Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 3/2013

Álagning aðflutningsgjalda á sjónvarpstæki, sem var flutt til landsins sem hluti af búslóð

26.3.2013

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2013, móttekið þann 25. febrúar 2013, hefur A kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, álagningu aðflutningsgjalda af sjónvarpstæki, sem flutt var sem hluti af búslóð frá Noregi til Íslands í desember 2012.

Kærandi krefst þess að greidd aðflutningsgjöld verði endurgreidd og að reglur um tollfrjálsan varning taki til umræddrar vöru á grundvelli 4. tl. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 3. tl.

16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Þann 25. desember 2012 kom hingað til lands með Eimskip sending kæranda nr. E DET 25 12 2 FO THO W058 frá Noregi. Sendingin innihélt búslóð kæranda en kærandi flutti lögheimili sitt til Íslands þann 12. júlí 2012. Nýtt sjónvarpstæki, keypt þann 25. nóvember 2012 í Noregi, var hluti af sendingunni. Sjónvarpið var að verðmæti 5.995 NOK (4.796 x 25% VSK) eða 137.022 ISK miðað við tollgengi 22,856 sem var tollgengi við tollafgreiðslu þann 28. desember 2012. Aðflutningsgjöld að fjárhæð 105.407 kr., voru lögð á sjónvarpstækið við komu hingað til lands. Kærandi greiddi gjöldin og móttók vöruna þann 28. desember 2012. Ákvörðun Tollstjóra um álagningu aðflutningsgjalda á sjónvarpstækið var kærð með bréfi kæranda dags. 10. febrúar 2013 sem móttekið var þann 25. febrúar 2013.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi tekur fram að ekki hafi verið reynt að leyna því á nokkurn hátt að um væri að ræða nýlegt sjónvarp því kvittunin hafi verið var meðferðis og sýnd tollafgreiðslumönnum. Kærandi telur, eftir að hafa kynnt sér reglur 16 gr. reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi, að heimilt sé að flytja inn ónotaða búslóðarmuni tollfrjálst, sé verðmæti þeirra innan ákveðinna tilgreindra marka. Kærandi vísar í 3 tl. 1. mgr. 16.gr. reglugerðar nr. 630/2008 þar sem vísað er í undanþágu um ónotaða búslóðarmuni sem viðkomandi hafi átt í skemmri tíma og að verðmæti þeirra sé eigi meira en kr. 140.000.- Fjárhæðin gildi fyrir hvern fjölskyldumeðlim 18 ára og eldri en sé helmingi lægri fyrir þá sem yngri eru. Kærandi telur sig hafa uppfyllt öll skilyrði laga um fasta búsetu erlendis, skráningu lögheimilis á Íslandi, verðmæti ónotaðra búslóðarmuna í eigu kæranda til skemmri tíma og flutning búslóðar innan 6 mánaða frá flutningi lögheimilis, sbr. 4. tl. 1. mgr. 6 gr. laga nr. 88/2005, og 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008 og gerir þá kröfu að greidd aðflutningsgjöld af sjónvarpstækinu verði endurgreidd án tafar.

IV. Niðurstöður

Almenn tollskylda hvílir á hverjum þeim sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Af vörum, sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, skal greiða toll eins og mælt er fyrir í tollskrá, sbr. 5. gr. tollalaga nr. 88/2005. Meginreglan er því sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins. Undantekningar frá þessari meginreglunni er m.a. að finna í 1. mgr. 6 gr. tollalaga nr. 88/2005 en samkvæmt 4. tl. eru búslóðir þeirra sem flytjast búferlum hingað til lands tollfrjálsar enda hafi viðkomandi haft fasta búsetu erlendis a.m.k. eitt ár áður en flust var til landsins. Ráðherra getur með reglugerð takmarkað niðurfellingu samkvæmt þessum lið við notkun, vöruflokka eða hámarksverð að teknu tilliti til dvalartíma erlendis, fjölskyldustærðar og annarra aðstæðna.

Í II. kafla reglugerðar nr. 630/2008 um ýmis tollfríðindi er hugtakið búslóð skilgreint og fram koma upplýsingar um almenn skilyrði sem innflytjandi búslóðar þarf að uppfylla til að njóta tollfrelsis fyrir innflutta búslóð. Samkvæmt 15. gr. reglugerðarinnar teljast til búslóða í þessu sambandi m.a. hvers kyns hreyfanlegir innanstokksmunir og húsbúnaður, húsgögn, búsáhöld og heimilistæki, útvarps- og sjónvarpstæki og aðrir heimilismunir, sem tollfrjálsir eru við búferlaflutninga.

Almenn skilyrði tollfrelsis búslóða eru talin upp í 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Þar kemur fram að tollfrelsi búslóða sé m.a. háð þeim skilyrðum að innflytjandi og aðrir rétthafar tollfríðindanna, sem taka sér bólfestu hér á landi, verði með skráð lögheimili í landinu í samræmi við lög um lögheimili. Innflytjandi þarf einnig að hafa haft fasta búsetu erlendis a.m.k. samfellt í eitt næstliðið ár fyrir búferlaflutning til landsins. Jafnframt er sett um það skilyrði að búslóðarmunir séu notaðir, hafi verið í eigu innflytjanda og fjölskyldu hans eigi skemur en í eitt ár og eingöngu ætlaðir til nota við heimilishald viðkomandi hérlendis. Undanþága tekur þó til ónotaðra búslóðarmuna og búslóðarmuna sem viðkomandi hefur átt í skemmri tíma og ætlar að nota hér á landi, enda sé verðmæti þeirra eigi meira en kr. 140.000.- miðað við smásöluverð á innkaupsstað, sbr. 3. tl. 1. mgr. 16.gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt

4. tl. 1. mgr. 16. gr reglugerðarinnar er skilyrði að viðkomandi skuli hafa búslóðina með sér þegar hann flytur búferlum til landsins eða flytji hana til landsins eigi síðar en innan 6 mánaða frá því að hann tók sér bólfestu hér á landi eða öðlaðist hér lögheimili.

Ágreiningur í máli þessu snýst fyrst og fremst um það hvort umrædd vara geti talist til undanþágu ónotaðra búslóðarmuna, sem viðkomandi hefur átt í skemmri tíma og ætlar að nota hér á landi, sbr. 3. tl. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Framangreind skilyrði eru sett fyrir tollfrelsi búslóða og þurfa skilyrði fyrir undanþágu að vera tvímælalaust uppfyllt. Þar sem í þessu máli er um að ræða undanþágu frá greiðslu lögbundinna gjalda er ákvæðið háð þröngri túlkun. Embætti Tollstjóra telur það ekki samræmast tilgangi ofangreinds ákvæðis og undanþágu um tollfríðindi búslóða að einstaklingur geti nýtt sér þau til að versla nýja búslóðarmuni á þeim tíma sem lögheimilsflutningur einstaklings hingað til lands hefur farið fram. Þessu til stuðnings er vísað til úrskurðar ríkistollanefndar nr. 2/2012 þar sem ríkistollanefnd komst að sömu niðurstöðu í sambærilegu máli. Flutningur lögheimilis kæranda í því máli sem hér um ræðir fór fram 12. júlí 2012 og telst kærandi samkvæmt því vera búsettur á Íslandi eftir það tímamark. Samkvæmt reikningi er sú vara sem ágreiningur stendur um keypt þann 25. nóvember 2012, eða rúmlega fjórum mánuðum eftir lögheimilisflutning. Lögheimilisflutningur var því búinn að eiga sér stað þegar umræddur nýr búslóðarmunur var keyptur í Noregi. Embætti Tollstjóra getur því ekki fallist á að umrædd vara falli undir ákvæði 3. tl. 16. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117 gr. tollalaga nr. 88/2005, með vísan til þess sem rakið er hér að framan, að ákvörðun um álagningu aðflutningsgjalda á sjónvarpstæki sem flutt var inn sem hluti af búslóð á sendingu nr. E DET 25 12 2 FO THO W058 er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 101 Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum