yfirlýsingunum kemur einnig skýrt fram, að verði skilyrðum eftirgjafarinnar ekki uppfyllt, skuldbindur viðkomandi bílaleiga sig til að greiða mismun á fjárhæð vörugjalds sem greitt var og þeirri fjárhæð sem borið hefði að greiða ef ekki hefði komið til lækkunar eða niðurfellingar. Einnig er ljóst að lögveð er í viðkomandi ökutæki fyrir ógreiddu vörugjaldi skv.3. mgr. 11. gr. tollalaga nr. 55/1987, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 29/1993.

Hefur tollstjóraembættið ekki heimild til að víkja frá skilyrðum laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með síðari breytingum né reglugerðar nr. 331/2000 um vörugjald af ökutækjum.

Athygli skal vakin á því að tollstjóraembættið hefur heimild til að innheimta ógreitt vörugjald ásamt 50% álagi og jafnframt svipta hina brotlegu bílaleigu rétt til lækkunar vörugjalds skv. 14. gr. í 3 ár, sbr. 2. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 331/2000. Hefur tollstjóraembættið ákveðið í ljósi aðstæðna að innheimta aðeins eftirgefið vörugjald auk dráttarvaxta.

Hvað varðar fullyrðingar um að veittar hafi verið rangar upplýsingar af hálfu embættisins varðandi leigu til annarra bílaleiga hafnar embættið því alfarið að rangar upplýsingar hafi verið veittar. Reglum reglugerðar nr. 331/2000 hefur ekkert verið breytt frá setningu þeirra varðandi þann þátt að bifreið skuli eingöngu nýtt til útleigu hjá viðkomandi bílaleigu enda kemur það skýrt fram í yfirlýsingu vegna eftirgjafar kvaðar. Hvað varðar fyrirspurn þína hvort það séu stöðluð vinnubrögð að kalla inn alla samninga vegna allra bíla sem fengið hafa undanþágu vörugjalda til skoðunar þá er það til svars að það eru stöðluð vinnubrögð að kalla eftir samningum, þó ekki sé það gert í öllum tilfellum, enda er það eitt af skilyrðum eftirgjafar að tollstjóri geti óskað eftir gögnum án fyrirvara.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að ákvörðun um greiðslu eftirgefins vörugjalds af bifreiðunum X og Y skuli standa óbreytt.

Þess er hér með krafist að eftirgefið vörugjald af bifreiðunum verði greitt.

 

Af bifreiðinni X: 

 
 Vörugjald253.742,00 kr. 
 Virðisaukaskattur 62.167,00 kr.
 Samtals 315.909,00 kr.

 Af bifreiðinni Y:

 

 Vörugjald

253,743,00 kr. 

 Virðisaukaskattur

 62.167,00 kr.

 Samtals

 315.910,00 kr.


Að öðrum kosti verður gengið að lögveði tollstjóra í ökutækjunum fyrir ógreiddu vörugjaldi, dráttarvöxtum og kostnaði, skv. 3. mgr. 111. gr. tollalaga, sbr. og 1. mgr.

27. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum. Um álagningu dráttarvaxta fer eftir 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 4. febrúar 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum