Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 3/2014

Álagning vörugjalds á vörubifreið undir 5.000 kg.

20.6.2014

Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi, dags. 19. maí sl., hefur X lögmannsþjónusta, f.h. B, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra dags. 14. apríl 2014 um álagningu vörugjalds á vörubifreið af gerðinni Mercedes Benz Sprinter.

Kærandi fer fram á leiðréttingu álagðra gjalda.

II. Málsmeðferð

Þann 7. apríl 2014 barst hingað til lands sending nr. E BRU 07 04 4 DE HAM W101, sem innihélt bifreið af gerðinni Mercedes Benz Sprinter. Sendingin fékk SMT- tollafgreiðslu, þar sem aðflutningsskýrsla var send með rafrænum hætti. Aðflutningsskýrsla dags. 11. apríl sl., sem send var inn af tollmiðlara kæranda, fékk athugasemd eftir endurskoðun Tollstjóra um að umrædd bifreið skyldi tollflokkast eftir skráðri koltvísýringslosun þar sem bifreiðin væri ekki yfir 5.000 kg. að heildarþyngd. Tollmiðlari kæranda leiðrétti skýrsluna sama dag og sendi hana aftur til Tollstjóra sem samþykkti hana. Leiðrétting fól í sér að bifreiðin fór úr tollskrárnúmeri 8704.3229 yfir í tollskrárnúmer 8704.2140.

Kæra vegna ofangreindrar ákvörðunar Tollstjóra barst embættinu þann 20. maí 2014.


III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi byggir kröfu sína um undanþágu á greiðslu vörugjalda á ákvæði b- liðar 1. tl. 4. gr. laga nr. 29/1993 um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Kærandi telur að túlka verði ákvæðið í samræmi við markmiðið með ákvæðinu, sem er að afnema undanþágur frá vörugjaldi af bifreiðum sem ekki eru aðallega notaðar til vöruflutninga í atvinnurekstri. Vísar kærandi í þessu sambandi til athugasemda með 2. gr. frumvarps til laga nr. 156/2010, sem er núgildandi 4. gr. laga nr. 29/1993.

Kærandi telur að með breytingarlögum nr. 156/2010 hafi ekki verið ætlunin að afnema undanþágur fyrir ökutæki ætluð til vöruflutninga sem eru nákvæmlega 5.000 kg. að heildarþyngd, en veita undanþágu eða afslátt fyrir ökutæki sem eru annað hvort undir þeirri þyngd eða yfir. Telur kærandi það vera ótæka túlkun. Nærtækara sé að líta svo á að ætlunin hafi verið að gera greinarmun á stórum vörubifreiðum, sendibifreið, fólksbíl eða pallbíl. Með hliðsjón að framangreindu verði því að fella niður vörugjald af vörubifreið kæranda, en til vara byggir kærandi á því að fella skuli bifreið hans undir g- lið 2. tl. 4. gr. laga nr. 29/1993 sem ber 13% vörugjald, með lögjöfnun og leiðrétta álagninguna í samræmi við það.

Þá vísar kærandi til jafnræðisreglu stjórnarskrár lýðveldis Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi heldur því fram að sambærilegar vörubifreiðar, með sömu heildarþyngd, hafi verið veitt undanþága frá vörugjöldum. Þannig hafi Mercedes Benz Sprinter bifreið að heildarþyngd 5.000 kg., verið veitt undanþága frá vörugjöldum. Samkvæmt jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og stjórnsýslulaga verði að leysa úr sambærilegum tilvikum með sambærilegum hætti. Hafi sams konar bifreiðum og vörubifreið kæranda verið veitt undanþága frá vörugjöldum, sé um að ræða skýrt brot á jafnræðisreglunni, verði slík undanþága ekki einnig veitt kæranda.

Kærandi telur að einungis sé heimilt að víkja frá stjórnsýsluframkvæmd sé það gert með tilteknum hætti og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og vísar í því sambandi til réttmætra væntinga sem hann mátti hafa til tollafgreiðslu umræddrar bifreiðar. Kærandi telur að réttmætar væntingar hans grundvallist af almennum reglum stjórnsýsluréttar, skráðra og óskráðra, sem styðjast við sjónarmið um réttaröryggi, fyrirsjáanleika og stöðugleika í stjórnsýslu, sem og vandaðra stjórnsýsluhátta. Þá telur kærandi að í ljósi fyrri framkvæmdar hjá Tollstjóra, þar sem sambærileg bifreið og umrædd vörubifreið hafi verið veitt undanþága frá greiðslu vörugjalda, hafi hann haft réttmætar væntingar til þess að njóta einnig undanþágu frá greiðslu vörugjalda.

Kærandi fer fram á að vörugjöld verði felld niður og útreikningur virðisaukaskatts leiðréttur til samræmis við það. Til vara byggir kærandi á því að lækka verði vörugjöldin niður í 13%, sbr. 2. tl. 4. gr. laga nr. 29/1993 og virðisaukaskattur leiðréttur til samræmis við það.

IV. Niðurstöður

Greiða skal í ríkissjóð vörugjald af ökutækjum sem skráningarskyld eru skv. umferðarlögum nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Gjaldskyldan nær til allra skráningarskyldra ökutækja, nýrra sem notaðra, sem flutt eru til landsins eða eru framleidd, unnið að eða sett saman hér á landi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. tollalaga, nr. 88/2005 skulu innflytjendur færa vöru til tollflokks í viðeigandi tollskjölum í samræmi við almennar reglur um túlkun tollskrárinnar sem birtar eru í viðauka I við tollalögin. Reglurnar eru birtar fremst í tollskránni, en einnig er að finna athugasemdir í byrjun hvers flokks og kafla skrárinnar sem ráða túlkun hverju sinni. Tollflokkun skal byggð á orðalagi vöruliða og athugasemda við viðeigandi flokka og kafla samkvæmt túlkunarreglu 1. Þá segir í 1. málslið reglunnar að fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum séu einungis til leiðbeiningar. Flokkun vara í undirliði einstakra vöruliða skal jafnframt byggð á orðalagi vöruliða, undirliða og sérhverri tilheyrandi athugasemd við þá í viðeigandi köflum tollskrárinnar skv. túlkunarreglu 6. Við tollflokkun bifreiðarinnar var farið eftir áðurnefndum reglum um túlkun tollskrárinnar.

Bifreið kæranda flokkast í tollskrárnúmer 8704.2140 sem ökutæki til vöruflutninga með skráða koltvísýringslosun yfir 250 g/km. Í kafla 87 í tollskránni fara m.a. ökutæki sem eru ætluð til vöruflutninga. Vöruliðurinn sem hér um ræðir tekur til ökutækja sem eru 5 tonn að heildarþyngd eða minna. Með vísan til upplýsinga úr ökutækjaskrá er bifreiðin 5.000 kg. að heildarþyngd og því flokkast hún í áðurgreint tollskrárnúmer. Við tollskrárnúmerið hanga ákveðin gjöld og bera vörur í tnr. 8704.2140 m.a. 65% vörugjald og 25,5% virðisaukaskatt. Vörugjaldsstofninn endurspeglast í lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Þannig er samkvæmt 3. gr. laganna vörugjald lagt á fólksbifreiðar og önnur vélknúin ökutæki, sem ekki eru sérstaklega tilgreind í 4. og 5. gr., miðað við skráða losun koltvísýrings viðkomandi ökutækis, mælt í grömmum á hvern ekinn kílómetra.

Kærandi telur að um ofangreint ökutæki skuli fara eftir ákvæði b- liðar 1. tl. 1. mgr. 4. gr. fyrrgreindra laga, en þar segir að ökutæki sem aðallega eru ætluð til vöruflutninga og eru yfir 5 tonn að heildarþyngd skuli undanþegin vörugjaldi. Með vísan til áðurgreindra raka um tollflokkun bifreiðarinnar þá hafnar Tollstjóri þessum rökum kæranda. Skýrt er kveðið á um bifreiðar sem eru 5 tonn að heildarþyngd eða minna skuli tollflokkast eftir skráðri losun koltvísýrings. Einnig má benda á orðalag ákvæðis laganna sem tiltekur sérstaklega bifreiðar sem eru yfir 5 tonn að heildarþyngd. Ekki er hægt að leggja annan skilning í ákvæðið en að það taki til bifreiða sem eru umfram 5.000 kg. að heildarþyngd, en taki ekki til ökutækja ætluð til vöruflutninga sem eru í þeirri þyngd eða undir henni. Orðalag bæði laganna og tollskrárinnar er skýrt og gefur ekki færi á annarri túlkun.

Kærandi heldur því fram að aðrar sambærilegar vörubifreiðar hafi fengið undanþágu frá greiðslu vörugjalda. Vísar kærandi í því sambandi til ákveðinnar bifreiðar sem er sambærileg bifreið kæranda sem undanþegin var álagningu vörugjalds. Embætti Tollstjóra vill í þessu sambandi taka fram að hafi röng framkvæmd verið viðhöfð í sambærilegum málum þá réttlæti það ekki áframhaldandi ranga framkvæmd. Því er rökum kæranda um brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar sem og um réttmætar væntingar kæranda hafnað. Leiði skoðun í ljós að sambærilegar bifreiðar hafi í einhverjum tilvikum hlotið ranga tollafgreiðslu verður tollafgreiðslan tekin til endurskoðunar, sbr. 111. gr. tollalaga.

Varakrafa kæranda lítur að því að um ofangreinda bifreið skuli fara eftir ákvæði g- liðar 2. tl. 4. gr. laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. Embætti Tollstjóra hafnar þeirri kröfu kæranda með vísan til áður framkominna raka. Bifreiðin skal réttilega tollflokkast í tnr. 8704.2140 og af því leiða álögð aðflutningsgjöld. Um gjaldtöku vörugjalds af bifreiðinni fer eftir skráðri losun koltvísýrings, sbr. 3. gr. laganna.

Með vísan til ofangreinds teljast skilyrði til niðurfellingar vörugjalda af bifreið af gerðinni Mercedes Benz Sprinter , ekki uppfyllt. Ákvörðun um álagningu vörugjalds er því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um álagningu vörugjalds á vörubifreið er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Bríetartúni 7, Reykjavík, innan 60 daga frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 118. gr. tollalaga.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum