Úrskurðir tollgæslustjóra

Úrskurður nr. 4/2004

Aðflutningsgjöld af bifreið af gerðinni Jeep Grand Cherokee Overland, árgerð 2004

5.2.2004

Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur móttekið bréf innflytjanda frá 20. janúar 2004 sl. þar sem kærð er sú ákvörðun embættisins að hafna við tollafgreiðslu, vörureikningi sem lagður var fram vegna tollafgreiðslu á bifreiðinni A. Bifreiðin A er af gerðinni Jeep Grand Cherokee Overland, árg. 2004 og var flutt til landsins frá Kanada.

Málavextir eru á þann veg að þann 6. maí 2003 flutti innflytjandi til landsins umrædda bifreið frá Kanada. Á aðflutningsskýrslu ásamt fylgigögnum var kaupverð bifreiðarinnar ásamt aukahlutum tilgreint að fjárhæð CAD 43.834,00 og tollverð því reiknað kr. 2.385.035,00. Aðflutningsgjöld umræddrar sendingar voru ákvörðuð með bréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 5. júní 2003, á þann veg að tollverð bifreiðarinnar var ákvarðað kr. 3.115.912,00. Í bréfi til embættisins frá lögmanni innflytjanda, dags.

30. júlí 2003, kemur fram að byggt sé á því að tollstjóri hafi með ákvörðun í bréfi sínu dags. 6. júní 2003 brotið gegn 7. gr., 10. gr., 11. gr., 12. gr., 13. gr. og 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að ákvörðunin sé ekki tæk til úrskurðar. Í ljósi þessa ákvað embætti tollstjórans í Reykjavík að endurupptaka ákvörðun aðflutningsgjalda, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með bréfi embættisins, dags. 19. ágúst 2003, var lögmanni innflytjanda tilkynnt um endurupptöku ákvörðunar aðflutningsgjalda frá 5. júní 2003 vegna umræddrar sendingar. Í bréfinu var innflytjanda veitt færi á að koma að frekari gögnum og andmælum. Bréfaskriftir, milli embættisins og lögmanns innflytjanda, áttu sér stað í kjölfarið og lutu að því að upplýsa málið og gefa innflytjanda kost á því að nýta andmælarétt sinn. Í bréfi tollstjórans í Reykjavík, dags. 22. desember 2003, voru aðflutningsgjöld vegna sendingarinnar ákvörðuð á þann veg að tollverð bifreiðarinnar A væri kr. 3.115.912,00. Eins og að framan er rakið var ákvörðun embættisins, dags. 22. desember 2003, kærð til úrskurðar með bréfi lögmanns innflytjanda, dag. 20. janúar 2004. Með kærunni fylgdi afrit af væntanlegri kæru málsins til ríkistollanefndar en frekari gögn voru ekki lögð fram.

Í 8. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum, er að finna þá meginreglu að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð hennar þ.e. það verð, sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir vöruna við sölu þeirra til útflutnings til landsins með þeim leiðréttingum sem leiðir af 9. gr. Um tollverð og tollverðsákvörðun gildir reglugerð nr. 374/1995, með síðari breytingum, en reglugerð þessi er sett með stoð í 10. gr. tollalaga, sbr. 4. gr. laga nr. 87/1995, svo og 148. gr. tollalaga. Grunnregla 8. gr. tollalaga er ítrekuð í 2. gr. tollverðsreglugerðarinnar, en þar kemur fram að tollverð innfluttrar vöru sé viðskiptaverð hennar, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir hana með þeim leiðréttingum sem leiðir af ákvæðum 3. gr., að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði sem sett eru fyrir því að viðskiptaverð vöru sé lagt til grundvallar eru tilgreind í a.-e. lið 2. gr tollverðsreglugerðarinnar. Fram kemur í e. lið reglugerðarinnar að viðskiptaverðið verði lagt til grundvallar ef tollstjóri dregur ekki í efa sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum.

Í V. kafla reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun er að finna sérákvæði vegna innflutnings ökutækja. Í 17. gr. reglugerðarinnar kemur fram að við tollafgreiðslu ökutækis skuli tollstjóri bera viðskiptaverð þess eins og það kemur fram í aðflutningsskýrslu eða fylgiskjölum saman við viðmiðunarverð ökutækja af sömu tegund, undirtegund og árgerð í því landi sem ökutækið var keypt. Tollstjóra ber að athuga hvort viðskiptaverð ökutækis sem um ræðir sé óeðlilega lágt miðað við ástand þess, innflutningsverð sams konar ökutækis sem flutt er eða hefur verið flutt til landsins á sama tíma eða markaðsverð sambærilegra ökutækja erlendis.

Í 19. gr. tollverðsreglugerðarinnar kemur fram að ríkistollstjóri skuli safna saman upplýsingum frá hlutlausum aðilum erlendis frá um viðmiðunarverð ökutækja í þeim löndum sem helst má vænta innflutnings frá og sjá til þess að tollstjórar eigi greiðan aðgang að upplýsingum þessum.

Við verðsamanburð á viðskiptaverði hinnar innfluttu bifreiðar, Jeep Grand Cherokee Overland árg. 2004, hefur embættinu ekki verið lagðar til neinar viðmiðunarbækur, sbr. 19. gr. tollverðsreglugerðarinnar. Samkvæmt gögnum embættisins hafa engar sambærilegar bifreiðar, þ.e. bifreiðar af tegundinni Jeep Grand Cherokee Overland, árgerð 2004, verið fluttar inn til landsins hjá tollstjóranum í Reykjavík á tímabilinu frá febrúar 2003 til júlí 2003. Embættið aflaði sér upplýsinga um verð á sambærilegri bifreið frá Daimlerchrysler í Kanada en embættið telur Daimlerchrysler í Kanada vera hlutlausan aðila, sbr. 19. gr. tollverðsreglugerðar. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma á heimasíðu Daimlerchrysler í Kanada er verð á Jeep Grand Cherokee Overland árg. 2004 frá CAD 53.270,00. Samkvæmt framlögðum reikningi var kaupverð umræddrar bifreiðar CAD 43.158,00. Innflytjandi var því krafinn um nánari skýringar eða gögn til sönnunar því að umrætt viðskiptaverð væri réttilega tilgreint í aðflutningsskýrslu og fylgiskjölum, sbr. 7. gr. og 18. gr. tollverðsreglugerðarinnar. Innflytjandi lagði fram verðlista yfir Jeep Grand Cherokee Overland, en þar sem verðlisti þessi er óstaðfestur og ekki að sjá á honum hvaðan hann er uppruninn telur embættið að ekki sé unnt að leggja hann til grundvallar við mat á viðskiptaverði bifreiðarinnar. Innflytjandi lagði einnig fram upplýsingar um verð á sambærilegum bifreiðum frá Bandaríkjunum og Bretlandi, en embættið telur að þar sem upplýsingar eru til staðar um verð á sambærilegri bifreið í Kanada beri að miða við það sem viðmiðunarverð, sbr. 17. gr. tollverðsreglugerðarinnar. Embættið bendir einnig á að verð þau sem fram koma í gögnum frá innflytjanda um verð sambærilegra bifreiða í Bandaríkjunum og Bretlandi eru hærri en kaupverð umræddrar bifreiðar.

Í ljósi þessa telur embætti tollstjórans í Reykjavík viðskiptaverð bifreiðarinnar samkvæmt umræddum reikningi, mun lægra en almennt markaðsverð. Embættið telur að sérstaklega verði að líta til þess að um nýja bifreið sé að ræða og því sé umræddur verðmunur óeðlilega mikill. Embættið telur því ekki unnt að leggja framlagðan vörureikningur til grundvallar tollverðsákvörðun, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 374/1995 sem og ákvæða IV. og V. kafla sömu reglugerðar.

Í IV. kafla tollverðsreglugerðarinnar er mælt fyrir um hvernig tollverð skuli ákveðið þegar viðskiptaverð verður af einhverjum ástæðum ekki lagt til grundvallar. Meginreglan við þær aðstæður er sú að leggja skuli viðskiptaverð samskonar vöru á samskonar viðskiptastigi, sem seldar eru eða fluttar inn á sama eða svipuðum tíma og varan sem verið er að virða, sbr. nánar 10.-14. gr. reglugerðar nr. 374/1995, um tollverð og tollverðsákvörðun. Embættið telur ekki unnt að beita 10.-14. gr. tollverðsreglugerðarinnar í þessu tilfelli þar sem engar sams konar eða svipaðar bifreiðar og bifreiðin A hafa verið fluttar inn til landsins hjá tollstjóranum í Reykjavík á tímabilinu frá febrúar 2003 til júlí 2003. Embættið bendir á að almennt sé erfitt að beita umræddum ákvæðum reglugerðarinnar um bifreiðir þar sem ástand og búnaður bifreiða geti verið mjög ólíkur þótt um sömu tegund, undirtegund og árgerð sé að ræða.

Sérákvæði vegna innflutnings ökutækja er að finna í V. kafla tollverðsreglugerðarinnar. Kemur þar fram í 20. gr. að við ákvörðun tollverðs skv. 15. gr. þegar ekki reynist unnt að ákvarða tollverð ökutækis á grundvelli 2. eða 10.-14. gr. skuli tollverð vera viðmiðunarverð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund eins og þar er tilgreint í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra, reiknað út skv. ákvæðum 21. gr. reglugerðarinnar.

Í væntanlegri kæru til ríkistollanefndar kemur fram að lögmaður innflytjanda byggi á því að umrædd reglugerðarákvæðið skorti fullnægjandi lagastoð og jafnframt að heimildir skorti fullkomlega til að miða við verð tilgreint í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra, eins og tekið er fram í bréfum tollstjóra dags 5. júní 2003 og 22. desember 2003. Umrædd reglugerðarákvæði vísi til bifreiðaskrár ríkistollstjóra en ekki ríkisskattstjóra. Upplýsingar hins síðarnefnda séu auk þess fjarri því að geta talist hlutlausar. Þær byggja á verðskrá bifreiðaumboða og þeirri ólögmætu viðleitni að koma í veg fyrir samkeppni. Einnig byggir lögmaður innflytjanda á því að endurákvörðun tollstjóra standist ekki lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.

Embætti tollstjóra í Reykjavík bendir á að umrædd reglugerð er sett með stoð í 10. gr. tollalaga, sbr. 4. gr. laga nr. 87/1995, svo og 148. gr. tollalaga. Eins og að framan er rakið kemur fram í 20. gr. tollverðsreglugerðarinnar að við ákvörðun tollverðs skv. 15. gr. þegar ekki reynist unnt að ákvarða tollverð ökutækis á grundvelli 2. eða 10.- 14. gr. skuli tollverð vera viðmiðunarverð nýs ökutækis af sömu tegund og undirtegund eins og þar er tilgreint í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra, reiknað út skv. ákvæðum 21. gr. reglugerðarinnar. Embætti ríkistollstjóra hefur verið lagt niður og hefur embætti tollstjóra í Reykjavík síðan þá stuðst við bifreiðaskrá ríkisskattstjóra við ákvörðun tollverðs skv. 20. gr. reglugerðarinnar. Í bifreiðaskrá ríkistollstjóra frá 1998 segir að skráin sé byggð á bifreiðaskrá ríkisskattstjóra frá 1998. Í ljósi þessa telur embættið ljóst að upplýsingar þær sem fram komu í bifreiðaskrá ríkistollstjóra hafi í raun verið byggðar á sömu upplýsingum og nú koma fram í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra. Því telur embættið sér heimilt að byggja útreikning sinn, skv. 20. gr. tollverðsreglugerðarinnar, á upplýsingum sem fram koma í bifreiðaskrá ríkisskattstjóra.

Embættið bendir einnig á að við útreikning, skv. 21. gr. tollverðsreglugerðarinnar, var viðmiðunarverð embættisins miðað við Jeep Grand Cherokee Overland, árgerð 2003 í stað Jeep Grand Cherokee Overland, árgerð 2004 og telur embættið það til hags fyrir innflytjanda.

Hvað varðar þau andmæli lögmanns innflytjanda að umrædd ákvörðum embættisins standist ekki lög nr. 2/1993 um evrópska efnahagssvæðið, bendir embættið á að umrædd lög eiga aðeins við innflutning frá löndum sem eru aðildarríki að EES- samningnum. Umrædd bifreið var flutt inn frá Kanada en Kanada er ekki aðili að EES- samningnum. Því telur embættið að lög nr. 2/1993 um evrópska efnahagssvæðið eigi ekki við um innflutning umræddrar bifreiðar.

Hvað varðar afreiknaða álagningu seljanda, við útreikning skv. 21. gr., bendir embættið á að skýrt sé tekið fram í tollverðsreglugerðinni að áætla skuli álagningu seljanda 12%. Embættið telur því ekki unnt að víkja frá orðalagi umræddrar reglugerðar.

Með vísan til framanritaðs er ákveðst tollverð bifreiðarinnar því kr. 3.115.912,00 reiknað skv. 21. gr. reglugerðar nr. 374/1995, með síðari breytingum. Við útreikning tollverðs var miðað við verð á nýrri bifreið eins og það kemur fram í bifreiðaskrá fyrir árið 2003.

Úrskurðurinn er kæranlegur til ríkistollanefndar, Skúlagötu 57, Reykjavík og er kærufrestur 60 dagar talið frá póstlagningardegi bréfs þessa, sbr. 1. mgr. 101. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum.

Reykjavík, 5. febrúar 2004.

Til baka

Þessi síða notar vefkökur. Lesa meira Loka kökum