Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2003.

Tollflokkun vörunnar Vita Biosa.

10.7.2003

Vísað er til bréfs kæranda, dags. 6., júní sl., þar sem gerð er athugasemd við tollflokkun embættisins á Vita Biosa sem fyrirtækið B. geymir á frísvæði fyrirtækisins A. í Reykjavík.

Litið er svo á að innflytjandi sé að kæra ákvörðun tollstjóra um tollflokkun vörunnar sbr. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

II.

Við venjubundna heimsókn starfsmanna embættisins í vörugeymslur á frísvæði A. í Reykjavík, töldu þeir sig komast að því að tiltekin vara sem þar var til geymslu hafði verið ranglega tollflokkuð í tollskrárnúmer 2106.9069 við innlögn í geymsluna. Innflytjanda var tilkynnt um þessa niðurstöðu símleiðis og gert að flokka vöruna í tnr. 2106.9039 á grundvelli þess að hún væri gerð til þess að blanda í vatn eða safa til drykkjar og væri því efni til framleiðslu á drykkjarvörum.

III.

Vara sú sem hér um ræðir er vökvi í eins lítra lituðum plastumbúðum, sem merktur er

„Vita Biosa Jurtadrykkur gerjaður með mjólkursýrubakteríum.“ Upplýsingar á umbúðum eru á þessa leið:

Vita Biosa fæðubótarefni: Vita biosa er jurtadrykkur gerjaður með mjólkursyrubakteríum, framleiddur úr blöndu jurta sem eru látnar gerjast (mjólkursýrugerjast) í vatni sem í er bætt örverurækt (EM, Effektive Microorganismer).“

Tekið er fram á umbúðunum að í jurtablöndunni sé Anísjurt, Basilikum, Grikkjasmára, Dill, Einir, Sígóð, Yllir, Lakkrísrót, Orteganó, Piparmynta, Steinselja, Kamilla, Rósmarín, Salvía, Engifer, Brenninetla, Hvönn, Tímían og Kerfill. Einnig eru á umbúðum ráðlagðar skammtastærðir 1 teskeið (5 ml) á dag í þrjá daga, en aukist smám saman í 25 ml þrisvar á dag.

Um notkunina segir að varan takist inn milli máltíða. Hana má nota óþynnta eða blandaða í glas með vatni eða safa. Hentar vel sem bragðgjafi við matargerð, til dæmis í salat og grænmetissósur.

Vita Biosa er kynnt sem fæðubótarefni í vökvaformi, jurtadrykkur sem ætlaður er til inntöku í litlum skömmtum, aðallega beint óblandað eða blandað í vatn eða safa. Skammtarnir eru frá einni teskeið á dag upp í 3 x 25 ml á dag. Varan er búin til úr jurtasöfum sem látnir eru gerjast í vatni með mjólkursýrubakteríum. Hún er ekki ætluð til lækninga eða til varnar gegn sjúkdómum.

Alþjóðatollastofnunin (World Customs Organisation) hefur ákveðið tollflokkun á vöru sem notuð er í svipuðum tilgangi og í svipuðum skömmtum. Þar er m.a. um að ræða Aloa Vera drinking gel- pure í eins lítra umbúðum sem notað er sem heilsudrykkur m.a. til að byggja upp mótstöðu gegn kvefi og flensu. Mælt er með inntöku 25 – 50 ml daglega. Stofnunin ákvað að svona vökvar sem ekki eru ætlaðir til lækninga og blandaðar umfram það sem heimilt er í vörulið 1302, jurtasafar eða kjarnar, eða í vörulið 2009, ávaxta og grænmetissafar, bæru öll einkenni drykkjarvara og skyldi því flokka í vörulið 2202.

Vita Biosa getur ekki heldur flokkast í vöruliði 1302 eða 2009 þar sem í jurtasafann hefur verið bætt vatni og örverurækt og vökvinn látinn gerjast. Vita Biosa er vökvi sem ætlaður er til inntöku og ber því öll einkenni drykkjarvöru.

Úrskurður:

Embætti tollstjórans í Reykjavík úrskurðar, skv. 100. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, að Vita Biosa jurtadrykkur, í eins lítra lituðum plastumbúðum, gerjaður með mjólkursýrubakteríum og ætlaður til inntöku í skömmtum frá 1 teskeið (5 ml) til 75 ml á dag, skuli flokkast í tollskrárnúmer 2202.9096 á grundvelli 1. og 6. almennu túlkunarreglna tollskrár.

Úrskurði þessum er heimilt að skjóta til Ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, 150 Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 10. júlí 2003.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum