Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 3/2019

Tollflokkun á fjölnota hreinsitækjum

16.6.2019

Reifun 

A kærði til úrskurðar ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun á tveimur fjölnota hreinsivélum af gerðinni Schmidt Swingo 200+. Fór kærandi fram á endurskoðun og endurgreiðslu ofgreidds vörugjalds ásamt vöxtum. Taldi kærandi að að tækin skyldu flokkast í tollskrárnúmer 8479.1000 en Tollstjóri taldi að tækin skuli flokkast í vörulið 8705.9019.

Niðurstaða: Í vörulið 8479 flokkast aðeins tæki sem ekki hafa verið talin upp eða hægt er að flokka annarsstaðar í tollskrá, til sérstakra nota. Hugtakið „til sérstakra nota“ er þýðing á hugtakinu

„individual function“ sem mætti einnig útleggja sem tæki til einstakra eða aðgreindra nota. Vöruliðnum er ætlað að ná til tækja sem lúta þröngri skilgreiningu og finnst ekki staður annarsstaðar í tollskrá. Ennfremur eru götusópar nefndir í vörulið 8705 og eru þar af leiðandi ekki ótaldir annarsstaðar, sem er skilyrði fyrir flokkun í vörulið 8479. Ákvörðun staðfest.


Í dag var hjá embætti Tollstjóra kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R

I. Kæra

Með bréfi dags. 3. júní 2019 hafa A ehf. kært til úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, ákvörðun Tollstjóra, dags. 8. apríl 2019 um tollflokkun á tveimur fjölnota hreinsivélum af gerðinni Schmidt Swingo 200+.

Kærandi óskar eftir því að Tollstjóri endurskoði ofangreinda ákvörðun og endurgreiði ofgreitt vörugjald ásamt vöxtum.

II. Málsmeðferð

Málavextir eru með þeim hætti að þann 22. febrúar 2019 voru send inn til Tollstjóra svokölluð EDI-skjöl varðandi innflutning kæranda á tveimur fjölnota hreinsitækjum með sendingarnúmerið U MYK 22 02 9 NL RTM 0094. Voru tækin tollflokkuð í tollskrárnúmer 8479.1000. Þann sama dag var skýrslan tekin til skoðunar, athugasemd send til kæranda um að tollflokkun á tækjunum væri röng og tækin tollflokkuð í tollskrárnúmer 8705.9019. Þann 8. apríl var skýrslan afgreidd og skuldfærð af hálfu kæranda með fyrirvara sem bókaður var í athugasemdum í tollakerfinu. Kærandi kærði ákvörðun tollstjóra þann 3. júní 2019, sbr. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005.

III. Meginröksemdir kæranda

Kröfur kæranda eru að ákvörðun Tollstjóra um tollflokkun tækjanna í tollskrárnúmerið 8705.9019 verði felld úr gildi og tækin verði tollflokkuð í tollskrárnúmerið 8479.1000. Þess er krafist að Tollstjóri endurgreiði kæranda ofgreidd aðflutningsgjöld að fjárhæð samtals 3.407.840, auk vaxta skv. 2. mgr. laga nr. 29/1995, frá 15. maí 2019 til greiðsludags.

Til vara krefst kærandi þess að tækin verði tollflokkuð í tollskrárnúmer 8430.2000 og endurgreidd verði sama upphæð og að ofan greinir, ásamt vöxtum frá 15. maí 2019 til greiðsludags. Kærandi gerir einnig kröfu um málskostnað úr hendi Tollstjóra vegna kostnaðar við að hafa uppi kæru þessa.

Kærandi telur að að við tollafgreiðslu tveggja Schmidt Swingo 200+ fjölnota hreinsivéla þann 8. apríl 2019 hafi Tollstjóri tollafgreitt tækin í röngum tollflokki og í andstöðu við a.m.k. tveggja ára framkvæmd embættisins við tollafgreiðslu sambærilegra tækja. Yfirheiti þess flokks sem Tollstjóri hafi valið sé „Vélknúin ökutæki til sérstakra nota, þó ekki ökutæki aðallega hönnuð til flutnings á mönnum eða vörum ( t.d. gálgabifreiðar, kranabifreiðar, slökkvibifreiðar, steypuhræribifreiðar, götuhreinsibifreiðar, úðunarbifreiðar, verkstæðisvagnar, röntgentækjavagnar).“ Kærandi telur þannig að augljóst sé að tollflokkun hafi grundvallast á þeirri röngu forsendu að um götusópa væri að ræða en slíkt sé ekki raunin, sbr. fylgiskjöl. Í því sambandi vísar kærandi til fylgiskjals nr. 3 sem er yfirlýsing, dags. 22. mars 2019, frá framleiðandanum Aebi Schmidt International AG um notkunarmöguleika umþrættra tækja. Vísar kærandi einnig til fylgiskjals nr. 4 þar sem megi sjá að ekki sé um hefðbundinn götusóp að ræða heldur fjölnota hreinsivél.

Að auki framangreinds virðist kæranda að samkvæmt tollskrá sé tollflokkur nr. 8705.9019 ætlaður fjölnota tækjum sem fyrst og fremst eru notuð á göngustígum, torgum og opnum svæðum, heldur fyrst og fremst fyrir stórar vinnuvélar sem ekið er á stofnbrautum og þjóðvegum á milli verkstaða. Framangreint sé í samræmi við þann vilja löggjafans að greidd séu vörugjöld af mengandi ökutækjum sem slíta vegakerfinu en það á ekki við um þau tæki sem til umfjöllunar eru í máli þessu. Kærandi telur aftur á móti að sá tollflokkur sem hann telur að tækin eigi undir, þ.e. tollskrárnúmer 8479.1000, taki til tækja af þessari tegund en samkvæmt tollskrá fellur undir þann flokk: „ vélbúnaður til opinberra verklegra framkvæmda“. Bendir kærandi á að hreinsun á snjó og öðru af gangstígum telst undantekningalaust til opinberra verklegra framkvæmda en slíkt eigi hins vegar sjaldnast við um notkun kranabifreiða og annarra tækja sem falla undir númerið 8705.9019.

Varakröfur kæranda í málinu eru sambærilegar aðalkröfu kæranda að frátöldu því að gerð er krafa um að tækin verði tollafgreidd í tollskrárnúmeri 8430.2000. Vísar kærandi þar til þess að samkeppnisaðilar kæranda hafi fengið sambærileg tæki tollafgreidd í þessu númeri, sem ber heitið „snjóplógur og snjóblásarar“. Þó kærandi telji tollskránúmerið 8479.1000 vera hinn eina rétta tollflokk þá gerir kærandi þá kröfu til vara að tækin verði tollafgreidd með þessum hætti, enda sýni fylgiskjöl 3 og 4 fram á að tækin nýtist bæði sem snjóplógur og snjóblásarar.

Kærandi tekur einnig fram að hann telji ótækt að tollafgreiðsla sambærilegra tækja sé með ólíkum hætti enda skekki það samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði ef 13% vörugjald sé innheimt á einu fyrirtæki á meðan ekkert vörugjald sé innheimt af öðru fyrirtæki með sambærilegri vél. Varakrafa kæranda grundvallast því m.a. á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en kærandi hafi haft réttmæta ástæðu til þess að ætla, þegar hann festi kaup á umræddum hreinsivélum til endursölu, að hann yrði ekki krafinn um vörugjald af tækjunum. Í ljósi framangreinds telur kærandi að sú ákvörðun Tollstjóra að breyta þekktri stjórnsýsluframkvæmd við úrlausn máls þessa sé óheimil og er í því sambandi einkum vísað til sjónarmiða um bann við afturvirkni réttarreglna.

IV. Niðurstöður

Í máli þessu er ágreiningur um hvort tollflokka skuli tvö tæki af gerðinni Schmidt Swingo 200+ í tollskrárnúmer 8705.9019 eða í tollskránúmerið 8479.1000, eða til vara tollskrárnúmerið 8430.2000.

Um er að ræða ökutæki sem geta framkvæmt mismunandi verk eftir því hvaða tæki eru fest á þau. Sem dæmi má nefna sópa til að sópa götur og snjóplóga til að ryðja snjó. Kærandi telur að tækin eigi að flokka í tollskrárnúmer 8479.1000, sem vélbúnaður til opinberra verklegra framkvæmda, mannvirkjagerðar o.þ.h., eða til vara að þau verði flokkuð í tollskrárnúmer 8430.2000 sem snjóplógar og snjóblásarar. Embætti Tollstjóra telur að tækin eigi að flokka í vörulið 8705 sem ökutæki til sérstakra nota þar sem götuhreinsibifreiðar eru taldar upp í vöruliðnum. Nánar til tekið í tollskrárnúmer 8705.9019.

Í vörulið 8479 flokkast aðeins tæki sem ekki hafa verið talin upp eða hægt er að flokka annarsstaðar í tollskrá, til sérstakra nota. Hugtakið „til sérstakra nota“ er þýðing á hugtakinu „individual function“ sem mætti einnig útleggja sem tæki til einstakra eða aðgreindra nota. Vöruliðnum er ætlað að ná til tækja sem lúta þröngri skilgreiningu og finnst ekki staður annarsstaðar í tollskrá. Þetta er skýrlega tekið fram í skýringabókum Alþjóðatollastofnunarinnar á hinu alþjóðlega tollflokkunarkerfi en þar segir m.a. að í þennan vörulið megi ekki flokka neina vöru sem hægt er að flokka annarsstaðar. Einnig skal það tekið fram að vörur sem flokkast í þennan vörulið og geta ekki virkað án aðkomu annarra tækja sem tengja þarf vöruna við, verða að vera af öðrum meiði en þau tæki og aðskiljanleg frá þeim. Til dæmis er sópurinn sem hægt er að setja framan á umrædd ökutæki flokkaður í þennan vörulið enda er hann með einstakt og aðgreint notkunarsvið, getur ekki virkað án ökutækisins og er vel aðgreinanlegur, enda er hægt að nota ýmiskonar tæki við umrætt ökutæki. Sé sópurinn á fastur ökutæki og óaðskiljanlegur er allt ökutækið flokkað í einn flokk, en ekki sópurinn sér og ökutækið í annað. Ökutækið sem slíkt er því ekki til sérstakra nota. Ennfremur eru götusópar nefndir í vörulið 8705 og eru þar af leiðandi ekki ótaldir annarsstaðar, sem er skilyrði fyrir flokkun í vörulið 8479.

Taka ber fram að í vörulið 8479 má flokka lítil tæki sem stjórnað er af gangandi, t.d. götusóparar og götumálningarvélar samkvæmt skýringabókum Alþjóðatollastofnunarinnar. Embætti Tollstjóra lítur svo á að jafnvel megi vera hægt að sitja á slíkum tækjum og að jafnvel megi vera yfirbygging yfir sætið en að slík tæki megi þó ekki bera frekari einkenni ökutækis og er þá horft heildstætt á tækið, t.d. á undirvagn, stýriskerfi, fjöðrunarkerfi. Beri tækið með sér að líkjast litlu tæki sem stjórnað er af gangandi ber að flokka það í vörulið 8479 en beri tækið með sér að líkjast ökutæki ber að flokka það í vörulið 8705. Það er mat embættis Tollstjóra að umrædd tæki beri heildareinkenni ökutækis og eigi því að flokka í vörulið 8705.

Hvað varakröfu kæranda varðar þá flokkast undir tollskrárnúmer 8430.2000 aðeins stakir plógar og blásarar sem síðar eru festir á ökutæki til að hægt sé að nota þá. Í númerið flokkast hvorki ökutæki sem eru með innbyggða plóga og blásara né ökutæki sem hægt er að festa plóga og blásara á. Á það ekki við í þessu máli, enda um sambyggt ökutæki með áfestanlegum tækjum.

Af þessu leiðir að embættið stendur við fyrri ákvörðun sína og flokkar tækin í tollskrárnúmer 8705.9019 sem vélknúið ökutæki til sérstakra nota, nánar til tekið götuhreinsibifreið. Niðurstöður tollflokkunar eru byggðar á túlkunarreglum nr. 1 og 6 við tollskrá en þar segir að fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum séu einungis til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skal tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða, athugasemda við tilheyrandi flokka eða kafla. Brjóti það ekki í bága við orðalag vöruliða eða athugasemda skal fylgja meðal annars túlkunarreglu 6 við tollskrá. Þar kemur fram að í lagalegu tilliti skuli flokkun vara í undirlið einstakra vöruliða byggð á orðalagi undirliðanna og sérhverri tilheyrandi athugasemd við undirliði og, að breyttu breytanda, framangreindum reglum, með því fororði að aðeins jafnsettir undirliðir verði bornir saman. Viðkomandi athugasemdir við flokka og kafla gilda einnig með tilliti til þessarar reglu, nema annað leiði af orðalagi.

Hvað varðar ábendingu kæranda um innflutning samkeppnisaðila bendir Tollstjóri á að röng framkvæmd eins aðila réttlætir ekki áframhaldandi ranga framkvæmd. Vísun í jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga réttlætir ekki að Tollstjóri víki frá réttri tollflokkun, hafi tollflokkun verið röng á öðrum stað. Ennfremur má benda á að Tollstjóri hefur 6 ár frá tollafgreiðsludegi til að endurákvarða gjöld og leiðrétta rangar skýrslur og tekur því við öllum ábendingum um ranga tollframkvæmd.

Hvað varðar kröfu um málskostnað bendir Tollstjóri á að engin heimild er til staðar til að ákvarða málskostnað í málsmeðferð hjá Tollstjóra.

ÚRSKURÐARORÐ

Embætti Tollstjóra úrskurðar skv. 117. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, að ákvörðun Tollstjóra um breytta tollflokkun, úr 8479.1000 í tollskrárnúmerið 8705.9019, á tveimur tækjum af gerðinni Schmidt Swingo 200+, sé staðfest.

Kæruréttur

Úrskurðinum er heimilt að skjóta til yfirskattanefndar, Borgartúni 21, 105 Reykjavík, innan þriggja mánaða frá dagsetningu ákvörðunar þessarar, sbr. 118. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.


Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum