Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 3/2017

Tollflokkun Mercedes Benz Sprinter bifreiðar

22.2.2017

Reifun

Kærð var til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra dags. 3. nóvember 2016 um tollflokkun á bifreiðinni Mercedes Benz Sprinter 316 CDI. Kærandi mótmælir því að bifreiðin skuli flokkast sem fólksbíll eftir losun koltvísýrings í tollskrárnúmer 8703.3230. Um sé að ræða sendibifreið sem skuli flokkast í tollskrárnúmer 8704.2199.

Niðurstaða: Bifreiðin er þannig útbúin að hún getur flutt einn ökumann og sex farþega. Einnig er rúmt vöruflutningarými sem er sambyggt stýrishúsinu en aðskilið með varanlegu skilrúmi fyrir aftan fjögurra manna sætisröð sem er fyrir aftan ökumann og tvö sæti eru við hlið ökumanns. Ekki er skilrúm fyrir aftan ökumann. Farþegarýmið er um 230 cm langt og vöruflutningarýmið er um 170 cm langt. Þá er burðargeta bifreiðarinnar um 1.242 kg. Tollstjóri telur ljóst að bifreiðin er ætluð til að ferja bæði farþega og varning. Bifreiðin gæti til að mynda hentað til að flytja vinnuhópa ásamt verkfærum og farangri þeirra til vinnu.

Til skoðunar á tollflokkun umræddrar bifreiðar koma til greina tveir vöruliðir, þ.e. nr. 8703 þar sem fólksflutningabifreiðar falla undir, og nr. 8704, þar sem vöruflutningabifreiðar flokkast. Kærandi fer fram á að bifreiðin sé tollflokkuð sem sendibifreið í vörulið 8704, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 8704.2199.

Í skýringabókum alþjóðatollastofnunarinnar er að finna fimm atriði sem gefa til kynna hvort bifreið sé sendibifreið eða bifreið aðallega gerð til mannflutninga. Bifreið kæranda uppfyllti 4 af 5 skilyrðum fyrir því að teljast vera aðallega gerð til mannflutninga og flokkast því í tollskrárnúmer 8703. Var hin kærða ákvörðun staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 16. desember 2016, hefur X, f.h. G, kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005 ákvörðun Tollstjóra dags. 3. nóvember 2016 um tollflokkun á bifreiðinni Mercedes Benz Sprinter 316 CDI með forskráningarnúmerið Y.

Kærandi mótmælir því að bifreiðin skuli flokkast sem fólksbíll eftir losun koltvísýrings. Um sé að ræða sendibifreið sem skuli flokkast í tollskrárnúmer 8704.2199.

II. Málsmeðferð

Þann 11. október 2016 flutti kærandi inn bifreið af gerðinni Mercedes Benz Sprinter 316 CDI með sendingarnúmerinu E. Aðflutningsskýrslu og gögnum vegna sendingarinnar er skilað inn til embættis Tollstjóra þann 2. nóvember sama ár. Þann 3. nóvember er gerð athugasemd á skýrsluna um að tollflokkun væri röng þar sem um væri að ræða 6 manna bíl sem ætti að flokkast eins og fólksbíll eftir co2 losun. Var kæranda bent á kæruheimild í kjölfarið skv. 117. gr. tollalaga.

Kærandi kærir áðurgreinda ákvörðun Tollstjóra með bréfi dags. 16. desember 2016. Þann 20. janúar 2017 sendir Tollstjóri lögmanni kæranda tölvupóst, þar sem óskað var eftir því að fá að skoða bifreiðina til að taka afstöðu til kæruefnis. Einhver tölvupóstsamskipti urðu í kjölfarið þar sem lögmaður óskaði eftir nánari skýringum hvað vöruskoðun fæli í sér.

Kærandi heimilar vöruskoðun með tölvupósti dags. 6. febrúar sama ár, með þeim fyrirvara að fá að vera viðstaddur skoðunina. Starfsmaður Tollstjóra skoðaði bifreiðina þann 9, febrúar 2017, að viðstöddum lögmanni kæranda.

III. Meginröksemdir kæranda

Kærandi heldur því fram að umrædd bifreið sé ekki fólksbifreið, þó hún hafi sæti fyrir 6 manns. Um sé að ræða sendibifreið, með möguleika fyrir verktaka að ferðast bæði með verkfæri og mannskap milli verkstaða. Kærandi telur bifreiðina vera sendibifreið og vísar til mynda af heimasíðu framleiðanda sem sýna fram á mismunandi möguleika til að nýta bifreiðar af Sprinter gerð til atvinnuvegar.

Kærandi hefur atvinnu af steypu og múrstörfum og kalla verkefni hans á mannskap til að sinna þeim. Til rekstrarhagræðingar og með tilliti til umhverfismengunar keypti hann umrædda bifreið frá Þýskalandi þar sem hún var auglýst sem sendibifreið. Þá vísar kærandi til þess að bifreiðin hefur verið skráð sem sendibifreið hjá Samgöngustofu.

Samkvæmt tollskjölum sem útbúin voru við innflutning bifreiðarinnar þá skal skrá bifreiðina í tollskrárnúmer 8704.2199. Tollstjóri féllst ekki á þá tollflokkun og telur að um sé að ræða 6 manna bifreið sem ætti að flokka líkt og fólksbifreið. Kærandi telur augljóst af myndum af bifreiðinni að ekki sé um fólksbifreið að ræða, enda sé bifreiðin skráð sem sendibifreið í skrám Samgöngustofu. Þá telur kærandi umrædda athugasemd Tollstjóra óljósa þar sem ekki er vísað til neinna raka.

IV. Niðurstöður

Ágreiningur í máli þessu snýr að tollflokkun á bifreið af gerðinni Mercedes Benz Sprinter 313 CDI. Kærandi heldur því fram að um sendibifreið sé að ræða sem eigi að flokkast í tollskrárnúmer 8704.2199. Kærð ákvörðun Tollstjóra lítur hins vegar að því að um sé að ræða bifreið fyrir 6 manns sem skuli flokkast líkt og fólksbíll eftir co2 losun í 8703.3230.

Bifreiðin er þannig útbúin að hún getur flutt einn ökumann og sex farþega. Einnig er rúmt vöruflutningarými sem er sambyggt stýrishúsinu en aðskilið með varanlegu skilrúmi fyrir aftan fjögurra manna sætisröð sem er fyrir aftan ökumann og tvö sæti eru við hlið ökumanns. Ekki er skilrúm fyrir aftan ökumann. Farþegarýmið er um 230 cm langt og vöruflutningarýmið er um 170 cm langt. Þá er burðargeta bifreiðarinnar um 1.242 kg. Tollstjóri telur ljóst að bifreiðin er ætluð til að ferja bæði farþega og varning. Bifreiðin gæti til að mynda hentað til að flytja vinnuhópa ásamt verkfærum og farangri þeirra til vinnu.

Til skoðunar á tollflokkun umræddrar bifreiðar koma til greina tveir vöruliðir, þ.e. nr. 8703 þar sem fólksflutningabifreiðar falla undir, og nr. 8704, þar sem vöruflutningabifreiðar flokkast. Kærandi fer fram á að bifreiðin sé tollflokkuð sem sendibifreið í vörulið 8704, nánar tiltekið í tollskrárnúmer 8704.2199. Í skýringabókum alþjóðatollastofnunarinnar er að finna fimm atriði sem gefa til kynna hvort bifreið sé sendibifreið eða bifreið aðallega gerð til mannflutninga í vörulið 8703. Þau atriði sem benda til þess að ökutækið eigi að flokka í vörulið 8703 eru eftirfarandi;

  • Í fyrsta lagi verður að vera fyrir hendi, í aftararými fyrir aftan bílstjóra, varanleg sæti fyrir farþega eða varanlegir festipunktar fyrir slík sæti og öryggisbelti. Sætin mega vera losanleg.
  • Í öðru lagi er nefnt að gluggar verða að vera á báðum hliðum ökutækisins í aftara rými.
  • Í þriðja lagi eru nefndar hurðir með gluggum í aftara rými.
  • Í fjórða lagi er nefndur skortur á varanlegu skilrúmi milli svæðisins fyrir ökumann og aftara rýmis.
  • Í fimmta lagi er nefnd tilvist þæginda, búnaður og innra byrði (innréttinga) sem eru oft í farþegarýmum.

Umrædd bifreið uppfyllir fjögur af þessum fimm atriðum. Þannig eru sæti fyrir fjóra farþega fyrir aftan bílstjórasætisröðina. Gluggar eru á hliðum bifreiðarinnar, það er rennihurð með gluggum á hlið bifreiðarinnar og það er ekki skilrúm sem skilur að bílstjórasætisröðina frá restinni af rýminu. Með vísan til þessa er það því mat embættisins að flokka skuli bifreiðina í vörulið 8703 eftir útblæstri koltvísýrings.

Hinn vöruliðurinn sem til skoðunar kom er vöruliður 8704 fyrir ökutæki til vöruflutninga. Í skýringabókum alþjóðatollastofnunarinnar er einnig að finna fimm atriði sem benda til þess að ökutækið eigi að flokka í þann vörulið. Þeim svipar mjög til áðurnefndra atriða fyrir vörulið 8703 en með öfugum formerkjum. Þau eru eftirfarandi:

  • Í farangursrými mega vera einfaldir bekkir sem yfirleitt eru samanfellanlegir svo hægt sé að nýta rýmið til fulls sem farangursrými. Í rýminu má hins vegar ekki vera öryggisbúnaður eða festingar sem leyfa öryggisbúnað eins og öryggisbelti.
  • Klefi fyrir ökumann og farþega á að vera aðskilinn palli (fyrir pallbifreiðar).
  • Ekki mega vera gluggar í hliðum farangursrýmis. Hurðir mega vera til staðar en þær verða að vera án glugga.
  • Varanlegt skilrúm skal vera á milli ökumanns og farþega fram í bifreiðinni annars vegar og á milli farangursrýmis.
  • Ekki mega vera til staðar þægindi, búnaður eða innréttingar í farangursrými sem oft eru í tengslum við og má finna í farþegarýmum.

Ljóst er að bifreiðin sem um ræðir í þessu máli uppfyllir ekkert af þessum atriðum og getur því ekki flokkast í vörulið 8704. Því ber að flokka bifreiðina sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga í vörðulið 8703. Varðandi þær röksemdir kæranda að bifreiðin hafi fengið skráningu hjá Samgöngustofu sem sendibifreið, sbr. upplýsingar úr gagnagrunni Samgöngustofu sem fylgdi kæru, þykir rétt að benda á að Tollstjóri er bundinn af tollskrá varðandi tollflokkun vöru, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 20. gr. tollalaga nr. 88/2005. Það hvernig Samgöngustofa skráir bifreiðina hjá sér hefur þannig ekki úrslitaþýðingu varðandi hvaða tollskrárnúmer bifreiðin hlýtur við tollflokkun.

Þá skal vísað til bindandi álits frá Evrópusambandinu, BTI reference CZ37-1381-2015, þar sem sambærileg bifreið er flokkuð í vörulið nr. 8703. Bifreiðin í því máli var fyrir jafnmarga farþega og hefur mjög svipaða burðargetu. Með vísan til ofangreinds þá er niðurstaða embættis Tollstjóra að sú hin kærða ákvörðun, dags. 3. nóvember 2016, skuli standa óbreytt og flokka ber bifreiðina sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga í vörulið 8703, nánar tiltekið í 8703.3230.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á bifreið að gerðinni Mercedes Benz Sprinter 313 CDI með forskráningarnúmerið Y, er staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til Yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan 3 mánaða frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um yfirskattanefnd nr. 30/1992.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum